Skip to main content

Reglur nr. 844-2001

Reglur um Endurmenntunarstofnun Háskóla Íslands, nr. 844/2001

með áorðnum breytingum

1. gr.  Almennt

Endurmenntunarstofnun Háskóla Íslands er fræðslu-, þróunar- og þjónustustofnun starfrækt af Háskóla Íslands og aðildarfélögum undir nafninu „Endurmenntun Háskóla Íslands“. Hún lýtur yfirstjórn háskólaráðs.

Endurmenntunarstofnun veitir prófskírteini sem staðfesta að viðkomandi hafi lokið námi á vegum stofnunarinnar sem og skírteini fyrir þátttöku í námskeiðum. Endurmenntunarstofnun hefur hins vegar ekki heimild til þess að veita lærdómstitla sbr. [55. gr.]2 sameiginlegra reglna fyrir Háskóla Íslands.

Að fenginni tillögu Endurmenntunarstofnunar getur háskólaráð heimilað að félög háskólamanna og aðrir skólar á háskólastigi taki þátt í [fagráði]1 stofnunarinnar samkvæmt sérstökum samstarfssamningi, sem háskólaráð gerir um það efni.
1Breytt með 3. gr. rgl. nr. 315/2009.
2Breytt með 1. gr. rgl. nr. 417/2023.

2. gr.  Markmið

Markmið Endurmenntunarstofnunar er að veita háskólamenntuðu fólki og almenningi fjölbreytt tækifæri til sí- og endurmenntunar. Starfsemi stofnunarinnar nær einnig til opinberra stofnana, félagasamtaka og einkafyrirtækja. Stofnunin ber ábyrgð á faglegu inntaki námskeiða á hennar vegum, þar á meðal vali á kennurum, skipulagi náms, miðlun og námsefni.

3. gr.  Hlutverk

Hlutverk Endurmenntunarstofnunar er m.a.:

  1. að þróa og halda námskeið fyrir háskólamenntað fólk á þeirra fagsviði,
  2. að þróa og halda námskeið fyrir háskólamenntað fólk á þverfaglegum grunni,
  3. að þróa og bjóða lengra nám samhliða starfi,
  4. að efna til og viðhalda samstarfi við þá aðila, sem stuðlað geta að auknu og betra framboði námskeiða, þ.m.t. fagfélög, stofnanir, einstaklinga og fyrirtæki,
  5. að eiga samstarf við deildir Háskóla Íslands um þróun og framkvæmd námskeiða,
  6. að kynna og markaðssetja námskeiðaframboð stofnunarinnar,
  7. að afla, viðhalda og miðla þekkingu á sviði símenntunar m.a. með þátttöku í ráðstefnum, námskeiðum og alþjóðlegu samstarfi.

4. gr.  Stjórn

[Háskólaráð skipar stofnuninni sex manna stjórn, og jafnmarga til vara. Rektor skipar formann án tilnefningar, en aðrir fulltrúar eru skipaðir eftir tilnefningu fræðasviða háskólans. Stjórnin er skipuð til þriggja ára í senn og skiptir að öðru leyti með sér verkum.]1
1Breytt með 1. gr. rgl. nr. 96/2012.

5. gr.  Stjórnarfundir

Formaður stjórnar boðar stjórnarfundi bréflega, eða í tölvupósti, og með hæfilegum fyrirvara. Fundarboð skal greina frá dagskrá fundar.

Skylt er að boða stjórnarfund óski þrír eða fleiri stjórnarmenn þess. Sama gildir ef rektor ber fram slíka ósk og hefur þá hann, eða sá sem sækir fundinn í umboði hans, málfrelsi og tillögurétt á fundinum.

Falli atkvæði jöfn á stjórnarfundi ræður atkvæði formanns eða þess sem gegnir formannsstörfum.

Halda skal gerðabók stjórnar og skulu staðfestar fundargerðir færðar í hana. Afrit fundargerða skulu send rektor.

Endurmenntunarstjóri situr stjórnarfundi með málfrelsi og tillögurétt, en án atkvæðisréttar.

Um afgreiðslu mála á stjórnarfundum fer að öðru leyti eftir ákvæðum stjórnsýslulaga.

6. gr.  Verkefni stjórnar

Stjórnin tekur allar stefnumarkandi ákvarðanir fyrir Endurmenntunarstofnun og ber ábyrgð á fjármálum hennar gagnvart yfirstjórn háskólans. Meðal verkefna stjórnar er að samþykkja starfs- og rekstraráætlanir og yfirfara ársreikninga. Afrit starfs- og rekstraráætlana skulu lögð fyrir háskólaráð ásamt forsendum verðlagningar á þjónustu stofnunarinnar.

[Stjórn er heimilt að setja á fót fagráð innan stofnunarinnar, með fulltrúum frá aðildar­félögum háskólanna og fleiri samtökum. Um verkefni og skipan fagráðs gilda starfs­reglur sem settar eru af stjórn stofnunarinnar.]1
1Breytt með 2. gr. rgl. nr. 315/2009.

7. gr.  Forstöðumaður og starfsmenn

Rektor ræður stofnuninni forstöðumann, endurmenntunarstjóra, samkvæmt tillögu stjórnar og setur honum erindisbréf. Forstöðumaður stjórnar daglegum rekstri stofnunarinnar og sér um framkvæmd á þeim málum, sem stjórnin felur honum.

Forstöðumaður er í starfi sínu ábyrgur gagnvart stjórn og rektor.

8. gr.  Fjármál

Tekjur Endurmenntunarstofnunar eru:

  1. námskeiðsgjöld,
  2. greiðslur frá aðilum samstarfssamnings, sbr. 3. mgr. 1. gr.,
  3. styrkir og annað sjálfsaflafé.

Reikningshald stofnunarinnar skal vera hluti af reikningshaldi Háskóla Íslands.

Verðskrá skal ákvörðuð þannig, að þátttökugjöld í námskeiðum og öðru námi á vegum stofnunarinnar séu ekki hærri en sá kostnaður sem til verður við að veita þjónustuna og skal gjöldunum eingöngu varið til þess að standa straum af þjónustu stofnunarinnar, sbr. [71. gr.]1 reglna fyrir Háskóla Íslands.

Sé um að ræða útselda þjónustu, sem veitt er í samkeppni við einkaaðila, skal sú starfsemi fjárhagslega afmörkuð frá öðrum rekstri stofnunarinnar og þess gætt að sá rekstur sé ekki niðurgreiddur með öðrum tekjum, í samræmi við ákvæði samkeppnislaga.

Stofnunin nýtur sjálfstæðis varðandi húsnæðismál og ráðstöfun sjálfsaflafjár innan ramma fjárhagsábyrgðar háskólaráðs, sbr. m.a. 2. gr. sameiginlegra reglna fyrir Háskóla Íslands og skal upplýsa háskólaráð og rektor fyrirfram um allar veigameiri ráðstafanir.

1Breytt með 2. gr. rgl. nr. 417/2023.

9. gr.

Reglur þessar, sem háskólaráð hefur sett á grundvelli heimildar í 2. mgr. 19. gr. laga nr. 41/1999 um Háskóla Íslands, sbr. 26. gr. sameiginlegra reglna nr. 458/2000 fyrir Háskóla Íslands, öðlast þegar gildi. Jafnframt fellur úr gildi reglugerð nr. 540/1991 um Endurmenntunarstofnun Háskóla Íslands, sbr. ákvæði til bráðabirgða (9) í reglum nr. 458/2000.

Háskóla Íslands, 25. október 2001