Erasmus+ er menntaáætlun Evrópusambandsins og gerir akademísku starfsfólki og starfsfólki í stjórnsýslu HÍ kleift að sækja um styrki til gestakennslu eða starfsþjálfunar/heimsókna í þátttökulöndum Erasmus+. Umsóknarfrestur fyrir haustmisseri 2026 er 15. maí 2026 Umsóknarfrestur fyrir vor og sumar 2027 er 15. nóvember 2026 Umsóknum fyrir ferðir á þessum tímabilum er aðeins svarað eftir umsóknarfrest. Umsóknir sem berast fyrir frest fá forgang. Tekið er við umsóknum eftir umsóknarfresti sem er þá svarað jafn óðum, en styrkjum er þá einungis úthlutað ef nægt fjármagn er til. Æskilegt er að umsóknir berist til Alþjóðasviðs minnst 8 vikum fyrir áætlaða brottför og umsóknum sem berast innan 4 vikna frá áætlaðri brottför verður synjað. Rafræn umsókn Tækifæri fyrir starfsfólk Hverjir geta fengið styrk? Kennarar, fræðimenn og aðrir starfsfólk geta sótt um styrki fyrir kennara- og starfsmannaskipti á vegum Erasmus+. Stundakennarar geta þó ekki sótt um. Starfsfólk sem starfar við stofnanir sem eru tengdar Háskólanum getur sótt um styrk ef ferð er metin mikilvæg fyrir kennslu eða nám við Háskólann. Starfsfólk HÍ á eftirlaunum (emeritus/emerita) geta ekki sótt um kennara- og starfsmannaskipti nema með samþykki deildar og ef samningur um áframhaldandi verkefni liggur fyrir samkvæmt verklagsreglum um starfsfólk á eftirlaunum. Gestakennsla við samstarfsskóla Hægt er að fara í gestakennslu í háskólum í þátttökulöndum Erasmus+ Í gestakennslu þarf Erasmus+ stofnanasamningur milli Háskóla Íslands og gestaskóla að vera fyrir hendi. Ekki eru gerðir nýir samningar aðeins fyrir gestakennslu, nema fyrir fastráðið starfsfólk Hægt er að hafa samband við starfsfólk Alþjóðasviðs til að kanna hvar samningar liggja fyrir Kennslan getur verið í hvaða fræðigrein sem er og á hvaða námsstigi sem er. Lágmarksdvöl er tveir dagar í starfi. Hámark 14 dagar eru styrktir en ferðir geta verið allt að 60 dagar. Kennsluskylda er átta klukkustundir við gestaskólann á viku. Ef dvölin er styttri en vika er kennsluskylda samt sem áður átta klukkustundir. Starfsfólk getur einnig tekið þátt í blönduðum kennaraskiptum, þar sem kennsla á staðnum er tengd við kennslu á netinu. Kennsluskylda er átta klukkustundir á viku. Hægt er að blanda saman gestakennslu og starfsþjálfun og kenna aðeins hluta dvalar. Í gestakennslu með starfsþjálfun er kennsluskylda fjórar klukkustundir á viku. Þá skal fylla inn kennsluáætlun um gestakennslu (sjá Rafræn umsókn og fylgigögn neðar á síðunni). Starfsþjálfun Akademískt starfsfólk og starfsfólk í stjórnsýslu getur farið í starfsþjálfun (staff training) í þátttökulöndum Erasmus+ Starfsþjálfun getur gerið t.d. þátttaka í vinnustofum, fagtengd námskeið, fylgiþjálfun (job shadowing), skipulagðar heimsóknir til samstarfsskóla eða annarra skóla, stofnana, félagasamtaka eða fyrirtækja. Þjálfunin verður að vera tengd starfi umsækjanda og markmið og gagnsemi ferðarinnar fyrir bæði umsækjanda og HÍ skýr. Starfsfólk getur einnig tekið þátt í blönduðum starfsmannaskiptum, þar sem dvöl á staðnum er tengd við þjálfun á netinu. Ekki þarf að vera samningur á milli HÍ og móttökustofnunar. Ef háskólar eru heimsóttir verður sá skóli að vera með gilda