Skip to main content

Fundargerð háskólaráðs 2. nóvember 2017

9/2017

HÁSKÓLARÁÐSFUNDUR

Ár 2017, fimmtudaginn 2. nóvember var haldinn fundur í háskólaráði sem hófst kl. 13.

Fundinn sátu Jón Atli Benediktsson, Eiríkur Rögnvaldsson, Erna Hauksdóttir, Guðrún Geirsdóttir, Stefán Hrafn Jónsson, Ragna Sigurðardóttir, Tómas Þorvaldsson og Þengill Björnsson. Fundinn sátu einnig Magnús Diðrik Baldursson, sem ritaði fundargerð, og Þórður Kristinsson. Ásthildur Margrét Otharsdóttir, Orri Hauksson og Ragna Árnadóttir boðuðu forföll og varamenn þeirra sömuleiðis.

1.    Setning fundar.
Rektor setti fundinn og greindi frá því að engin athugasemd hefði borist við fundargerð síðasta fundar og hefði hún því skoðast samþykkt og verið birt á háskólavefnum. Þá spurði rektor hvort einhver hefði athugasemd við dagskrá fundarins og var svo ekki. Jafnframt spurði rektor hvort einhver teldi sig vanhæfan til að taka þátt í meðferð máls á dagskrá og var svo ekki. Ekki voru gerðar athugasemdir við liðinn „bókfærð mál“ og skoðast hann því samþykktur.

2.    Fjármál Háskóla Íslands. Staða, horfur, áætlun.
a)    Níu mánaða uppgjör Háskóla Íslands 2017.
b)    Innleiðing og framkvæmd fimm ára fjárhagsáætlunar fyrir Háskóla Íslands, sbr. fund ráðsins 7. september sl.

Inn á fundinn komu Guðmundur R. Jónsson, framkvæmdastjóri miðlægrar stjórnsýslu og Daði Már Kristófersson, forseti Félagsvísindasviðs. Guðmundur fór yfir níu mánaða uppgjör Háskóla Íslands 2017. Málið var rætt og svaraði Guðmundur spurningum ráðsmanna.

Daði Már gerði grein fyrir stöðu mála varðandi innleiðingu fimm ára fjárhagsáætlunar og mönnunaráætlun Háskóla Íslands til næstu ára. Málið var rætt og svaraði Daði Már spurningum fulltrúa í háskólaráði.

Daði Már og Guðmundur véku af fundi.

Rektor greindi frá því að hann hygðist skipa ráðgefandi starfshóp- um gerð mönnunaráætlunar fyrir Háskóla Íslands. Hópurinn verði skipaður Daða Má Kristóferssyni, forseta Félagsvísindasviðs, sem verði formaður, Ingu Þórsdóttur, forseta Heilbrigðisvísindasviðs, Guðmundi R. Jónssyni, framkvæmdastjóra miðlægrar stjórnsýslu, Steinunni Gestsdóttur, aðstoðarrektor kennslu og þróunar, Guðbjörgu Lindu Rafnsdóttur, aðstoðarrektor vísinda, Orra Haukssyni, fulltrúa í háskólaráði og Ásthildi Margréti Otharsdóttur, fulltrúa í háskólaráði. Stúdentar munu tilnefna einn fulltrúa í kjölfar fundarins. Málið var rætt og voru ráðsmenn sammála um að mikilvægt væri að skipa slíkan hóp.

3.    Niðurstöður 20. háskólaþings 25. október 2017.
Fyrir fundinum lá minnisblað um niðurstöður háskólaþings 25. október sl. Rektor gerði grein fyrir málinu. Engar ályktanir voru bornar upp á háskólaþingi að þessu sinni, en ráðgert er að niðurstöður úttektar á stjórnun og skipulagi fræðasviða og deilda, sem kynntar voru í drögum á þinginu, komi síðar til frekari umræðu. Málið var rætt stuttlega.

4.    Framtíðarskipulag háskólasvæðisins sbr. síðasta fund. Skipulagsnefnd fyrir háskólasvæðið í heild, ásamt tillögu að breytingu á 1. mgr. 7. gr. reglna fyrir Háskóla Íslands nr. 569/2009.
Fyrir fundinum lágu drög að erindisbréfi nýrrar skipulagsnefndar háskólasvæðisins og tillaga að breytingu á 1. mgr. 7. gr. reglna fyrir Háskóla Íslands nr. 569/2009 sem kveður á um að skipulagsnefndin verði ein af starfsnefndum háskólaráðs. Rektor gerði grein fyrir málinu og var það rætt.
– Samþykkt einróma. Rektor falið að undirbúa skipun skipulagsnefndar háskólasvæðisins.

5.    Innleiðing HÍ21, Stefnu Háskóla Íslands 2016-2021, sbr. starfsáætlun háskólaráðs.
Inn á fundinn kom Steinunn Gestsdóttir, aðstoðarrektor kennslu og þróunar og gerði grein fyrir stöðu mála varðandi innleiðingu HÍ21, stefnu Háskóla Íslands 2016-2021. Fram kom að mikill samhljómur er með starfsáætlun háskólaráðs annars vegar og HÍ21 og tilheyrandi aðgerðaráætlun hins vegar.  

Steinunn vék af fundi.

6.    Niðurstöður viðhorfskannana meðal nemenda.
Inn á fundinn kom Guðbjörg Andrea Jónsdóttir, forstöðumaður Félagsvísindastofnunar Háskóla Íslands og gerði grein fyrir niðurstöðum viðhorfskannana meðal nemenda á 2. ári í grunnnámi og brautskráðra nemenda frá Háskóla Íslands. Málið var rætt og svaraði Guðbjörg Andrea spurningum fulltrúa í háskólaráði.

