Skip to main content
6. desember 2019

Vilmundur hlýtur verðlaun Ásu Wright

""

Vilmundur Guðnason, forstöðulæknir Hjartaverndar og prófessor við Læknadeild Háskóla Íslands, hlýtur heiðursverðlaun úr Verðlaunasjóði Ásu Guðmundsdóttur Wright í ár fyrir brautryðjendastarf í að samtvinna rannsóknir á hjarta- og æðasjúkdómum og erfðum þeirra. Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands, afhenti Vilmundi verðlaunin við hátíðlega athöfn í Þjóðminjasafninu fyrr í dag. Verðlaunin eru árlega veitt íslenskum vísindamanni sem náð hefur framúrskarandi árangri á sínu sérsviði í vísindum eða fræðum og miðlað þekkingu sinni til framfara í íslensku þjóðfélagi.

Vilmundur Guðnason hefur starfað sem forstöðulæknir Hjartaverndar um 20 ára skeið og hann er einnig prófessor við Læknadeild Háskóla Íslands með áherslu á erfðir hjarta- og æðasjúkdóma. Þá hefur hann verið gestavísindamaður við Centre for Cardiovascular Genetics hjá Royal Free og University College í London og hjá Institute of Public Health við Háskólann í Cambridge. 

Vilmundur hefur ásamt samstarfsfólki nýtt nákvæm og ítarleg gögn um arfgerðir hjá stórum hópi landsmanna til þess að skoða erfðavísa sem hafa áhrif á líkindi á flóknum en algengum langvarandi sjúkdómum, eins og hjarta- og æðasjúkdómum. Hann stýrir Öldrunarrannsókn Hjartaverndar sem byggist á hinni 50 ára löngu Reykjavíkurrannsókn og svokallaðri REFINE Reykjavík rannsókn hjá yngri aldurshópi. Gögn úr þessum rannsóknum hafa m.a. verið nýtt í alþjóðlegu samstarfi til þess að varpa skýrara ljósi á áhættþætti hjarta- og æðasjúkdóma og samstarfi við innlenda og erlenda aðila hefur hann birt fjölmargar vísindagreinar í þekktustu vísindatímaritum heims, m.a. um áhættuþætti fyrir hjarta- og æðasjúkdóma. 

Nýjustu rannsóknir Vilmundar tengjast ýmsum þáttum öldrunar, allt frá beinþynningu til heyrnartaps, lungnasjúkdóma og bandvefsmyndunar í lungum, háþrýstings og æðakölkunar. 

Hafa lagt grunn að fovörnum gegn hjarta- og æðasjúkdómum

Niðurstöður úr rannsóknum Hjartaverndar hafa enn fremur lagt grunninn að þekkingu á helstu áhættuþáttum hjarta- og æðasjúkdóma á Íslandi og verið undirstaða markvissra forvarna gegn þessum sjúkdómum. Út frá rannsóknunum hefur enn fremur verið þróaður áhættureiknir fyrir hjarta- og æðasjúkdóma sem er aðgengilegur á netinu. 

Vilmundur og samstarfsfólk hjá Hjartavernd hefur hlotið fjölmarga styrki innan lands og utan til rannsókna, þar á meðal frá National Institute of Health og National Institute on Ageing í Bandaríkjunum, Rannsóknarsjóði Íslands og Evrópusambandinu. Hjartavernd hefur enn fremur átt í góðu samstarfi við háskóla, stofnanir og fyrirtæki hér á landi auk tuga rannsóknahópa í háskólum og stofnunum í Bandaríkjunum, Evrópu, Ástralíu og Asíu. 

Auk þessa hefur Vilmundur leiðbeint fjölda nemenda í meistara- og doktorsnámi bæði hér á landi og erlendis. Hann er höfundur yfir 600 ritrýndra fræðigreina og er mjög oft vitnað til þeirra, eða hátt í 94.000 sinnum samkvæmt google.scholar. Niðurstöður úr rannsóknum þeim sem Vilmundur hefur unnið að hafa vakið mikla athygli í vísindaheiminum. 

