Skip to main content

Fundargerð háskólaráðs 8. desember 2022

12/2022

HÁSKÓLARÁÐSFUNDUR

Ár 2022, fimmtudaginn 8. desember var haldinn fundur í háskólaráði Háskóla Íslands sem hófst kl. 13.00.

Fundinn sátu Jón Atli Benediktsson, Brynhildur Ásgeirsdóttir, Davíð Þorláksson, Guðvarður Már Gunnlaugsson (varamaður fyrir Arnar Þór Másson), Hólmfríður Garðarsdóttir (á fjarfundi), Ingvar Þóroddsson (varamaður fyrir Katrínu Björk Kristjánsdóttur) (á fjarfundi), Katrín Atladóttir (á fjarfundi), Ólafur Pétur Pálsson, Silja Bára R. Ómarsdóttir, Vilborg Einarsdóttir (á fjarfundi) og Þorvaldur Ingvarsson. Fundinn sátu einnig Magnús Diðrik Baldursson, sem ritaði fundargerð, og Þórður Kristinsson (á fjarfundi).

1.    Setning fundar.
Rektor setti fundinn og greindi frá því að engin athugasemd hefði borist við fundargerð síðasta fundar og hefði hún því skoðast samþykkt. Þá spurði rektor hvort einhver gerði athugasemd við dagskrá fundarins. Brynhildur óskaði eftir að bréf frá rektorum opinberra háskóla til háskólaráðherra, sem fylgdi fundargögnum í lið 2.b, yrði rætt. Rektor greindi frá því að hann myndi ekki taka þátt í afgreiðslu liðar 5c og fól Ólafi Pétri Pálssyni, varaforseta háskólaráðs, að taka við fundarstjórn undir þessum lið. Guðvarður Már lýsti sig vanhæfan til að taka þátt í afgreiðslu liðar 5f. Ekki voru gerðar athugasemdir við liðinn „bókfærð mál“ og skoðast hann því samþykktur. Loks spurði rektor hvort einhver annar lýsti sig vanhæfan til að taka þátt í meðferð máls á dagskrá og var svo ekki.

2.    Fjármál Háskóla Íslands. Staða, horfur, áætlun.
Inn á fundinn komu Guðmundur R. Jónsson, framkvæmdastjóri miðlægrar stjórnsýslu, og Jenný Bára Jensdóttir, sviðsstjóri fjármálasviðs.

a.    Fjárlagafrumvarp fyrir árið 2023. Staða mála.
Jenný Bára fór yfir framlagt minnisblað um stöðu mála eftir aðra umræðu um fjárlagafrumvarp fyrir árið 2023. Málið var rætt ítarlega og svöruðu rektor, Jenný Bára og Guðmundur spurningum.

Að umræðu lokinni samþykkti háskólaráð eftirfarandi bókun:

„Háskólaráð lýsir yfir áhyggjum af fyrirhuguðum niðurskurði fjárveitinga árið 2023. Eftir mikla fjölgun nemenda í kjölfar covid þar sem brugðist var við óskum stjórnvalda um að opna skólann fyrir fleiri nemendum er boðuð lækkun fjárveitinga með skömmum fyrirvara þ.a. erfitt er fyrir Háskólann að bregðast við. Í þessu sambandi er einnig minnt á vilja stjórnvalda um fjölgun nemenda í heilbrigðisgreinum auk STEAM greina. Rektor mun ræða við stjórnvöld um stöðuna sem komin er upp.“

b.    Drög tillögu fjármálanefndar háskólaráðs að skiptingu fjárveitinga innan Háskóla Íslands.
Rektor og Guðmundur gerðu grein fyrir framlögðum drögum að tillögu fjármálanefndar háskólaráðs að skiptingu fjárveitinga innan Háskóla Íslands á árinu 2023. Málið var rætt og svöruðu rektor og Guðmundur spurningum. Fyrir fundinum lá bréf frá rektorum opinberu háskólanna til háskóla-, nýsköpunar- og iðnaðarráðherra þar sem óskað er heimildar til að færa skrásetningargjald nær raunverulegum kostnaði við þá þjónustu sem því er ætlað að standa undir. Skipting fjárveitinga innan Háskólans kemur til afgreiðslu á fundi háskólaráðs í janúar.