Guðbjörg Andrea vék af fundi.

7.    Skýrsla um stöðu og þróun jafnréttismála við Háskóla Íslands 2012-2016.
Inn á fundinn komu Hanna Ragnarsdóttir, prófessor og formaður jafnréttisnefndar, Guðný Gústafsdóttir, verkefnisstjóri hjá Félagsvísindastofnun Háskóla Íslands og Arnar Gíslason jafnréttisfulltrúi. Gerðu þau grein fyrir nýrri skýrslu um stöðu og þróun jafnréttismála við Háskóla Íslands 2012-2016. Í skýrslunni er fjallað um jafnréttismál í víðum skilningi og er byggt á gögnum úr spurningakönnun og eigindlegum viðtölum við starfsfólk og fulltrúa nemenda. Skýrslan gefur mynd af stöðu málaflokksins og setja höfundar jafnframt fram hagnýtar ábendingar á grundvelli niðurstaðna. Þetta er í fjórða sinn sem slík skýrsla er gefin út og spanna fyrri skýrslur tímabilið 1997-2011. Félagsvísindastofnun vann að skýrslunni að beiðni jafnréttisnefndar og ráðs um málefni fatlaðs fólks og studdi rektorsembættið gerð skýrslunnar. Málið var rætt og svöruðu gestir fundarins spurningum ráðsmanna.

8.    Bókfærð mál.
a)    Tillaga Félagsvísindasviðs að breytingu á 51. grein reglna nr. 500/2011 um doktorsnám við Félagsvísindasvið. Breytingin varðar doktorsritgerðir við Stjórnmálafræðideild.

– Samþykkt.

b)    Tillaga Félagsvísindasviðs að nýrri námsleið, viðbótardiplómu (á meistarastigi) í blaða- og fréttamennsku.
– Samþykkt.

c)    Tillaga Verkfræði- og náttúruvísindasviðs að nýjum reglum um meistara- og doktorsnám.
– Samþykkt.

d)    Tillaga starfsmannasviðs að verklagsreglum um viðbrögð við einelti og öðru ofbeldi innan Háskóla Íslands.
– Samþykkt.

e)    Varamenn í fagráð um viðbrögð við kynbundinni og kynferðislegri áreitni og öðru kynferðislegu ofbeldi innan Háskóla Íslands.
– Samþykkt. Varamenn í fagráði um viðbrögð við kynbundinni og kynferðislegri áreitni og öðru kynferðislegu ofbeldi innan Háskóla Íslands verða Svava Jónsdóttir, sviðsstjóri almenns eftirlits hjá Vinnueftirlitinu (varamaður fyrir Þóru Sigfríði Einarsdóttur, sálfræðing hjá Domus Mentis – Geðheilsustöð, sem er formaður fagráðsins), Guðrún Margrét Eysteinsdóttir, lögfræðingur starfsmannasviðs (varamaður fyrir Brynhildi G. Flóvenz, dósent við Lagadeild sem er tilnefnd af starfsmannasviði Háskóla Íslands) og Henry Alexander Henrysson, aðjunkt við Sagnfræði- og heimspekideild (varamaður fyrir Ragnar Pétur Ólafsson, dósent við Sálfræðideild, sem er tilnefndur af náms- og starfsráðgjöf Háskóla Íslands). Skipunartími fagráðsins er frá 1. júlí 2017 til 30. júní 2020.

f)    Formaður ráðgefandi nefndar Stofnunar rannsóknasetra Háskóla Íslands.
– Samþykkt. Formaður ráðgefandi nefndar Stofnunar rannsóknasetra Háskóla Íslands verður Anna Dóra Sæþórsdóttir, prófessor og deildarforseti Líf- og umhverfisvísindadeildar.

9.    Mál til fróðleiks.
a)    Skýrsla Ríkisendurskoðunar: Hjúkrunarfræðingar – Mönnun, menntun og starfsumhverfi, október 2017.
b)    Glærur rektors frá upplýsingafundi fyrir starfsfólk Háskóla Íslands, 17. október sl.
c)    Grein rektors í aðdraganda kosninga til Alþingis, birt í Fréttablaðinu 18. október 2017.
d)    Bréf rektors til frambjóðenda í alþingiskosningum 2017, dags. 18. október 2017.
e)    Glærur rektors frá háskólaþingi 25. október 2017.
f)    Endanleg skipan kennslumálanefndar, jafnréttisnefndar og vísindanefndar háskólaráðs, sbr. fund ráðsins 1. júní sl.
g)    Stjórn meistaranáms í talmeinafræði.
h)    Staða Háskóla Íslands og einstakra fræðasviða háskólans á lista Times Higher Education World University Rankings. Sjá hér um verkfræði og tækni.
i)    Erindi frá Ríkisendurskoðun vegna fyrirhugaðrar úttektar á skilvirkni norrænna háskóla, dags. 24. október 2017.
j)    Dómnefnd hagnýtingarverðlauna Háskóla Íslands 2017.
k)    Bréf frá Norrænu ráðherranefndinni til Háskóla Íslands, dags. 28. september 2017 og svar rektors við því, dags. 25. október 2017.
l)    Stefnumótun ríkisaðila til þriggja ára. Greinargerð Háskóla Íslands til mennta- og menningarmálaráðuneytis.
m)    Fréttabréf Heilbrigðisvísindasviðs, nóvember 2017.

Fleira var ekki gert.
Fundi slitið kl. 15.50.