Skip to main content

Fundargerð háskólaráðs 11. janúar 2024

1/2024

HÁSKÓLARÁÐSFUNDUR

Ár 2024, fimmtudaginn 11. janúar var haldinn fundur í háskólaráði Háskóla Íslands sem hófst kl. 13.00.

Fundinn sátu Jón Atli Benediktsson, Arnar Þór Másson, Brynhildur Ásgeirsdóttir, Davíð Þorláksson, Hólmfríður Garðarsdóttir, Katrín Atladóttir, Katrín Björk Kristjánsdóttir, Ólafur Pétur Pálsson, Silja Bára Ómarsdóttir, Vilborg Einarsdóttir og Þorvaldur Ingvarsson. Fundinn sátu einnig Magnús Diðrik Baldursson, sem ritaði fundargerð, og Þórður Kristinsson.

1.    Setning fundar.
Rektor setti fundinn og greindi frá því að fundargerð síðasta fundar hefði verið samþykkt með rafrænni undirritun og hún birt á háskólavefnum. Þá spurði rektor hvort einhver gerði athugasemd við dagskrá fundarins og var svo ekki. Ekki voru gerðar athugasemdir við liðinn „bókfærð mál“ og skoðast hann því samþykktur. Loks spurði rektor hvort einhver lýsti sig vanhæfan til að taka þátt í meðferð máls á dagskrá og var svo ekki.

2.    Fjármál Háskóla Íslands. Staða, horfur, áætlun.
Inn á fundinn komu Guðmundur R. Jónsson, framkvæmdastjóri sameiginlegrar stjórnsýslu, og Jenný Bára Jensdóttir, sviðsstjóri fjármálasviðs.

a.    Fjárlög ársins 2024 og tillaga fjármálanefndar háskólaráðs um skiptingu fjárveitinga innan Háskóla Íslands, sbr. síðasta fund.
Rektor, Guðmundur og Jenný Bára greindu frá tillögu fjármálanefndar háskólaráðs um skiptingu fjárveitinga innan Háskóla Íslands á árinu 2024. Málið var rætt og kom fram að útlit er fyrir mjög erfiðan rekstur á næsta ári og að gripið hefur verið til margvíslegra aðgerða í þeirri viðleitni að draga úr kostnaði.

– Tillaga fjármálanefndar háskólaráðs um skiptingu fjárveitinga innan Háskóla Íslands 2024 samþykkt. Fulltrúar stúdenta sátu hjá. Hólmfríður Garðarsdóttir og Silja Bára Ómarsdóttir lýstu andstöðu sinni við að ekki verði lagt fé til Sáttmálasjóðs á árinu 2024 og lögðu fram svohljóðandi bókun:

„Við, Hólmfríður Garðarsdóttir og Silja Bára Ómarsdóttir, fulltrúar háskólasamfélagsins í Háskólaráði, lýsum yfir vonbrigðum með ákvörðun fjármálanefndar að koma með tillögu um að leggja niður Sáttmálasjóð frá og með nýliðnum áramótum. Við greiðum atkvæði gegn henni og tökum undir ályktanir Félags prófessora við ríkisháskóla og Félags háskólakennara um mikilvægi sjóðsins, sjá meðfylgjandi.“

b.    Rekstraráætlanir einstakra starfseininga fyrir árið 2024, sbr. síðasta fund.
Guðmundur og Jenný Bára gerðu grein fyrir rekstraráætlunum fræðasviða og sameiginlegrar stjórnsýslu Háskóla Íslands fyrir árið 2024. Málið var rætt.

Rektor lagði fram svohljóðandi tillögu að bókun:

„Bókun háskólaráðs vegna fjárhagsáætlana 2024
Í desember síðastliðnum var háskólaráði kynnt staða fjárhagsáætlana fræðasviða og sameiginlegrar stjórnsýslu Háskóla Íslands fyrir árið 2024. Á þeim tíma vantaði um 1.200 m.kr. upp á að endar næðu saman. Við lokaafgreiðslu fjárlaga 2024 bættist við 300 m.kr. framlag frá Happdrætti HÍ sem léttir á húsnæðislið skólans og þar með á rekstri hans.

