Skip to main content

Fundargerð háskólaráðs 4. nóvember 2021

10/2021
HÁSKÓLARÁÐSFUNDUR

Ár 2021, fimmtudaginn 4. nóvember var haldinn rafrænn fundur í háskólaráði Háskóla Íslands sem hófst kl. 13.00.

Fundinn sátu Jón Atli Benediktsson, Ásthildur Margrét Otharsdóttir, Davíð Freyr Jónsson (varamaður fyrir Siv Friðleifsdóttur), Einar Sveinbjörnsson, Guðvarður Már Gunnlaugsson, Ingibjörg Gunnarsdóttir, Isabel Alejandra Díaz, Jessý Rún Jónsdóttir, Jón Ólafsson, Ólafur Pétur Pálsson og Vigdís Jakobsdóttir. Fundinn sátu einnig Magnús Diðrik Baldursson, sem ritaði fundargerð, og Þórður Kristinsson.

1.    Setning fundar.
Rektor setti fundinn og greindi frá því að engin athugasemd hefði borist við fundargerð síðasta fundar og hefði hún því skoðast samþykkt og verið birt á háskólavefnum. Þá spurði rektor hvort einhver gerði athugasemd við dagskrá fundarins og var svo ekki. Jafnframt spurði rektor hvort einhver lýsti sig vanhæfan til að taka þátt í meðferð máls á dagskrá og var svo ekki. Ekki voru gerðar athugasemdir við liðinn „bókfærð mál“ og skoðast hann því samþykktur.

2.    Fjármál Háskóla Íslands. Staða, horfur, áætlun.
Inn á fundinn komu Guðmundur R. Jónsson, framkvæmdastjóri miðlægrar stjórnsýslu, og Jenný Bára Jensdóttir, sviðsstjóri fjármálasviðs.

a.    Rekstraryfirlit fyrstu níu mánaða ársins 2021.
Jenný Bára fór yfir framlagt yfirlit um rekstur Háskóla Íslands fyrstu níu mánuði ársins. Málið var rætt og svöruðu Jenný Bára og Guðmundur R. spurningum.

Jenný Bára vék af fundi.

b.    Vatnstjón í byggingum Háskóla Íslands. Staða mála.
Inn á fundinn komu Kristinn Jóhannesson, sviðsstjóri framkvæmda- og tæknisviðs, og Áslaug Magnúsdóttir, lögfræðingur á skrifstofu rektors, og gerðu grein fyrir framvindu við gerð skýrslu dómkvaddra matsmanna um umfang vatnstjóns í byggingum Háskóla Íslands í byrjun þessa árs og möguleg næstu skref. Málið var rætt og svöruðu þau Kristinn og Áslaug spurningum fulltrúa í háskólaráði.

Kristinn og Áslaug viku af fundi.

c.    Hótel Saga. Staða mála.
Rektor og Guðmundur R. gerðu grein fyrir stöðu mála varðandi möguleg afnot Háskóla Íslands og Félagsstofnunar stúdenta af Hótel Sögu. Málið var rætt.

Guðmundur R. vék af fundi.

3.    Stefna Háskóla Íslands fyrir tímabilið 2021-2026, innleiðing og útfærsla.
Inn á fundinn kom Steinunn Gestsdóttir, aðstoðarrektor kennslumála og þróunar, og gerði grein fyrir áætlun um innleiðingu nýrrar heildarstefnu Háskóla Íslands fyrir tímabilið 2021-2026. Málið var rætt og svöruðu rektor og Steinunn spurningum ráðsmanna.

Steinunn vék af fundi.

4.    Geðheilbrigðismál nemenda.
Inn á fundinn kom Róbert H. Haraldsson, sviðsstjóri kennslusviðs, og fór yfir gögn um geðheilbrigði nemenda og eflda þjónustu Háskóla Íslands á því sviði. Málið var rætt.

5.    Erindi frá Stúdentaráði um sjúkra- og endurtektarpróf.
Rektor greindi frá framlögðu erindi frá Stúdentaráði um fyrirkomulag sjúkra- og endurtektarprófa. Málið var rætt.

