Skip to main content

Fundargerð háskólaráðs 20. mars 2020

5/2020

HÁSKÓLARÁÐSFUNDUR

Ár 2020, föstudaginn 20. mars var haldinn rafrænn fundur í háskólaráði Háskóla Íslands, skv. 3. gr. starfsreglna háskólaráðs, sem stóð frá kl. 12.00 til kl. 18.00.

Þátt tóku í fundinum Jón Atli Benediktsson, Ásthildur Margrét Otharsdóttir, Benedikt Traustason, Einar Sveinbjörnsson, Guðrún Geirsdóttir, Guðvarður Már Gunnlaugsson, Ingibjörg Gunnarsdóttir, Kristrún Heimisdóttir, Ólafur Pétur Pálsson, Ragnhildur Alda María Vilhjálmsdóttir og Siv Friðleifsdóttir. Magnús Diðrik Baldursson ritaði fundargerð.

  1. Tillaga að auglýsingu um fyrirkomulag kennslu, prófa og námsmats á vormisseri 2020.

Fyrir fundinum lá svohljóðandi tillaga rektors að auglýsingu um fyrirkomulag kennslu, prófa og námsmats á vormisseri 2020:

Þrátt fyrir ákvæði reglna fyrir Háskóla Íslands nr. 569/2009 og annarra reglna Háskólans sem í gildi eru um kennslu, fyrirkomulag prófa og námsmat gildir eftirfarandi ákvæði um vormisseri háskólaársins 2019-2020:

Í ljósi aðstæðna sem skapast hafa vegna COVID-19 veirufaraldursins og fyrirmæla stjórnvalda í því efni og þar með áhrifa á starfsemi Háskóla Íslands er fræðasviðum og deildum heimilt í nánu samráði við kennslusvið að ákveða með hvaða hætti framkvæmd kennslu, prófa og námsmats vegna vormisseris 2020 verður fyrir komið. Tryggt verði eftir föngum að gera nemendum kleift að ljúka þeim námskeiðum vormisseris sem þeir eru skráðir í. Um námsmat fer eftir gildandi reglum eftir því sem frekast er unnt.

Auglýsing þessi er birt með stoð í lögum nr. 85/2008 um opinbera háskóla og taka ákvæði hennar þegar gildi.

– Samþykkt einróma.

Ragnhildur Alda, fulltrúi stúdenta, lagði fram svohljóðandi bókun:

Við ákvarðanir á þeim hætti sem verður á framkvæmd kennslu, prófa og námsmats, vil ég fyrir hönd stúdenta leggja áherslu á að deildir, fræðasvið og kennarar taki aukna fjölskylduábyrgð vegna samkomubanns nemenda með í reikninginn. Sem og tryggi að allir nemendur hafi sama aðgang að fjarkennslu innan hvers áfanga óháð fyrri virkni eða mætingu. Þetta á sérstaklega við um nemendur í lotukennslu.

Benedikt Traustason, hinn fulltúi stúdenta, lagði einnig fram bókun:

Stúdentar leggja áherslu á að breytingar á námsmati námskeiða verði gerðar í samráði við þá nemendur sem eiga í hlut hverju sinni. Verkefni sem verða metin til lokaeinkunnar þurfa að byggja á þeirri kennslu sem farið hefur fram eða úr efni rafrænnar kennslu. Það er ekki sanngjarnt að leggja á ný verkefni úr námsefni sem nemendur hafa ekki hlotið kennslu í. Aðeins ætti að prófa upp úr því námsefni sem hefur verið kennt. Það er mikilvægt að breytingar á námsmati fari fram í sátt við nemendur en ófyrirsjáanlegar breytingar geta aukið kvíða á þeim óvissutímum sem nú eru.”

Fleira var ekki gert.

Fundi slitið kl. 18.