Skip to main content

Strandir 1918

Strandir 1918 - á vefsíðu Háskóla Íslands

Verkefnið Strandir 1918 var áberandi á árinu 2018, á 100 ára fullveldisafmæli Íslands. Á því ári var sett upp sögusýning á Sauðfjársetri á Ströndum með sama heiti og haldin þrjú málþing í samvinnu Sauðfjársetursins og Rannsóknaseturs HÍ á Ströndum og fleiri aðila, m.a. grunnskólanna í héraðinu, fræðafélagsins Fjölmóðs, Leikfélags Hólmavíkur, Kómedíuleikhússins og fleiri menningarstofnana.

Rannsóknasetur HÍ á Ströndum tók virkan þátt í verkefninu, bæði uppsetningu sýningar og stýrði einnig málþingunum í Sævangi á afmælisárinu. Eins var unnið að verkefni sem snérist um dagbækur í héraðinu á árinu 1918 og skoðað hvað er til af ljósmyndum af Ströndum frá fyrstu tveimur áratugum aldarinnar. Segja má að þannig hafi með góðum árangri verið tengd saman þrjú rannsóknarverkefni sem setrið vinnur að.

Á árinu 2020 fékkst stuðningur til að reka ákveðin endahnút á verkefnið með útgáfu bókar sem byggði á þessum málþingum og vinnu frá 1918. Hún bar titilinn Strandir 1918: Ferðalag til fortíðar og kom út fyrir jólin 2020. Dagrún Ósk Jónsdóttir doktorsnemi í þjóðfræði var ráðin ritstjóri og í bókinni eru fræðigreinar eftir fjóra Strandamenn, dagbókabrot frá 1918 og sögur af ferðum um Strandir frá þessum tíma, auk þess sem Guðni Th. Jóhannesson forseti Íslands ritaði formála að bókinni. Sauðfjársetrið og Rannsóknasetrið gáfu bókina út saman og var það frumraun beggja í bókaútgáfu.

Stuðningur við verkefnið kom frá Safnasjóði, nefnd um 100 ára fullveldisafmæli Íslendinga, Uppbyggingarsjóði Vestfjarða, Frumkvæðissjóði Sterkra Stranda og sveitarfélaginu Strandabyggð.
 

Dagbækur frá 1918

Rannsóknasetur HÍ á Ströndum hefur tekið til sérstakrar skoðunar þrjár dagbækur Strandamanna frá árinu 1918 í tengslum við verkefnið Strandir 1918. Ef fólk veit um fleiri slíkar dagbækur Strandamanna frá þessu ári erum við áfjáð í að fá vitneskju um þær (jonjonsson@hi.is). 

Hér má nálgast uppskrift á dagbók Þorsteins Guðbrandssonar á Kaldrananesi frá árinu 1918 (Lbs 3809 8vo), með nútímastafsetningu. Skjalið var fyrst birt af Rannsóknasetrinu á héraðsfréttavefnum strandir.is á Þorláksmessu 2018 og hefur endurskoðuð útgáfa nú verið birt í bókinni Strandir 1918. Hér má nálgast fyrstu útgáfu skjalsins sem hefur umfram hina inngang eftir Jón Jónsson þjóðfræðing: 

Hinar dagbækurnar sem skoðaðar hafa verið í verkefninu Strandir 1918 eru dagbók Níelsar Jónssonar á Grænhól á Gjögri í Árneshreppi og dagbók Kristjáns Helgasonar á Þambárvöllum í Bitru. Byrjað er að skrifa þetta ár upp úr þeim báðum, en slíkt er tímafrek iðja og dagbók Níelsar er afar ítarleg. Áfram verður unnið í rólegheitunum að skoðun og uppskrift á dagbókum Strandamanna frá þessu ári, þrátt fyrir endahnútinn sem í útgáfu bókarinnar felst. 
 

Tímaritagreinar um Strandir frá því um 1918

Leitað var að heimildum um Strandir í dagblöðum og tímaritum frá árinu 1918 í tengslum við verkefnið. Svo heppilega vill til að tvær ítarlegar frásagnir eða ferðasögur um allar Strandir frá því um það leyti birtust í tímaritum, önnur er ferðasaga og hin úttekt á búnaðarástandi á Ströndum. Þessar heimildir koma að miklu gagni við rannsókn á Ströndum 1918. 

  • Guðmundur Hjaltason: Ferð um Strandasýslu vorið og fyrra hluta sumars 1917. Birtist i bútum í Lögréttu 1918. 
  • Sigurður Sigurðarson: Strandasýsla. Búnaðarrit 31. árg. 1917 (1.-2.tbl.), bls. 127-152. 
     

Vefurinn heimildir.is 

Loks er að nefna vefinn heimildir.is sem Þjóðskjalasafn heldur úti. Þar er að finna margar merkilegar heimildir frá þessum árum, m.a. túnakort, heimildir um fastaeignamat sem gerðar voru um allt land á árunum 1916-1919 og loks prestþjónustubækur og sóknarmannatöl frá svæðinu. Allt kemur þetta að miklu gagni við að kortleggja daglegt líf og lifnaðarhætti á Ströndum 1918.
 

Ljósmyndir frá 1918

Myndir af Ströndum frá fyrstu áratugum 20. aldar eru frekar fáar, varðveittar á söfnum. Þó eru tvö söfn frá þessum árum á Ljósmyndasafni Íslands í Þjóðminjasafni. Annars vegar er það myndasafn sem komið er frá Guðmundi G. Bárðarsyni á Bæ í Hrútafirði og hins vegar myndir frá Sigurjóni Jónssyni ljósmyndara á Kollsá í Hrútafirði. Þessar myndir voru nýttar við sýningarhaldið og útgáfu bókarinnar. 

Veisluhöld á Bæ í Hrútafirði 1919 - ljósm. á Þjóðminjasafni