– Samþykkt einróma að vísa erindinu til umsagnar kennslumálanefndar háskólaráðs og kennslusviðs áður en það kemur aftur til háskólaráðs.

Róbert vék af fundi.  

Fundarhlé.

6.    Málefni stundakennara. Vinna starfshóps, staða mála, sbr. fund ráðsins 4. febrúar sl.
Inn á fundinn kom Jónína Helga Ólafsdóttir, verkefnisstjóri á mannauðssviði, og fór yfir stöðu innleiðingar tillagna um kjör og starfsaðstöðu stundakennara, sbr. fund ráðsins 4. febrúar sl. Málið var rætt. Stefnt er að því að ljúka vinnnunni fyrir áramót.

Jónína vék af fundi.

7.    Djúptæknikjarni Vísindagarða Háskóla Íslands ehf.
Inn á fundinn komu Sigurður Magnús Garðarsson, forseti Verkfræði- og náttúruvísindasviðs og formaður stjórnar Vísindagarða Háskóla Íslands ehf., Hrólfur Jónsson, framkvæmdastjóri Vísindagarða og Hans Guttormur Þormar, ráðgjafi, og gerðu grein fyrir hugmyndum um uppbyggingu á djúptæknikjarna (e. Deeptech) við Vísindagarða. Málið var rætt og svöruðu þeir Sigurður Magnús, Hans Guttormur og Hrólfur spurningum.

Sigurður Magnús, Hans Guttormur og Hrólfur viku af fundi.

8.    Bókfærð mál.
a.    Frá Hugvísindasviði: Tillaga að breytingu á heiti Sagnfræði- og heimspekideildar í Deild heimspeki, sagnfræði og fornleifafræði.
– Samþykkt.

b.    Frá Heilbrigðisvísindasviði: Tillaga að breytingu á 2. mgr. 108. gr. reglna fyrir Háskóla Íslands nr. 569/2009 (varðar Tannlæknadeild).
– Samþykkt.

c.    Frá Miðstöð framhaldsnáms: Tillaga að verklagsreglum um viðbrögð við höfnun doktorsritgerðar.
– Samþykkt.

d.    Frá skrifstofu rektors: Tillaga að uppfærðu erindisbréfi fjármálanefndar háskólaráðs.
– Samþykkt.

e.    Frá skrifstofu rektors: Tillaga að breytingu á úthlutunarreglum Sáttmálasjóðs.
– Samþykkt.

f.    Svar við erindi frá nemanda um málsmeðferð í framhaldi af niðurstöðu háskólaráðs 6. maí sl. varðandi beiðni um endurskipun prófdómara í miðbiksmati.
– Staðfest.

9.    Mál til fróðleiks.
a.    Dagskrá háskólaþings 11. nóvember 2011.
b.    Lesley Ann Page sæmd heiðursdoktorsnafnbót frá Hjúkrunarfræðideild.
c.    Háskóli Íslands á þremur nýjum matslistum Times Higher Education.
d.    Á annað hundrað þátttakendur frá Háskóla Íslands á Arctic Circle.
e.    Glærur rektors frá fundi með Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins.
f.    Fjárveitingar til háskóla. Skýrsla starfshóps um gæði og skilvirkni í háskólum.
g.    Háskóli Íslands í hópi 50 bestu háskólanna í löndum á uppleið.
h.    Samstarfssamningur Almannaróms og Samstarfs um íslenska máltækni (Háskóli Íslands o.fl.).
i.    Viljayfirlýsing um rannsóknasetur í Suður-Þingeyjarsýslu.
j.    Álit umboðsmanns Alþingis í tilefni af frumkvæðisathugun á stigagjöf í ráðningarmálum opinberra starfsmanna (mál nr. F79/2018).
k.   Stjórn Watanabe-styrktarsjóðsins við Háskóla Íslands.
l.    Fréttabréf háskólavina, dags. 28. október 2021.
m.  Kennsluakademía opinberu háskólanna stofnuð.

Fleira var ekki gert.
Fundi slitið kl. 15.50.