Erasmus vottun (ECHE – Erasmus Charter for Higher Education) Lágmarksdvöl er tveir dagar í þjálfun. Hámark 14 dagar eru styrktir en ferðir geta verið allt að 60 dagar. Þátttaka í ráðstefnum og tungumálanámskeið eru ekki styrkt. Hópumsóknir eru ekki styrktar og umsóknir verða að vera í nafni einstaklings. Gestafyrirlesarar úr atvinnulífinu Deildir í HÍ geta sótt um styrk til að bjóða til sín gestafyrirlesara úr atvinnulífinu í Evrópu (frá þátttökulöndum Erasmus+). Þessir fyrirlesarar geta ekki komið frá Háskólum. Starfsmaður HÍ sækir um styrkinn fyrir hönd sinnar deildar og tekur fram í umsókninni að verið sé að sækja um styrk fyrir gestafyrirlesara. Gestafyrirlesarar geta tekið þátt í blönduðum kennaraskiptum, þar sem kennsla á staðnum er tengd við kennslu á netinu. Greiðsla á styrk vegna heimsókna gestafyrirlesara úr atvinnulífinu er gerð til deildar ef deild leggur út fyrir kostnaði. Annars er greiðslan gerð beint til þátttakanda. Lágmarksdvöl er einn dagur í kennslu. Hámark 14 dagar eru styrktir en heimsóknir geta verið allt að 60 dagar. Það er ekkert lágmark á kennsluskyldu fyrir gestafyrirlesara. Styrkupphæðir Erasmus+ veitir bæði ferðastyrk og dvalarstyrk en báðar tegundir styrkja eru staðlaðar. Markmið styrkjanna er að styðja fólk til ferðalags og uppihalds á meðan dvöl stendur, en er ekki endilega ætlað að koma til móts við allan kostnað sem fylgir dvölinni. Ferðastyrkur er á bilinu 309-1188 EUR, en miðað er við fjarlægð frá Reykjavík. Dvalarstyrkir eru 148, 170, eða 190 EUR á dag, en upphæðirnar eru staðlaðar fyrir háskóla á Íslandi og miðast við áfangastað. Hægt er að sjá upphæðir fyrir hvert land á heimasíðu Landskrifstofu Erasmus+. Styrkur vegna gestafyrirlesara úr atvinnulífinu er 190 EUR á dag. Heimilt er að styrkja tvo ferðadaga ef sýnt þyki að tveir dagar fari í ferðalög. Hægt er að sækja um viðbótarferðastyrk fyrir háum ferðakostnaði ef sýnt þykir að ferðastyrkur nægir ekki fyrir 70% af ferðakostnaði, miðað við hagkvæmasta ferðamátann. Nánar um viðbótarferðastyrk: Aðeins 80% af raunkostnaði er styrkt Ferðir á milli flugvalla og nærliggjandi borga eru ekki reiknaðar upp í raunferðakostnað þegar sótt er um viðbótarstyrk Miðað er við 100 km fjarlægð svo hægt sé að telja slíkan ferðakostnað með í umsókn Starfsmenn sem vilja sækja um viðbótarferðastyrk þurfa að senda inn umsókn þess efnis áður en styrksamningur er undirritaður Ekki er hægt að sækja um viðbótarferðastyrk ef flugmiði er keyptur innan 4 vikna frá upphafi dvalar Starfsfólk getur haft samband við Alþjóðasvið til að fá sent umsóknareyðublaðið fyrir viðbótarferðastyrk Sýni þátttakandi fram á að aðalferðamáti ferðarinnar hafi verið vistvænn (miðað við fjölda kílómetra) er hægt að veita grænan ferðastyrk í viðbót við almennan ferðastyrk í samræmi við grænar áherslur Erasmus+. Starfsfólk á leið í kennara- og starfsmannaskipti á vegum Erasmus+ getur sótt um inngildingarstyrk vegna aukalegs kostnaðar, byggðan á raunkostnaði. Þessir styrkir eru fyrst og fremst hugsaðir fyrir þau sem með þátttöku myndu mæta aukalegum kostnaði umfram aðra vegna fötlunar eða veikinda. Alþjóðasvið aðstoðar starfsfólk við umsóknarferlið en sækja þarf um til Landskrifstofu