Skip to main content

Doktorsvörn í byggingarverkfræði - Milad Kowsari

Doktorsvörn í byggingarverkfræði - Milad Kowsari - á vefsíðu Háskóla Íslands
Hvenær 
28. maí 2019 13:00 til 14:30
Hvar 

Aðalbygging

Hátíðarsalur

Nánar 
Allir velkomnir

Doktorsefni: Milad Kowsari

Heiti ritgerðar: Bayesísk kvörðun á eigindlegum líkönum af yfirborðshreyfingum í íslenskum jarðskjálftum og áhrif á jarðskjálftahættumat (e. Bayesian Inference of Empirical Ground Motion Models to Icelandic Strong-motions and Implications for Seismic Hazard Assessment)

Andmælendur:
Dr. John Douglas, lektor við Umhverfis- og byggingarverkfræðideild Háskólans í Strathclyde, Glasgow, Skotlandi.

Dr. Fabrice Cotton, prófessor við Háskólann í Potsdam, GFZ Rannsóknarmiðstöð jarðvísinda, Þýskalandi.

Leiðbeinandi: Dr. Benedikt Halldórsson, rannsóknaprófessor við Umhverfis- og byggingarverkfræðideild Háskóla Íslands, forstöðumaður rannsókna við Rannsóknarmiðstöð Háskóla Íslands í jarðskjálftaverkfræði, og sérfræðingur við úrvinnslu- og rannsóknasvið Veðurstofu Íslands.

Einnig í doktorsnefnd:
Dr. Sigurjón Jónsson, prófessor í jarðeðlisfræði við King Abdullah vísinda- og tækniháskólann í Saudi Arabíu.

Dr. Birgir Hrafnkelsson, prófessor í tölfræði við Raunvísindadeild Háskóla Íslands.

Dr. Jónas Þór Snæbjörnsson, prófessor við Tækni- og verkfræðideild Háskólans í Reykjavík.

Doktorsvörn stýrir: Dr. Bjarni Bessason, prófessor við Umhverfis- og byggingarverkfræðideild Háskóla Íslands.

Ágrip

Ísland er virkasta jarðskjálftasvæði í norðurhluta Evrópu. Þrátt fyrir það er þróun dvínunarlíkinga fyrir yfirborðshreyfingar af völdum jarðskjálfta áskorun vegna skorts á gögnum, en slíkar dvínunarlíkingar eru nauðsynlegar fyrir mat á jarðskjálftavá sem er undirstaða jarðskjálftahönnunar mannvirkja. Í mörgum tilfellum hafa því líkingar frá jarðskjálftasvæðum í öðrum löndum verið notaðar. Þessar líkingar ná hins vegar ekki að lýsa á fullnægjandi hátt þeim jarðskjálftahreyfingum sem mælst hafa í stórum jarðskjálftum á brotabelti Suðurlands. Engu að síður hafa sumar þessara líkinga nauðsynlega eiginleika sem lýsa mettun yfirborðshreyfinga frá stórum jarðskjálftum, sér í lagi nálægt jarðskjálftasprungunum sjálfum. Í þessu verkefni er fyrst sýnt fram á að líkingar fyrir önnur lönd eru afar óviðeigandi fyrir íslenskar aðstæður. Af þeim sökum eru líkingarnar endurkvarðaðar fyrir íslenskar yfirborðshreyfingar í miðlungs til stórum jarðskjálftum á Suðurlandi. Kvörðunin er framkvæmd með Bayesískum tölfræðiaðferðum sem nýta Monte Carlo hermun á Markov-keðjum. Þessi aðferð nýtir upplýsingar um stika líkansins í formi upphafsþéttifalla sem hafa leiðbeinandi áhrif á niðurstöðurnar í ljósi þeirra gagna sem til eru. Hinar nýju dvínunarlíkingar lýsa íslenskum yfirborðshreyfingum afar vel og hafa að auki þá eiginleika sem vænst er fyrir jarðskjálfta af stærðum sem er ekki að finna í íslenskum gögnum. Þá hefur ný aðferð til vals á slíkum líkönum fyrir mat á jarðskjálftavá verið þróuð og næmi mats á jarðskjálftavá á Norðurlandi verið ákvarðað miðað við upprunaleg og endurkvörðuð líkön. Sýnt er að áreiðanleiki matsins eykst við notkun hinna nýju líkinga, bæði í fjar- og nærsviði jarðskjálfta. Líkönin sem hafa verið þróuð í þessu verkefni eru því sérstaklega vel fallin til notkunar í endurmati á jarðskjálftavá á Íslandi.

Um doktorsefnið

Milad Kowsari er fæddur árið 1986 í Íran. Hann hlaut meistaragráðu í byggingarverkfræði frá Háskólanum í Kúrdistan, Íran, árið 2012 þar sem hann hlaut einnig viðurkenningu fyrir rannsóknir sínar sem fjölluðu um beitingu nýrra tölfræðiaðferða við mat á jarðskjálftahættu í Teheran í Íran. Hann sinnti einnig stundakennslu ásamt því að birta greinar og bókarkafla um rannsóknir sínar. Doktorsnám hans í jarðskjálftaverkfræði við Háskóla Íslands var hluti af öndvegisverkefni Rannís sem hófst árið 2015. Samhliða því hefur hann sótt námskeið í Bayesískri tölfræði við Háskóla Íslands og námskeið í jarðskjálftaverkfræði við Háskólann í Patras í Grikklandi. Eftir doktorsnámið liggja fjórar tímaritsgreinar, þar af tvær þegar birtar, og sex ritrýndar ráðstefnugreinar, auk margra fyrirlestra og veggspjalda á ráðstefnum. Hann hefur hlotið doktorsstyrk Eimskipafélagsins til eins árs úr Rannsóknarsjóði Háskóla Íslands árið 2018, og tvo ferðastyrki frá Erasmus+ áætluninni til að stunda rannsóknir við Háskólann í Patras og Háskólann í Potsdam, Þýskalandi. 

Viðburður á facebook

Milad Kowsari

Doktorsvörn í byggingarverkfræði - Milad Kowsari