Brynhildur lagði fram svohljóðandi bókun:

„Fulltrúar stúdenta gagnrýna harkalega áform um hækkun skrásetningargjaldsins. Fulltrúar stúdenta gagnrýna einnig að þessi áform hafi ekki verið borin undir háskólaráð á fyrri stigum, t.d. áður en skjalið var undirritað af rektorum annarra háskóla. Aðkoma og umræða innan háskólaráðs hefði verið betur borgið fyrr. Því verður að telja aðkomu háskólaráðs seina á þessum tímapunkti sem er bagalegt fyrir hlutverk háskólaráðs og raunverulegan þátt ráðsins í að taka afstöðu til þessa máls.

Við hljótum öll að vera sammála um það að Háskóli Íslands er vanfjármagnaður en það er sorgleg staða að óskað sé eftir því að stúdentar beri uppi rekstur opinberrar háskólamenntunar með þessum hætti. 95.000 krónur er margfalt meira en tíðkast á Norðurlöndunum auk þess sem upphæðin er um 90% (m.v. 106.320 kr.) af mánaðarlegri grunnframfærslu frá Menntasjóði námsmanna, sem nú þegar lánar aðeins fyrir 9 af 12 mánuðum ársins. Því er ljóst að eingöngu 8 mánaða framfærsla stendur eftir handa stúdentum nái hækkunin fram að ganga.

Samfélagslegt mikilvægi opinberrar háskólamenntunar er ótvírætt. Almenningi, og þ.á.m. stúdentum, hefur verið talið trú um að hér sé búið þannig um að opinber háskólamenntun sé gjaldfrjáls að öðru leyti en að gjald renni í skrásetningu. Þegar betur er að gáð stenst það ekki, enda eiga umræddar 95.000 krónur að renna í skipulag prófa, skipulag kennslu, og ýmsan rekstur. Minna skal á að stúdentar hafa sett spurningamerki við réttmæti skrásetningargjaldsins og hafa talið það rangnefni, enda ljóst að gjaldið rennur í umtalsvert fleira en skrásetningu. Áframhaldandi tal um svokölluð skrásetningargjöld hindrar upplýsta umræðu á réttum forsendum, kemur í veg fyrir gagnsæi og fegrar sannleikann um hvernig fjármögnun opinberrar háskólamenntunar sé í raun háttað. Orðræðan verður að taka mið af raunveruleikanum og er ljóst að hið rétta nafn fyrir það gjald sem stúdentar greiða eru skólagjöld, enda renna þau í margvíslegt annað í rekstri skólans en skrásetningu.

Því leggjast fulltrúar stúdenta gegn áformum um hækkun skrásetningargjaldanna. Í öllu falli telja stúdentar, að ef þessi ósk rektoranna nái fram að ganga sé réttara að breyta henni í takt við raunveruleikann og lagt sé til við ráðherra að lög um opinbera háskóla endurspegli að gjaldið sé í raun skólagjöld. Þetta sé óhjákvæmilegt því ef skrásetningargjöldin eru skilgreind jafn rúmt og þetta bréf ber með sér og gjaldið rennur í skipulag kennslu og prófa, rekstur sviða o.fl., er erfitt að sjá hvar gjaldinu er sett takmörk.“

c.    Rekstraráætlanir einstakra starfseininga á árinu 2023. Staða mála.
Jenný Bára gerði grein fyrir drögum að rekstraráætlunum einstakra starfseininga Háskóla Íslands fyrir árið 2023 og var málið rætt.

