Skip to main content

Fyrsta konan í læknastétt

Portrettmynd af Kristínu Ólafsdóttur lækni eftir listamanninn Guðmund Karl Ásbjörnsson blasir við þegar gengið upp stigann til Hátíðasalar Háskóla Íslands á annarri hæð Aðalbyggingar. Myndin var afhent skólanum á árinu 2011.

Það voru fjögur félög sem tengjast íslenskri læknastétt sem stóðu að þessari fallegu gjöf: Félag kvenna í læknastétt, sem átti frumkvæði að gjöfinni, Læknafélag Íslands, Læknafélag Reykjavíkur og Félag áhugamanna um sögu læknisfræðinnar. Tilefni gjafarinnar var aldarafmæli skólans en tilgangur hennar var að vekja athygli á lífsstarfi Kristínar Ólafsdóttur, sem fyrst kvenna á Íslandi tók embættispróf í læknisfræði og var um leið fyrsta konan til að ljúka námi við Háskóla Íslands. Hún hóf nám í læknisfræði við nýstofnaðan Háskóla Íslands haustið 1911 og útskrifaðist árið 1917. Konur í læknavísindum hafa síðan iðulega rutt leið fyrir aðrar konur innan akademíunnar hér á landi. Þannig varð t.d. Margrét Guðnadóttir læknir fyrst kvenna til að gegna prófessorsembætti við Háskóla Íslands.

Þegar Kristín Ingólfsdóttir, rektor Háskóla Íslands, veitti gjöfinni viðtöku sagði hún m.a. að málverkið ætti „ekki bara eftir að gleðja augu okkar heldur jafnframt minna okkur á frumkvöðul og afrekskonu fædda í lok 19. aldar og gríðarlega mikilvægt framlag hennar til samfélagsins.“

Kristín Ólafsdóttir fæddist á Lundi í Lundarreykjadal árið 1889. Hún lauk stúdentsprófi utan skóla vorið 1911. Hún var eina stúlkan í þeim stúdentsárgangi og þriðja konan sem lauk stúdentsprófi á Íslandi. Að loknu embættisprófi í læknisfræði á Íslandi stundaði hún framhaldsnám í Danmörku og Noregi, ásamt eiginmanni sínum, Vilmundi Jónssyni lækni, og fóru þau fyrst í stað til starfa við lækningar á Ísafirði. Þeim hjónum varð þriggja barna auðið.

Þegar Vilmundur, maður hennar, var skipaður landlæknir árið 1931 fluttist fjölskyldan til Reykjavíkur og þar opnaði Kristín eigin lækningastofu. Kristín þótti mjög góður læknir sem bæri hag sjúklinga sinna fyrir brjósti. Hún hafði einstakt lag á að hlusta á fólk og frá henni stafaði ró og öryggi. Kristín var sérstaklega eftirsótt til sængurkvenna enda hafði fas hennar góð áhrif á konurnar.

Kristín Ólafsdóttir

Kristín tók fyrst kvenna embættispróf í læknisfræði á Íslandi og var um leið fyrsta konan til að ljúka námi við Háskóla Íslands.

Kristín Ólafsdóttir

Kristín var mjög áhugasöm um allt sem laut að heimilisfræðslu enda taldi hún að góð þekking á heimilishaldi stuðlaði að aukinni hollustu og hreinlæti. Hún ritaði greinar og bækur um heilsufræði, m.a. bækurnar Heilsufræði handa húsmæðrum og Manneldisfræði handa húsmæðraskólum, sem voru vinsælar á heimilum landsins. Auk þess var hún afkastamikill þýðandi, þýddi bæði rit um heilbrigðismál og fagurbókmenntir, einkum ævisögur.

Samhliða læknisstörfum sínum kom Kristín að félagsmálum. Hún var m.a. einn stofnenda Félags háskólakvenna, sat í barnaverndarnefnd og skólanefnd Húsmæðraskólans í Reykjavík.

Kristín rak læknastofu sína fram á síðustu æviár og sinnti sínum föstu sjúklingum eftir það. Hún lést í Reykjavík árið 1971 á 82. aldursári. Vilmundur maður hennar lést ári seinna. Þess má geta að Kristín var móðursystir Ólafs Ólafssonar, fv. landlæknis, en móðir hans og systir Kristínar var Ásta Ólafsdóttir húsfreyja á Brautarholti á Kjalarnesi, en Kristín var einnig móðursystir Ólafs Björnssonar hagfræðiprófessors, en móðir hans var Guðrún Ólafsdóttir.

 Mynd frá því að Kristín Ingólfsdóttir, rektor Háskóla Íslands, veitti gjöfinni viðtöku