Skip to main content

Fundargerð háskólaráðs 1. febrúar 2018

2/2018

HÁSKÓLARÁÐSFUNDUR

Ár 2018, fimmtudaginn 1. febrúar var haldinn fundur í háskólaráði sem hófst kl. 13.

Fundinn sátu Jón Atli Benediktsson, Ásthildur Margrét Otharsdóttir, Guðrún Geirsdóttir, Orri Hauksson, Ragna Árnadóttir, Ragna Sigurðardóttir, Stefán Hrafn Jónsson, Tómas Þorvaldsson og Þengill Björnsson. Eiríkur Rögnvaldsson og Erna Hauksdóttir boðuðu forföll og varamenn þeirra einnig. Fundinn sátu einnig Magnús Diðrik Baldursson sem ritaði fundargerð og Þórður Kristinsson.

1.    Setning fundar.
Rektor setti fundinn og greindi frá því að engin athugasemd hefði borist við fundargerð síðasta fundar og hefði hún því skoðast samþykkt og verið birt á háskólavefnum. Þá spurði rektor hvort einhver gerði athugasemd við dagskrá fundarins og var svo ekki. Jafnframt spurði rektor hvort einhver teldi sig vanhæfan til að taka þátt í meðferð máls á dagskrá og var svo ekki. Ekki voru gerðar athugasemdir við liðinn „bókfærð mál“og skoðast hann því samþykktur.

2.    Um fyrirhugaða uppbyggingu stúdentagarða, sbr. ályktun ráðsins 7. september sl. Drög samkomulags Háskóla Íslands og Félagsstofnunar stúdenta.
Inn á fundinn komu Eiríkur Hilmarsson, framkvæmdastjóri Vísindagarða Háskóla Íslands ehf. og Sigríður Sigurðardóttir, sviðsstjóri framkvæmda- og tæknisviðs. Fyrir fundinum lágu drög að samkomulagi Háskóla Íslands og Félagsstofnunar stúdenta um uppbyggingu stúdentagarða á skipulagssvæði Háskólans. Rektor gerði grein fyrir aðdraganda málsins og inntaki samkomulagsins. Fram kom að á fundi háskólaráðs 7. september var samþykkt bókun vegna fyrirhugaðrar uppbyggingar stúdentagarða á lóð Gamla Garðs við Hringbraut 29. Í framhaldi af fundinum áttu borgarstjóri og rektor fund ásamt fulltrúum beggja aðila, þ.á m. stúdenta og Félagsstofnunar stúdenta, þar sem farið var yfir málið og sammælst um að skipa starfshóp um það. Í þeirri vinnu sem við tók kom upp sú hugmynd að Háskólinn og Félagsstofnun gerðu með sér samkomulag það sem nú liggur fyrir. Með því er málið sett í ákveðinn farveg með það að markmiði að unnin verði deiliskipulagstillaga sem breið sátt verði um. Með samkomulaginu lýkur jafnframt starfi fyrrgreinds starfshóps Háskólans og borgarinnar. Málið var rætt. Fram komu ábendingar um minni háttar orðalagsbreytingar í samkomulaginu.

– Samþykkt einróma að fela rektor að ganga frá samkomulaginu í samræmi við framlögð drög og ábendingar um orðalag.

Að afgreiðslu lokinni lögðu fulltrúar stúdenta fram svohljóðandi bókun:

„Fulltrúar stúdenta í háskólaráði fagna þeirri ákvörðun Háskóla Íslands að setja af stað vinnu við uppbyggingu stúdentaíbúða á reit háskólans við Gamla Garð í víðtækri sátt við hlutaðeigandi aðila. Mikið fagnaðarefni er að í samkomulagi samráðshóps stúdenta, Háskóla Íslands, Reykjavíkurborgar og Félagsstofnunar stúdenta sé jafnframt ákvæði um enn frekari uppbyggingu stúdentagarða á háskólasvæðinu. Þar má nefna reit háskólans við Dunhaga, sem áætla má að geri Háskóla Íslands kleift að uppfylla samkomulag sitt við Reykjavíkurborg, dagsett 2. mars 2016, um uppbyggingu allt að 400 stúdentaíbúða á svæðinu. Mikilvægt er að vinna við uppbyggingu stúdentaíbúða á háskólasvæðinu haldi áfram, eins og tilgreint er í 6. gr. samkomulagsins, og að tímaáætlanir gildi um þá uppbyggingu, enda hefur töf þegar orðið á framkvæmdum sem er bagalegt fyrir stúdenta. Jafnrétti stúdenta til náms felur meðal annars í sér aðgengi að húsnæði sem gerir nemendum kleift að stunda nám við háskólann, og því fagna fulltrúar stúdenta því skrefi sem stigið er í umræddu samkomulagi í átt að fjölgun stúdentaíbúða.“

3.    Um húsnæðis- og skipulagsmál Háskóla Íslands.
Undir þessum lið var farið yfir nokkur húsnæðis- og skipulagsmál sem eru á döfinni. Fyrir liggur jafnframt að á vettvangi nýrrar skipulagsnefndar háskólaráðs verður undirbúin heildstæð áætlun um heildarskipulag háskólasvæðisins, þ.m.t. uppbygging húsnæðis fyrir starfsemi Menntavísindasviðs á háskólasvæðinu.

a)    Starfsemi Vísindagarða Háskóla Íslands ehf.
Eiríkur gerði grein fyrir starfsemi og helstu málum á döfinni hjá Vísindagörðum Háskóla Íslands ehf. Málið var rætt og svaraði Eiríkur spurningum ráðsmanna.

b)    Nýr Landspítali. Þarfagreining fyrir Heilbrigðisvísindasvið Háskóla Íslands, tímaáætlun fyrir uppbyggingu húsnæðis fyrir heilbrigðisgreinar.
Inn á fundinn kom Ólafur Pétur Pálsson, prófessor og formaður starfshóps um þarfagreiningu fyrir uppbyggingu húsnæðis fyrir heilbrigðisgreinar Háskóla Íslands í tengslum við byggingu nýs Landspítala. Gerði hann grein fyrir málinu og var það rætt.

Ragna Árnadóttir og Ólafur Pétur viku af fundi.

c)    Hús íslenskra fræða.
Sigríður gerði grein fyrir áformum um byggingu Húss íslenskra fræða við Suðurgötu. Málið var rætt og svaraði Sigríður spurningum fulltrúa í háskólaráði.

d)    Niðurstöður nýrrar samgöngukönnunar.
Sigríður fór yfir helstu niðurstöður samgöngukönnunar sem gerð var nýlega meðal stúdenta og starfsmanna Háskóla Íslands. Málið var rætt og svaraði Sigríður spurningum ráðsmanna.

4.    Bókfærð mál.
a)    Umboð gæðanefndar háskólaráðs framlengist til 30. júní 2018.
– Samþykkt.

5.    Mál til fróðleiks.
a)    Fréttabréf Menntavísindasviðs, janúar 2018.
b)    Aukin fjárveiting vegna þverfræðilegs meistaranáms í máltækni, bréf mennta- og menningarmálaráðuneytisins, dags. 23. janúar 2018.
c)    Rektor Háskóla Íslands kjörinn í stjórn Aurora-samstarfsnetsins.

                                        Fleira var ekki gert.
                                        Fundi slitið kl. 14.30.