Skip to main content

Kennarar í kynfræði

Sóley S. Bender, prófessor við Hjúkrunarfræðideild og formaður námsstjórnar.
Netfang: ssb@hi.is
Umsjón námskeiðanna: Kroppurinn, kynlíf og kynheilsa og Kynhegðun mannsins.

Sóley hefur stýrt yfir tuttugu rannsóknarverkefnum á sviði kynheilbrigðis (sexual- and reproductive health), bæði megindlegum og eigindlegum og verið í rannsóknarsamstarfi við marga aðila, bæði innlenda sem erlenda. Hún hefur staðið að ýmsum landskönnunum. Hafa rannsóknirnar einkum náð til unglinga og ungs fólks en einnig kvenna á frjósemisskeiði og unglingsmæðra. Meginviðfangsefni rannsóknanna hafa verið um kynfræðslu og kynheilbrigðisþjónustu en jafnframt um þunganir unglingsstúlkna, kynhegðun unglinga, notkun getnaðarvarna, árangur ráðgjafar um getnaðarvarnir og um kynlíf á meðgöngu og eftir fæðingu. Hún hefur ritstýrt og samið heildstæð kynfræðslunámsefni, skrifað fjölda fræðigreina og bókarkafla um kynheilbrigðismál. Sóley er sérfræðingur í kynheilbrigði og forstöðumaður fræðasviðs um kynheilbrigði við Hjúkrunarfræðideild og Landspítalann. Hún var ráðgjafi á sviði kynheilbrigðis í Regional Advisory Panel, á vegum Evrópuskrifstofu WHO, á árunum 2007-2013.

Sólveig A. Bóasdóttir, dósent við Guðfræði- og trúarbragðafræðideild.
Netfang: solanna@hi.is
Umsjón námskeiðsins: Kynverund, siðfræði og samfélag 

Siðfræðilegar rannsóknir Sólveigar Önnu má staðsetja á sviði einkalífsins og hafa einkum verið á sviði kynlífssiðfræði í þrengri merkingu. Doktorsritgerð hennar (1998)  fjallaði um siðfræði fjölskyldunnar og  hjónabandsins – og hjónabandið og inntak þess var einnig í brennidepli rannsóknar hennar Ást, kynlíf og hjónaband sem fjallaði um hjónaband samkynhneigðra. Kynhneigð, kynvitund, hinsegin fólk, hið góðra og vonda kynlíf, kynferðislegt ofbeldi gagnvart börnum og ofbeldi karla gagnvart konum eru stef sem hún hefur fjallað ítarlega um á síðustu misserum og árum og tengt áhrifum trúarbragða í menningunni. Sólveig Anna er þátttakandi í norrænu netverki siðfræðinga um kynlífsiðfræði.

Einnig koma ýmsir aðrir innlendir og erlendir sérfræðingar að kennslunni.