Skip to main content

Doktorsvörn í almennum málvísindum: Alexander Andrason

Doktorsvörn í almennum málvísindum: Alexander Andrason - á vefsíðu Háskóla Íslands
Hvenær 
4. mars 2022 13:00 til 15:00
Hvar 

Aðalbygging

Hátíðasalur

Nánar 
Aðgangur ókeypis

Föstudaginn 4. mars 2022 fer fram doktorsvörn við Íslensku- og menningardeild Háskóla Íslands. Þá ver Alexander Andrason doktorsritgerð sína í almennum málvísindum, Polish Borrowings in Wymysorys. A Formal Linguistic Analysis of Germano-Slavonic Language Contact in Wilamowice. Vörnin fer fram í Hátíðasal í Aðalbyggingu Háskóla Íslands og hefst kl. 13:00. (Smellið hér til að fylgjast með streymi frá vörninni).

Andmælendur við vörnina verða dr. Tomasz Wicherkiewicz, prófessor við Adam Mickiewicz háskóla í Poznań, og dr. Þórhallur Eyþórsson, prófessor við Mála- og menningardeild Háskóla Íslands. Torfi H. Tulinius, forseti Íslensku- og menningardeildar, stjórnar athöfninni.

Um rannsóknina

Rannsókn Alexanders fjallar um formlega lántöku úr pólsku í nútíma vymysorysku – germanskt minnihlutatungumál sem talað er af nokkrum tugum manna í bænum Wilamowice í Póllandi. Verkið, sem byggir á nútímalegum kenningum um lántöku og rannsóknum sem gerðar voru á staðnum, skjalfestir, lýsir og útskýrir öll tilvik og gerðir pólskrar lántöku sem er að finna í málfræði og orðasafni vymysorysku 21. aldar. Gögnin sýna að pólska hefur haft mikil áhrif á vymysorysku, bæði megindlega og eigindlega. Megindleg áhrif koma fram í hárri tíðni tungumálaþátta sem hafa verið fengnir að láni. Eigindleg áhrif sjást á fjölbreytileika þeirra hluta tungumálsins sem hafa orðið fyrir áhrifum, hvort sem það er hljóðkerfi (pólska hefur haft áhrif á hljóð, hljóðkerfi, hljóðskipun og hljómfall), orðmyndunar- orðbeygingarkerfi (pólska hefur haft áhrif á formgerð orða, bæði afleiðslu og beygingar), orðskipun (pólska hefur haft áhrif á setningagerð) eða orðasafn (pólska hefur haft áhrif á næstum alla orðflokka og flestar tegundir þeirra). Umfang pólskra áhrifa eru slík, að telja verður að upprunaleg gerð vymysorysku og germanskur kjarni hennar eigi á hættu að hverfa, þar sem tungumálið færist í átt að blönduðu germansk-slavnesku sniði.

Um doktorsnefnið

Alexander Andrason lauk BA-prófi í almennum málvísindum frá Háskóla Íslands og MA-prófi í íslenskri málfræði frá sama skóla. Hann er með doktorsgráðu í semítískum málum frá Complutense háskóla í Madrid og doktorsgráðu í afrískum málum frá Háskólanum í Stellenbosch.

Alexander Andrason.

Doktorsvörn í almennum málvísindum: Alexander Andrason