Skip to main content

Reglur nr. 111-2022

Reglur um Rannsóknastofu Háskóla Íslands í lyfja- og eiturefnafræði (RLE)

PDF-útgáfa

1. gr. Almennt.

Rannsóknastofa í lyfja- og eiturefnafræði (RLE) er vettvangur þjónustu- og vísindarannsókna, með höfuðáherslu á réttarefnafræði, lyfja-, fíkniefna, umhverfis- og eiturefnarannsóknir. RLE starfar sem sjálfstæð eining innan Heilbrigðisvísindastofnunar á fræðasviði lyfja- og eiturefnafræði.

2. gr. Hlutverk.

Hlutverk RLE er að:

  1. Sinna þjónustuverkefnum á sviði lyfja og ávana- og fíkniefna í lífsýnum fyrir
  2. lögreglu, fangelsi, heilbrigðisstofnanir, vinnustaðaeftirlit, félagsmálayfirvöld og skyldra aðila.
  3. Sinna þjónustuverkefnum við sérhæfðar mælingar á efnissýnum á sviði réttarefnafræði fyrir lögreglu og tollayfirvöld.
  4. Sinna þjónustuverkefnum á sviði umhverfis- og mengunarmála.
  5. Efla rannsóknir og afla nýrrar þekkingar á sviði réttarefnafræðilegra rannsókna og á sviði lyfja- og eiturefnafræði.
  6. Innleiða og bera ábyrgð á nauðsynlegri sérhæfingu og þekkingu við efnagreiningar og túlkun sem varða íslenskt réttarkerfi, auk innleiðingar á nákvæmum greiningartækjum og rekjanlegum verkferlum.
  7. Eiga samstarf  við aðila utan rannsóknastofunnar sem stunda rannsóknir á sviði RLE og þá einkum við sambærilegar réttarefnafræðilegar stofnanir annarra Norðurlanda.
  8. Styðja við kennslu á sviði lyfja- og eiturefnafræði og veita nemendum þjálfun og reynslu í vísindalegum vinnubrögðum með því að gefa þeim kost á að stunda rannsóknir.
  9. Veita nemum í rannsóknanámi starfsaðstöðu og þjálfun í samráði við forstöðumann yfir vísindarannsóknum RLE.
  10. Gefa út og kynna niðurstöður rannsókna.
  11. Veita ráðgjöf og upplýsingar á fræðasviðum RLE.
  12. Bera sérfræðivitni fyrir dómstólum vegna réttarefnafræðilegra rannsókna á RLE.
  13. Bera ábyrgð á rekstri og rekstrarafkomu rannsóknastofunnar.
  14. Vera samkeppnishæf við sambærilegar réttarefnafræðirannsóknastofur í nágrannalöndunum og tryggja að niðurstöður séu hafnar yfir allan vafa fyrir dómstólum.
  15. Vera í fararbroddi fyrir votrannsóknastofur HÍ hvað varðar innleiðingu gæðaumhverfis-, heilsu- og öryggisstaðla.

3. gr. Aðstaða.

RLE greiðir mánaðarlega leigu af sjálfsaflafé til Háskóla Íslands fyrir starfsaðstöðu, þar á meðal húsnæði, innréttingar og skrifstofuhúsgögn.

4. gr. Skipulag og starfsfólk.

RLE skiptist í tvennt:

  1. Réttarefnafræðilegar mælingar og aðrar þjónusturannsóknir á sviði fíkniefna, lyfja og umhverfismengunar og eiturefna og sérfræðiráðgjöf þeim tengdum.
  2. Vísindalegar rannsóknir með tengingu við kennslu í lyfja- og eiturefnafræði.

Skipaðir eru tveir forstöðumenn, annar yfir þjónustuhlutanum sem ber ábyrgð á almennum daglegum rekstri RLE og hinn yfir vísindalegum rannsóknum sem hefur akademíska stöðu í lyfja- og eiturefnafræði en er einnig starfsmaður RLE. Um ráðningu starfsfólks fer eftir ákvæðum reglna fyrir Háskóla Íslands. Forstöðumenn eru skipaðir af forseta Heilbrigðisvísindasviðs samkvæmt tilnefningu stjórnar.