Jenný Bára vék af fundi.

d.    Tillaga um framkvæmda- og viðhaldsáætlun fyrir árið 2023, ásamt drögum áætlunar fyrir næstu ár.
Inn á fundinn kom Kristinn Jóhannesson, sviðsstjóri framkvæmda- og tæknisviðs, og fór yfir framlagða tillögu um framkvæmdaáætlun nýbygginga Háskóla Íslands 2023-2028 og um helstu viðhaldsverkefni 2023. Málið var rætt og svaraði Kristinn spurningum fulltrúa í háskólaráði. Áætlunin kemur til afgreiðslu á fundi háskólaráðs í janúar.

e.    Stefna Háskóla Íslands [ríkisaðila] til þriggja ára og starfsáætlun, sbr. 31. gr. laga um opinber fjármál nr. 123/2015.
Rektor fór yfir framlagða stefnu Háskóla Íslands [ríkisaðila] til þriggja ára og starfsáætlun, sbr. 31. gr. laga um opinber fjármál nr. 123/2015. Málið var rætt.

f.    Samstarf háskóla, sbr. síðasta fund.
Rektor fór yfir framlagt yfirlit um styrkumsóknir í nýstofnaðan sjóð háskóla-, nýsköpunar-og iðnaðarráðuneytisins, þ.e. bæði styrkumsóknir sem Háskóli Íslands stendur fyrir og aðrir háskólar og stofnanir taka þátt í, og umsóknir sem aðrir háskólar standa að og Háskóli Íslands tekur þátt í. Málið var rætt og svaraði rektor spurningum ráðsfólks. Fram kom m.a. að áformað er að ákvörðun um styrkveitingar muni liggja fyrir í janúar og að auglýst verði aftur eftir styrkumsóknum á árinu 2023. Málið var rætt.

g.    Vatnstjón í byggingum Háskóla Íslands.
Inn á fundinn kom Erla Guðrún Ingimundardóttir, aðallögfræðingur á skrifstofu rektors, og greindi frá stöðu eftirmála vatnstjóns sem varð í byggingum og á lóð Háskóla Íslands í janúar 2021. Málið var rætt og svaraði Erla Guðrún spurningum.

Davíð, Guðmundur, Kristinn og Erla Guðrún viku af fundi.

3.    Niðurstöður 30. háskólaþings 18. nóvember 2022.
Rektor reifaði niðurstöður 30. háskólaþings Háskóla Íslands sem haldið var 18. nóvember 2022.

Katrín vék af fundi.

Kaffihlé.

4.    Alþjóðleg staða Háskóla Íslands.
Inn á fundinn komu Guðbjörg Linda Rafnsdóttir, aðstoðarrektor vísinda, Halldór Jónsson, sviðsstjóri vísinda- og nýsköpunarsviðs, og Friðrika Harðardóttir, sviðsstjóri alþjóðasviðs. Fóru þau ítarlega yfir alþjóðlega stöðu Háskóla Íslands, eins og hún birtist á matslistum, umræður um breytingar á mati á rannsóknum á vettvangi Evrópusambandsins og stöðu og þróun Aurora-samstarfsins sem Háskói Íslands leiðir. Málið var rætt ítarlega og svöruðu rektor, Halldór og Friðrika spurningum fulltrúa í háskólaráði.

5.    Bókfærð mál.
a.    Tillögur um fjöldatakmörkun í einstakar námsleiðir háskólaárið 2023-2024 ásamt tillögum að breytingum á reglum nr. 153/2010 um takmörkun á inntöku nemenda í einstakar námsgreinar.
Eftirfarandi tillögur fræðasviða og deilda um takmörkun á fjölda nýnema háskólaárið 2023-2024 samþykktar (tölur í sviga sýna fjölda nýnema háskólaárið 2022-2023) sem og viðeigandi breytingar á reglum um takmörkun á inntöku nemenda í tilteknar námsgreinar við Háskóla Íslands nr. 153/2010.

I. Heilbrigðisvísindasvið

a.    Læknadeild
     − Læknisfræði, BS                      60      (60)
     − Sjúkraþjálfunarfræði, BS           35      (35)
     − Sjúkraþjálfun, MS                    35      (35)
     – Talmeinafræði, MS
        (tekið inn annað hvert ár)           0      (15)

b.    Hjúkrunar- og ljósmóðurfræðideild
      − Hjúkrunarfræði (240 e til BS)               120    (120)
      – Hjúkrunarfræði fyrir fólk með
         annað háskólapróf                                20     (20)
      − Ljósmóðurfræði til starfsréttinda, MS      12      (12)

c.    Tannlæknadeild
       − Tannlæknisfræði               8        (8)
       − Tannsmiðanám                 5        (5+1)

