Skip to main content
26. mars 2021

Vísindin, samstaðan og seiglan færa okkur sigra

Vísindin, samstaðan og seiglan færa okkur sigra - á vefsíðu Háskóla Íslands

Jón Atli Benediktsson, rektor Háskóla Íslands, sendi meðfylgjandi tilkynningu á starfsfólk og stúdenta í dag (26. mars):

„Kæru nemendur og samstarfsfólk.

Eins og fram hefur komið hafa stjórnvöld stórhert sóttvarnaraðgerðir með það fyrir augum að koma í veg fyrir fjórðu bylgju faraldursins hér innanlands. Til að það takist er afar mikilvægt að við verðum áfram samstíga í baráttunni gegn þessum vágesti.

Hópsýkingarnar sem verið er að kljást við núna eru af völdum breska afbrigðis kórónaveirunnar sem er mun meira smitandi en flest önnur auk þess að valda meiri einkennum hjá eldri börnum. Við þessu er aðeins eitt svar: Förum að öllu með gát og fylgjum ráðleggingum sóttvarnaryfirvalda. Meginreglan er 2 metra nándarmörk og ekki mega fleiri en 10 koma saman í hverju rými. Andlitsgrímur eru víða skylda.

Öll kennsla við Háskóla Íslands verður nú stafræn og byggingum hefur að nærri öllu leyti verið lokað. Heilbrigðisyfirvöld munu á næstu dögum vinna að reglum um fyrirkomulag skólahalds að loknu páskafríi.

Í ljósi stöðunnar hvet ég ykkur, kæru nemendur, til að kynna ykkur ráðleggingar vegna COVID-19 á vefsíðu skólans þar sem fá má ýmis uppbyggileg ráð og leiðir til að stuðla að eigin vellíðan.

Ég hvet ykkur einnig, kæra samstarfsfólk, til að kynna ykkur upplýsingar um heilsu og vellíðan í Uglu þar sem finna má ýmis góð bjargráð sem hægt er að nýta sér í þessum flóknu aðstæðum. Ég mæli eindregið með því að þau ykkar sem þess eiga kost vinnið heima og hafið samráð um vinnutilhögun við næsta stjórnanda.

Við þessar krefjandi aðstæður megum við ekki gleyma öllu því sem þið hafið afrekað síðustu þrettán mánuði, kæru nemendur og samstarfsfólk. Seigla er orðið sem mér kemur oftast í hug þegar ég lít til baka en það kemur úr smiðju þjóðskáldsins okkar Jónasar Hallgrímssonar. Hann á líka línurnar um mikilvægi þekkingarleitarinnar: Vísindin efla alla dáð, orkuna styrkja, viljann hvessa, vonina glæða. Það er einmitt þetta, vísindin, viljinn, vonin og seiglan, sem tryggja okkur sigur á endanum ásamt samstöðunni.

Njótið helgarinnar eins og unnt er kæru nemendur og samstarfsfólk. Verum varkár og jafnvel meira nú en nokkru sinni fyrr á þeim mánuðum sem við höfum átt í höggi við veiruna.

Saman vinnum við sigra.

Jón Atli Benediktsson, rektor.

Inni á Háskólastorgi