Þrátt fyrir þessa viðbót, auk þess sem mikil vinna hefur verið lögð í að draga enn frekar úr kostnaði, vantar nú í byrjun janúar 2024 enn um 250 m.kr. til að endar nái saman.

Árið 2023 þurfti Háskóli Íslands að mæta fyrirvaralítilli lækkun fjárveitingar upp á 300 m.kr. vegna fækkunar nemenda og boðuð var enn frekari lækkun af sömu ástæðum árið 2024. Sú aðgerð hefði þýtt ríflega eins milljarðs króna lækkun fjárveitingar. Þessi aðgerð var hins vegar ekki látin ganga eftir af hálfu stjórnvalda.

Þrátt fyrir að nýtt fjármögnunarlíkan stjórnvalda fyrir háskóla skili sambærilegri heildar raunfjárveitingu til Háskóla Íslands árið 2024 og var á árinu 2023 er ljóst að áhrif nýs líkans eru mismikil eftir fræðasviðum, sem mun því leiða til frekari endurskoðunar á deililíkani Háskólans á komandi mánuðum og áframhaldandi viðræðna við stjórnvöld um stöðu skólans.

Í ljósi framangreinds samþykkir háskólaráð eftirfarandi varðandi fjárhagsáætlanir 2024:

1.    Öllum einingum, sem ekki eiga uppsafnaðan afgang frá fyrri árum, er gert að skila inn áætlunum í jafnvægi. Þau fræðasvið sem ekki eiga uppsafnaðan afgang eru Félagsvísindasvið, Hugvísindasvið og Verkfræði- og náttúruvísindasvið.

2.    Að teknu tilliti til uppsafnaðs afgangs hjá Heilbrigðisvísindasviði og Menntavísindasviði vantar enn um 120-150 m.kr. á að endar nái saman. Óskað er eftir því að sem fyrst liggi fyrir tillögur frá fjármálanefnd háskólaráðs um hvernig mögulegt sé að standa að frekara aðhaldi til að ná hallalausum rekstri árið 2024 og á næstu árum.“

c.    Aldarafmælissjóður.
Rektor gerði grein fyrir framlagðri tillögu um framlög úr Aldarafmælissjóði. Málið var rætt og svaraði rektor spurningum fulltrúa í háskólaráði.

– Samþykkt.

Jenný Bára vék af fundi.

3.    Samgöngu- og bílastæðamál, sbr. fund ráðsins 2. nóvember sl.
Inn á fundinn kom Kristinn Jóhannesson, sviðsstjóri framkvæmda- og tæknisviðs, og gerði grein fyrir tillögu um útfærslu gjaldtöku fyrir bílastæði á lóðum Háskóla Íslands. Málið var rætt og verður það á dagskrá háskólaþings 17. janúar nk. og kemur að því búnu aftur til umræðu og afgreiðslu í háskólaráði.

Fulltrúar stúdenta lögðu fram svohljóðandi bókun:

„Fulltrúum stúdenta þykir sú útfærsla á mótvægisaðgerðum sem er lagt er hér upp með ekki vera fullnægjandi. Við vísum þá í opinn Stúdentaráðsfund sem haldinn var í febrúar 2020 þegar háskólinn talaði um að árskort fyrir stúdenta myndi fást á 5.000 krónur. Miðað við verðlagsþróun væri það á núvirði um 6.300 krónur. Skilningur er fyrir öðrum breytum sem hafa áhrif eins og breyting á gjaldskrá Strætó BS en upphæðin sem velt er upp nú, um 30.000 krónur, er þó langt frá því sem talað var um þegar U-passinn var seinast til umræðu.
Brynhildur K. Ásgeirsdóttir
Katrín Björk Kristjánsdóttir“

Guðmundur, Kristinn og Silja Bára viku af fundi.

Kaffihlé.

4.    Starfsáætlun innri endurskoðunar fyrir árið 2024.
Sigurjón Guðbjörn Geirsson, innri endurskoðandi, kom inn á fundinn. Ólafur Pétur Pálsson, formaður stjórnar endurskoðunarnefndar, reifaði stuttlega starf endurskoðunarnefndar og Sigurjón fór yfir framlagða starfsáætlun innri endurskoðunar fyrir árið 2024. Málið var rætt.
– Endurskoðunaráætlun fyrir árið 2024 samþykkt einróma.