d.    Sálfræðideild
       − Hagnýt sálfræði, MS, klínísk,
         (áður cand. psych.)                          20      (20)
      − Hagnýt sálfræði, MS, megindleg,
        skóli og þroski, samfélag og heilsa      15      (15)
     – Hugfræði (cognitive science) MS,
       nýtt kjörsvið, annað hvert ár                 10**
    * Fyrirvari er um að hið nýja kjörsvið verði
      samþykkt í stjórn Heilbrigðisvísindasviðs.
      Ef svo verður tillaga að breytingu á reglum
      nr. 153/2010 um takmörkun lögð fram á
      fundi háskólaráðs í janúar nk.

e.    Lyfjafræðideild
       − MS nám í klínískri lyfjafræði               4**     (2)
      ** Fyrirvari gerður um aðstöðu á
        Landspítala, sbr. greinargerð deildar.

f.    Matvæla- og næringarfræðideild
      − MS nám í klínískri næringarfræði        4         (4)

II. Félagsvísindasvið

a.    Félagsfræði-, mannfræði- og
     þjóðfræðideild
     − MA nám í náms- og starfsráðgjöf       40       (40)

b.    Félagsráðgjafardeild
      − MA nám í félagsráðgjöf
         til starfsréttinda                               40***  (40)
      *** Allt að 60 ef aðstæður leyfa,
         sbr. skýringar í greinargerð deildar
    

c.    Viðskiptafræðideild
       − MS nám í nýsköpun og viðskiptaþróun  14     (14)

III. Hugvísindasvið

a.    Íslensku- og menningardeild
      – MA nám í ritlist                                  18       (18)

IV. Þverfaglegt nám

a.    Nám í hagnýtri atferlisgreiningu
      (samstarf Menntavísindasviðs og
      Heilbrigðisvísindasviðs
    – Nám til MS-prófs, M.Ed. prófs
       eða diplómu                                        20       (20)

b.    Tillögur að breytingu á reglum fyrir Háskóla Íslands nr. 569/2009 vegna nýrra námsleiða, breytinga og/eða niðurfellingar á námsleiðum.

Frá Menntavísindasviði:
•    Tillaga að breytingu á 117., 119., 121., og 122. gr. reglna fyrir Háskóla Íslands nr. 569/2009 (varðar ákvæði einstakra deilda fræðasviðsins um þverfræðilegt nám).
– Samþykkt.

•    Tillaga um stofnun þriggja nýrra námsleiða á meistarastigi í Deild kennslu- og menntunarfræði sem leysa af hólmi fimm námsleiðir sem fyrir eru og um stofnun nýrrar námsleiðar á meistarastigi í Deild faggreinakennslu ásamt tillögum að viðeigandi breytingum á 121. gr. og 117. gr. reglna fyrir Háskóla Íslands nr. 569/2009.
– Samþykkt.

Frá Félagsvísindasviði:
•    Tillaga um stofnun nýrrar námsleiðar á meistarastigi í Viðskiptafræðideild og um stofnun nýrrar námsleiðar á meistarastigi við Félagsfræði-, mannfræði- og þjóðfræðideild ásamt tillögum að viðeigandi breytingum á 94. gr. og 84. gr. reglna fyrir Háskóla Íslands nr. 569/2009.
– Samþykkt.

c.    Framsal á valdi rektors vegna umsóknar um framgang (varðar skipun fulltrúa rektors í dómnefnd um tiltekið mál og ákvörðun um mögulegan framgang).
Háskólaráð samþykkti vanhæfi rektors sem vék af fundi undir þessum dagskrárlið og tók varaforseti háskólaráðs við fundarstjórn um þann lið. Inn á fundinn kom Ari Karlsson, lögmaður. Fyrir fundinum lá minnisblað frá Ara um mögulega málsmeðferð vegna umsóknar um framgang í starf prófessors. Ari gerði grein fyrir minnisblaðinu og var það rætt. Í ljósi þeirra röksemda sem fram eru færðar í minnisblaðinu er lagt til að háskólaráð samþykki að framselja ákvörðunarvald rektors í málinu til varaforseta háskólaráðs. Ritara háskólaráðs er falið fyrir hönd ráðsins að tilkynna varaforseta þess um framsalið með bréfi.
– Samþykkt.

