Doktorsvörn Eddu Óskarsdóttur | Háskóli Íslands Skip to main content

Doktorsvörn Eddu Óskarsdóttur

Hvenær 
31. ágúst 2017 13:00 til 16:00
Hvar 

Hátíðasalur Háskóla Íslands

Nánar 
Aðgangur ókeypis

Edda Óskarsdóttir ver doktorsritgerð sína í menntavísindum við Kennaradeild, Menntavísindasviði Háskóla Íslands:

„Constructing support as inclusive practice: A self-study. Á íslensku: Skipulag stuðnings í skóla án aðgreiningar: fagleg sjálfsrýni“

Andmælendur eru dr. Clare Kosnik, prófessor við University of Toronto, og dr. Kristine Black-Hawkins, dósent við University of Cambridge

Aðalleiðbeinandi var dr. Hafdís Guðjónsdóttir, prófessor við Menntavísindasvið Háskóla Íslands, meðleiðbeinandi var dr. Deborah Tidwell, prófessor við University of Northen Iowa, auk þeirra sat í doktorsnefnd dr Patricia Thomson, prófessor við University of Nottingham.

Baldur Sigurðsson deildarforseti Kennaradeildar Menntavísindasviðs, stjórnar athöfninni.

Um verkefnið

Hér er um að ræða rannsókn á og rannsókn í starfi mínu sem deildarstjóri stoðþjónustu í grunnskóla. Megintilgangur rannsóknarinnar var að umbreyta skipulagi stoðþjónustu í einum grunnskóla, Vatnaskóla, þannig að stuðningur yrði án aðgreiningar, auk þess að öðlast dýpri skilning á hlutverki mínu í starfi við að efla forystu og samstarf. Ég nýtti aðferðir faglegrar sjálfsrýni við rannsóknina til að öðlast skilning á breytingaferlinu og hlutverki forystu í starfi og var rannsókninni skipt í þrjú skeið: undirbúningsskeið, framkvæmdaskeið og ígrundunarskeið.

Á undirbúningsskeiðinu tók ég viðtöl við stjórnendur, kennara, starfsfólk stoðþjónustu og námsráðgjafa í skólanum til að öðlast innsýn inn í skilning þeirra á skóla án aðgreiningar og hugmyndir þeirra um stoðþjónustuna og samstarf. Á greiningu þessa gagna byggði ég síðan áætlun sem var framkvæmd á næsta stigi rannsóknarinnar.

Á framkvæmdaskeiðinu vann ég að breytingum á skipulagi stoðþjónustunnar samkvæmt framkvæmdaáætlun og skráði í rannsóknardagbók. Einnig tók ég viðtal við mæður nokkurra barna í skólanum, gerði verkefni með nemendum og tók viðtöl við nokkra þeirra, og tók viðtal við stuðningsfulltrúa. Greining á gögnum af þessu skeiði gaf innsýn inn í hvernig til tókst með að breyta skipulagi stoðþjónustunnar, hverjar voru helstu áskoranirnar og hvernig samstarf breyttist á tímabilinu.

Á ígrundunarskeiðinu rýndi ég í það sem ég hafði lært á rannsókninni, ein og með aðstoð annarra, í þeim tilgangi að greina gögnin og skilja þróun mína í starfi og hugsun. Með ígrundun gagna og samvinnu við rýnivini náði ég að setja fram í niðurstöðum sögu sem aðrir geta samsamað sig við og jafnvel lært af.

Niðurstöðurnar sýna að það reyndist ekki auðvelt að ná markmiðum verkefnisins varðandi umbreytingu á stoðþjónustunni. Það voru ýmis ljón í veginum sem gerðu ferlið flókið. Stærsta áskorunin reyndist vera að breyta orðræðu fötlunar, meðaumkunar og læknisfræði sem stýrði hugarfari mínu og annarra og setti mark sitt á hvernig stoðþjónustunni var háttað.

Um doktorsefnið

Edda Óskarsdóttir (f. 1968) starfar í hlutastarfi við Evrópumiðstöð um sérkennslu og skóla án aðgreiningar (European Agency for Special Needs and Inclusive Education) auk þess sem hún er aðstoðarkennari á Menntavísindasviði. Edda lauk B.Ed. prófi frá Kennaraháskóla Íslands 1990 og MA í sérkennslu frá University of Oregon 1993. Edda starfaði sem kennari, sérkennari og deildarstjóri stoðþjónustu frá 1994-2014 og hefur verið aðstoðarkennari á Menntavísindasvið frá árinu 1999.

Edda er gift Ólafi Andra Ragnarssyni og eiga þau dæturnar Kristínu, Lilju Rut, Kaðlín Söru og Ragnheiði Írisi auk tveggja barnabarna, Guðmundar Kára og Guðrúnar Báru

Netspjall