5. gr. Stjórn og stjórnarfundir.

Stjórn RLE skipa fimm einstaklingar:

  1. Forstöðumaður fræðasviðs lyfja- og eiturefnafræði innan Læknadeildar er formaður stjórnar.
  2. Fulltrúi skipaður af fræðasviðsforseta HVS til fjögurra ára.
  3. Forstöðumenn RLE:
    1. Yfirmaður þjónusturannsókna.
    2. Yfirmaður vísindalegra rannsókna í tengdu starfi á RLE.
  4. Einn fulltrúi starfsfólks RLE kosinn á starfsmannafundi til tveggja ára.

Leitast skal við að í stjórn sitji bæði karlar og konur og skal þess gætt að hlutfall kynjanna sé ekki minna en 40%, sbr. 28. gr. laga nr. 150/2020 um jafna stöðu og jafnan rétt kynjanna.

Aðalfund stjórnar skal halda þegar ársreikningur síðasta árs liggur fyrir en eigi síðar en í maí ár hvert. Formaður stjórnar boðar stjórnarfundi, með minnst tveggja vikna fyrirvara. Í fundarboði skal greina dagskrá fundar. Formaður stjórnar eða framkvæmda­stjórn (sbr. 7. gr.) getur óskað eftir auka stjórnarfundi ef ástæða þykir til.

6. gr. Verkefni stjórnar.

Stjórn RLE tekur stefnumarkandi ákvarðanir og ber ábyrgð á fjármálum RLE og hefur yfirsýn yfir starfsemi RLE og rekstur.

7. gr. Framkvæmdastjórn.

Forstöðumenn RLE og ábyrgðarmenn sviða samkvæmt skipuriti sitja framkvæmdastjórnarfundi, auk annarra starfsmanna RLE ef þurfa þykir. Daglegur rekstur RLE er í höndum framkvæmdastjórnar, sem heldur rekstrarfundi að lágmarki mánaðarlega og boðar til starfsmannafundar að jafnaði fimm sinnum á ári.

8. gr. Gæðaráð.

Gæðaráð er skipað gæðastjóra og ábyrgðarmönnum sviða og málaflokka. Gæðaráð heldur fundi að lágmarki mánaðarlega yfir vetrarmánuðina og kallar til sérfræðinga rannsóknastofunnar eftir þörfum. Hlutverk gæðaráðs er að fylgja gæðastefnu RLE og veita gæðastarfi rannsóknastofunnar forstöðu. Gæðaráð kynnir ákvarðanir í gæðamálum á formlega boðuðum gæðafundum eða á vikulegum skipulagsfundum starfsfólks.

9. gr. Fjármál.

Tekjur RLE eru greiðslur fyrir þjónustumælingar, mat og túlkanir þeim tengdum og styrkir til vísindarannsókna. Gjöld fyrir þjónusturannsóknir  skulu ekki vera hærri en sá kostnaður sem til verður við að veita þjónustuna, þar með talið endurnýjun og viðhald tækja og aðstöðu sem uppfyllir gæða-, umhverfis-, heilsu- og öryggisstaðla. Þjónustan innifelur aðgengi að hæfum sérfræðingum, innleiðingu nýs tækjabúnaðar, þróun nýrra greiningaraðferða, innleiðingu og viðhaldi á gæða-, umhverfis-, heilsu og öryggisstöðlum. Reikningshald RLE er hluti af reikningshaldi háskólans. Fjármál og rekstur þjónustuhlutans skulu afmörkuð frá öðrum rekstri stofunnar. Rekstrar- og fjárhagsáætlun ásamt ársuppgjöri skulu kynnt og lögð fram til samþykktar á stjórnarfundum.

10. gr. Gildistaka.

Reglur þessar, sem háskólaráð hefur sett á grundvelli heimildar í 3. mgr. 11. gr. laga nr. 85/2008 um opinbera háskóla, að fenginni tillögu stjórnar Heilbrigðisvísindasviðs, öðlast þegar gildi.

 

Háskóla Íslands, 14. janúar 2022.