d.    Formaður siðanefndar háskólanna um vísindarannsóknir.
– Samþykkt. Snæfríður Þóra Egilson, prófessor á Félagsvísindasviði, tekur sæti formanns siðanefndar háskólanna út skipunartíma nefdarinnar til 30. júní 2023. Kemur hún í stað Ólafs Páls Jónssonar, prófessors, sem óskað hefur lausnar vegna rannsóknamisseris vorið 2023.

e.    Endurskoðun verklagsreglna um samfélagsvirknisjóð.
– Samþykkt.

f.    Stjórn sjóðs um árangurstengda tilfærslu starfsþátta í Háskóla Íslands.
– Samþykkt. Guðvarður Már Gunnlaugsson, rannsóknardósent við Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum og varafulltrúi í háskólaráði Háskóla Íslands, tekur sæti í stjórn sjóðs um árangurstengda tilfærslu starfsþátta í Háskóla Íslands út skipunartíma nefndarinnar til 30. júní 2023. Guðvarður Már tók ekki þátt í afgreiðslu málsins.

g.    Erindi frá Félagsstofnun stúdenta um breytingu á reglugerð fyrir Félagsstofnun stúdenta við Háskóla Íslands nr. 171/1968.
– Samþykkt.

h.    Ráð um málefni fatlaðs fólks.
– Samþykkt. Ráð um málefni fatlaðs fólks er skipað þeim Sveini Guðmundssyni, jafnréttisfulltrúa, formaður, Hönnu Björgu Sigurjónsdóttur, prófessor, tilnefnd af Félagi prófessora og Félagi háskólakennara (varamaður: Stefan Hardonk, dósent), Jóni Sigurði Péturssyni, fulltrúa framkvæmda- og tæknisviðs, Þrúði Kristjánsdóttur, félagsráðgjafa, tilnefnd af Náms- og starfsráðgjöf, Margréti Lilju Aðalsteinsdóttur, fulltrúa stúdenta, og Styrmi Hallssyni, fulltrúi stúdenta.

i.    Erindisbréf starfshóps um þróunaráætlun fyrir háskólasvæði Háskóla Íslands.
– Samþykkt.

j.    Erindi frá sjálfbærninefnd og framkvæmda- og tæknisviði: Umhverfisstefna í rekstri.
– Samþykkt.

k.    Tillaga að breytingu á 64. gr. reglna nr. 569/2009 fyrir Háskóla Íslands ásamt tillögu að breytingu á verklagsreglum um greiðslur vegna aukastarfa innan Háskóla Íslands sem kostuð eru af öðru fé en opinberum fjárveitingum til Háskóla Íslands.
– Samþykkt.

l.    Skipan ráðgefandi nefndar Rannsóknasetra Háskóla Íslands.
– Samþykkt. Snæbjörn Pálsson, prófessor við Líf- og umhverfisvísindadeild, tekur sæti í ráðgefandi nefnd Rannsóknasetra Háskóla Íslands út skipunartíma nefdarinnar til 6. mars 2023. Snæbjörn kemur í stað Jörundar Svavarssonar, prófessors emeritus.

6.    Mál til fróðleiks.
a.    Sameiginleg störf (stefnubundin), sbr. fund ráðsins 2. júní sl. Minnisblað til upplýsingar um framvindu.
b.    Upplýsingafundur rektors 23. nóvember 2022.
c.    Handhafar árlegrar viðurkenningar Háskóla Íslands fyrir lofsverðan árangur í starfi 2022.
d.    Nordic University Days.
e.    Hátíð brautskráðra doktora 1. desember 2022.
f.    Samningur um viðhald fasteigna á milli Fasteigna Háskóla Íslands ehf. og Háskóla Íslands.
g.    Fréttabréf Háskólavina, dags. 2. desember 2022.
h.    Heimsókn fjármála- og efnahagsráðherra til Háskóla Íslands.

Fleira var ekki gert.
Fundi slitið kl. 16.00.