Nýnemadagar | Háskóli Íslands Skip to main content

Nýnemadagar

Kennsla hefst — samhristingur og smiðjur!

Í haust byrjar stór hópur nýnema á Menntavísindasviði. Nýnemar verða boðnir hjartanlega velkomnir á sérstökum Nýnemadögum, 26.-30. ágúst. Á Nýnemadögum fer kennslan af stað af fullum krafti en einnig verður skapað rými fyrir nýnema til að kynnast hver öðrum, kennurum og starfsfólki, húsnæðinu í Stakkahlíð og þeirri þjónustu sem sviðið býður upp á.

Á Nýnemadögum fáum við til okkar góða gesti og kennarar sviðsins munu sýna á sér nýjar hliðar. Lilja Dögg Alfreðsdóttir mennta- og menningarmálaráðherra, Sævar Helgi Bragason stjörnufræðingur og Kolbrún Þ. Pálsdóttir forseti sviðsins munu ávarpa nýnema á opnunarathöfninni. Þá munu fyrrum nemendur fjalla um reynslu sína og verður Þráinn Árni Baldvinsson meðlimur í Skálmöld þar á meðal. Á Nýnemadögum geta nemendur sótt ýmsar smiðjur sem tengjast menntun á breiðum grunni, en einnig fræðst um námstækni, fræðileg skrif og hvaða þjónustu bókasafnið veitir nemendum.

Síðast en ekki síst bjóðum við nýnemum upp á heimsóknir á vettvang. Við höfum fengið til liðs við okkur fleiri tugi skóla og stofnana sem tengjast uppeldi, tómstundum, íþróttum, menningu, lýðheilsu og menntun sem munu taka vel á móti ykkur. Menntavísindasvið á marga bandamenn um góða menntun og lögð er rík áhersla á að nemendur séu hluti af því samfélagi frá fyrsta degi. 

Smiðjur, grasrótarfélög stúdenta og heimsóknir á vettvang!

Á nýnemadögum velja nemendur tvo staði í nágrenni Menntavísindasviðs til að heimsækja. Í Stakkahlíð verður hægt að sækja stuttar smiðjur sem leiddar eru af bæði kennurum sem og fyrrum nemendum. Við sögu koma Sci-Fi kvikmyndir, bragðlaukar, mannréttindi, Skálmöld og föruneyti hringsins. Allt tengist þetta menntun í víðum skilningi!

Þá verða einnig smiðjur og fræðsla í boði frá ritveri, hljóðbókasafni, bókasafni og námsráðgjöfum. Grasrótarfélög stúdenta á borð við Amnesty, Hugrúnu, Q-félag hinsegin stúdenta og Femínistafélagið verða á staðnum.

Lifandi tónlist, grill og gleði!
Þá verða ýmsar óvæntar uppákomur í hádegishléum á Nýnemadögum: Lifandi tónlist, dans, básar og grillveisla. Fulltrúar nemendafélaga verða á staðnum alla vikuna til að fræða nýnema og kynna fyrir þeim starfið, félagslífið og hagsmuni ykkar, Stúdentaráð Háskóla Íslands mætir sterkt til leiks og grasrótar- og hagsmunasamtök stúdenta láta sjá sig. 

Þátttaka í nýnemadögum er hluti af náminu. 

Tengt efni
Nýnemadagar Menntavísindasviðs 2019

Þarfnast þessi síða lagfæringar?

Þarfnast þessi síða lagfæringar?

CAPTCHA
Sía fyrir ruslpóst
Image CAPTCHA
Skrifaðu stafina sem sjást á myndinni.