Erasmus+. Umsóknarferlið Rafræn umsókn og fylgigögn Sótt er um rafrænt í gegnum Ugluna Til að umsókn teljist gild verður að fylgja með rafrænu umsókninni undirrituð áætlun um kennslu eða þjálfun (mobility agreement). Nóg er að áætlun sé undirrituð af umsækjanda og næsta yfirmanni. Eyðublað fyrir kennsluáætlun Eyðublað fyrir starfsþjálfunaráætlun Eyðublað fyrir gestakennara úr atvinnulífinu Móttökustofnun verður að vera skilgreind þegar umsókn er send inn. Undirskrift frá móttökustofnun þarf ekki að liggja fyrir þegar umsókn er send inn en verður að berast Alþjóðasviði áður en styrksamningur er sendur út Koma þarf skýrt fram hversu margir dagar (án ferðadaga) eru fyrirhugaðir við gestastofnun og að einhver virkni eigi sé stað alla dvalardagana. Mat á umsóknum Alþjóðasvið metur allar umsóknir eftir umsóknarfrest Kennslu- eða starfsþjálfunaráætlun verður að vera vandlega fyllt út Markmið með heimsókninni verða að vera skýr og gagnsemi fyrir bæði starfsmann og Háskólann ljós. Tilgangur ferðar verður að vera í samræmi við markmið deildar/einingar. Starfsfólk Háskólans nýtur forgangs fram yfir starfsfólk stofnana sem eru tengdar HÍ Umsækjendur sem ekki hafa fengið styrk áður njóta forgangs Sami starfsmaður getur ekki fengið fleiri en tvo styrki á sama skólaári (september til september) Sem mest dreifing styrkhafa skal vera á svið og deildir HÍ Til greina kemur að láta deildarstjóra, deildarforseta eða aðra velja úr umsóknum fyrir hönd sinnar deildar ef velja þarf á milli starfsmanna þar sem margir innan sömu einingar sækja um að fara í svipaða ferð Ófullnægjandi umsóknum er synjað, en umsækjandi á kost á að senda inn uppfærða áætlun til Alþjóðasviðs, ef við á Brottför og heimkoma Fyrir brottför Eftir að umsókn hefur verið samþykkt er starfsmanni tilkynnt um að hann hljóti styrk Styrkhafi sendir inn afrit af flugfarseðli til Alþjóðasviðs Styrkhafi sendir inn fullundirritaða kennslu – eða starfsþjálfunaráætlun Eftir að þeim gögnum hefur verið skilað fær styrkhafi sendan Erasmus+ styrksamning í tölvupósti sem þarf að undirrita og skila til Alþjóðasviðs. Styrkur er greiddur mánuði eftir að styrksamningi hefur verið skilað ef öll önnur gögn hafa borist. Styrkurinn er allur greiddur út í einu lagi. Starfsfólk getur tekið tungumálanámskeið á vegum Erasmus+ til að undirbúa sig fyrir dvölina. Sjá nánari upplýsingar á heimasíðu Landskrifstofu Erasmus+ Við heimkomu Styrkhafi tekur með sér eyðublaðið staðfesting á dvöl til undirritunar hjá gestastofnun og skilar undirrituðu eintaki til Alþjóðasviðs við heimkomu. Við heimkomu þarf styrkþegi einnig að svara lokaskýrslu Erasmus+ sem er send í tölvupósti á lokadegi dvalar. Athugið að styrkurinn er framtalsskyldur en hægt er að telja fram kostnað á móti. Geyma skal allar kvittanir. Stuttar heimsóknir til HÍ Það berast margar beiðnir um heimsóknir til HÍ í gegnum Erasmus+ áætlunina en einnig í gegnum aðrar áætlanir s.s. Nordplus og Uppbyggingarsjóð Evrópusambandsins (EEA grants). Í Uglunni er að finna gagnlegar upplýsingar um skipulag og framkvæmd slíkra heimsókna en þær fara ekki í gegnum Alþjóðasvið. Erasmus+ skipulagsskrá (Charter) vegna æðri menntunar 2021-2027 facebooklinkedintwitter