Sigurjón vék af fundi.

5.    Drög jafnréttisáætlunar Háskóla Íslands.
Inn á fundinn komu Sigríður Guðmarsdóttir, dósent og fulltrúi í jafnréttisnefnd háskólaráðs, og Arnar Gíslason og Sveinn Guðmundsson, jafnréttisfulltrúar. Fóru þau yfir drög að jafnréttisáætlun og tilheyrandi kostnaðaráætlun fyrir tímabilið 2024-2026. Málið var rætt og brugðust þau Sigríður, Arnar og Sveinn við spurningum og athugasemdum.
– Jafnréttisáætlun Háskóla Íslands 2024-2026 samþykkt einróma með fyrirvara um fjármögnun einstakra verkefna.

Sigríður, Arnar og Sveinn viku af fundi.

6.    Endurupptaka nemendamáls
Inn á fundinn kom Magnús Jökull Sigurjónsson, lögfræðingur á skrifstofu rektors, og gerði grein fyrir tillögu að endurupptöku nemendamáls vegna formgalla, en háskólaráð úrskurðaði um málið á fundi sínum 5. október 2023.
– Samþykkt.

7.    Bókfærð mál.
a.    Frá Félagsvísindasviði: Tillaga að breytingu á 94. gr. reglna fyrir Háskóla Íslands nr. 569/2009. Varðar breytt fyrirkomulag MS-náms í fjármálum fyrirtækja í Viðskiptafræðideild.
– Samþykkt.

b.    Frá Menntavísindasviði: Tillaga að færslu námsbrautar frá Deild kennslu- og menntunarfræði yfir í Deild menntunar og margbreytileika, ásamt breytingu á viðeigandi reglugreinum, nr. 121 og 122 í reglum fyrir Háskóla Íslands nr. 569/2009.
– Samþykkt.

c.    Frá Menntavísindasviði: Tillaga um að heiti námsleiðarinnar Kennslufræði fyrir iðnmeistara (KEN121) verði breytt í Kennslufræði fyrir starfsmenntakennara, ásamt viðeigandi breytingu 117. gr. reglna nr. 569/2009 fyrir Háskóla Íslands.
– Samþykkt.

d.    Frá samráðsnefnd um kjaramál: Tillaga að breytingu á vinnureglum um vinnumatssjóð, sbr. 78. gr. reglna fyrir Háskóla Íslands nr. 569/2009.
– Samþykkt.

e.    Stjórn Happdrættis Háskóla Íslands.
– Samþykkt. Stjórn Happdrættis Háskóla Íslands er þannig skipuð til 31.12.2024: Víðir Smári Petersen, dósent við Lagadeild, formaður, Jenný Bára Jensdóttir, sviðsstjóri fjármálasviðs Háskóla Íslands, og Kristbjörg Edda Jóhannsdóttir, hag- og viðskiptafræðingur.

f.    Fyrirvarar við útgáfu Kennsluskrár Háskóla Íslands 2024-2025.
– Samþykkt.

g.    Samstarfssamningur HÍ og LSH (framlengdur til 30. júní 2024), dags. 8. desember 2023.
– Staðfest.

h.    Tillaga að framkvæmda- og viðhaldsáætlun fyrir árið 2024 ásamt drögum áætlunar fyrir næstu ár, sbr. síðasta fund.
– Samþykkt.

8.    Mál til fróðleiks.
a.    Dagskrá Háskólaþings 17. janúar 2024.
b.    Uppfært yfirlit um nefndir, stjórnir og ráð sem háskólaráð hefur aðkomu að og fyrirséð er að skipa þurfi eða tilnefna í á vormisserinu.
c.    Uppfært dagatal Háskóla Íslands.
d.    Samkomulag um sókn í heilbrigðisvísindum, félagsráðgjöf og STEM-greinum.
e.    Fréttabréf Háskólavina, dags. 20. desember 2023.
f.    Ályktun Félags prófessora við ríkisháskóla, dags. 18. desember 2023, og Félags háskólakennara, dags. 10. janúar 2024.

Fleira var ekki gert.
Fundi slitið kl. 15.30.