Skip to main content
30. maí 2020

Vinna saman að fagháskólanámi í leikskólafræðum á Suðurnesjum

""

Háskóli Íslands, Keilir og sveitarfélög á Suðurnesjum hafa undirritað viljayfirlýsingu um að skipuleggja í sameiningu fagháskólanám í leikskólafræðum fyrir leiðbeinendur sem starfa í leikskólum á Suðurnesjum. Menntavísindasvið mun halda utan um námið af hálfu Háskóla Íslands.

Markmið verkefnisins er í senn að efla menntun innan leikskóla á svæðinu og fjölga möguleikum starfsfólks til starfsþróunar en jafnframt að sameina styrkleika formlegrar menntunar og þeirrar reynslu sem starfsfólk leikskóla býr yfir.

Um er að ræða 60 eininga starfstengt nám á háskólastigi sem skilgreint er sem nám með vinnu og er áætlað að það taki tvö ár. Námið er þannig byggt upp að allar þreyttar einingar nýtast þátttakendum til áframhaldandi náms til diplómagráðu eða B.Ed.-gráðu. Námið er hugsað fyrir þau sem hafa stúdentspróf eða uppfylla skilyrði um undanþágu til háskólanáms. 

Námið verður skipulagt sem sveigjanlegt nám með starfi. Kennarar í leikskólakennarafræði heimsækja nemendur í heimabyggð, í húsnæði Keilis þar sem þunginn af náminu fer fram. Nemendur fara enn fremur í heimsóknir á vettvang og koma einnig á Menntavísindasvið Háskóla Íslands í Stakkahlíð sem ber faglega ábyrgð á náminu. Þróun námsins verður jafnframt unnin í góðu samstarfi við fræðsluyfirvöld á Suðurnesjum með stofnun fagráðs um námið. 

Hlutfall menntaðra leikskólakennara á Suðurnesjum er lægra en víða á landinu og telja aðstandendur viljayfirlýsingarinnar til mikils að vinna að bjóða leiðbeinendum og öðrum þeim sem vilja sækja sér meiri menntun tækifæri og aðstöðu við hæfi.

Kolbrún Þ. Pálsdóttir, forseti Menntavísindasviðs Háskóla Íslands, fagnar viljayfirlýsingunni og segir að samstarfið við Keili, sveitarfélög á Suðurnesjum og skólaskrifstofur hafi einkennst af metnaði fyrir hönd leikskólastigsins og vilja allra aðila til að bjóða starfsfólki leikskóla tækifæri til vaxtar og starfsþróunar með fagháskólanámi. „Það er dýrmætt að námið geti farið fram í heimabyggð með ríkulegum stuðningi heimamanna sem þekkja best til starfsaðstæðna. Keilir er með frábæra aðstöðu til náms og farsæla reynslu af því að styðja fólk til mennta með sveigjanleika og lausnamiðaða hugsun í fyrirrúmi. Skólaskrifstofur og leikskólastjórar hafa verið einkar styðjandi sem er gríðarlega mikilvægt.“ 

Unnið er að fjármögnun verkefnisins og er stefnt að því að kennsla hefjist á hausti komanda.

Frá undirritun viljayfirlýsingarinnar í Háskóla Íslands. Sitjandi frá vinstri: Friðjón Einarsson, formaður bæjarráðs Reykjanesbæjar, Kolbrún Þ. Pálsdóttir, forseti Menntavísindasviðs, Jón Atli Benediktsson, rektor Háskóla Íslands, Jóhann Friðrik Friðriksson, framkvæmdastjóri Keilis, og Magnús Stefánsson, bæjarstjóri Sandgerðis og Garðs. Standandi frá vinstri: Fannar Jónasson, bæjarstjóri Grindavíkur, Oddný Sturludóttir, aðjunkt og verkefnastjóri um eflingu kennaramenntunar, Rannveig Björk Þorkelsdóttir, lek