Vilmundur Guðnason er fæddur hinn 15. janúar 1954. Hann lauk BS-prófi og kandidatsprófi í læknisfræði frá Háskóla Íslands 1985 og doktorsprófi í erfðafræði frá University College í London árið 1995. Eiginkona Vilmundar er Guðrún Nielsen myndhöggvari og eiga þau þrjá syni. 

Þetta eru ekki fyrstu verðlaun Vilmundar því hann hlaut árið 2012 Nikkilä-minningarverðlaun Scandinavian Society for Atherosclerosis.

Vilmundur hefur ásamt samstarfsfólki nýtt nákvæm og ítarleg gögn um arfgerðir hjá stórum hópi landsmanna til þess að skoða erfðavísa sem hafa áhrif á líkindi á flóknum en algengum langvarandi sjúkdómum, eins og hjarta- og æðasjúkdómum. Hann stýrir Öldrunarrannsókn Hjartaverndar sem byggist á hinni 50 ára löngu Reykjavíkurrannsókn og svokallaðri REFINE Reykjavík rannsókn hjá yngri aldurshópi. Gögn úr þessum rannsóknum hafa m.a. verið nýtt í alþjóðlegu samstarfi til þess að varpa skýrara ljósi á áhættþætti hjarta- og æðasjúkdóma og samstarfi við innlenda og erlenda aðila hefur hann birt fjölmargar vísindagreinar í þekktustu vísindatímaritum heims, m.a. um áhættuþætti fyrir hjarta- og æðasjúkdóma. MYND/Kristinn Ingvarsson

Um sjóðinn

Ása Guðmundsdóttir Wright, stofnandi sjóðsins, fæddist að Laugardælum í Árnessýslu hinn 12. apríl 1892. Hún var dóttir Guðmundar læknis Guðmundssonar og Arndísar Jónsdóttur. Ása lifði viðburðarríkri ævi en hún hélt utan og lagði stund á hjúkrunar- og ljósmóðurnám í Lundúnum. Dvaldi hún hjá Lord Buckmaster sem var stallari konungs og fékk hún því að ganga fyrir konung. Á siglingu heim úr námi kynntist hún enskum lögmanni, dr. Henry Newcomb Wright, sem varð síðar eiginmaður hennar. Ása og Henry settust að á Trínidad í Vestur-Indíum, sem þá var bresk nýlenda. Þar ráku þau hjón plantekru í fögru landsvæði í Arimadal. Ása og Henry voru barnlaus og ráðstafaði Ása jarðeign sinni til félags fuglaskoðara og stofnaði fuglafriðland. Búgarðurinn, Spring Hill, heitir nú Asa Wright Nature Centre.

Andvirði bújarðarinnar í dollurum varði Ása meðal annars til stofnunar sjóðs í tengslum við Vísindafélag Íslendinga, sem í rúm 50 ár hefur veitt viðurkenningu Íslendingi sem unnið hefur veigamikið vísindalegt afrek á Íslandi eða fyrir Ísland. Verðlaunin eru heiðursskjal og silfurpeningur með lágmynd Ásu og merki Vísindafélags Íslendinga, nafn þiggjanda og ártal er grafið í jaðarinn. Þá fylgir í ár þriggja milljóna króna peningagjöf frá hollvinum sjóðsins, Alcoa Fjarðaáli og Brimi hf., sem eru ein veglegustu verðlaun sem veitt eru vísindamönnum hér á landi. Þakkar sjóðstjórnin hollvinum sjóðsins kærlega fyrir stuðninginn.

Í stjórn Verðlaunasjóðs Ásu Guðmundsdóttur Wright stija þrír stjórnarmenn, þau Sveinbjörn Björnsson, prófessor og fyrrverandi rektor Háskóla Íslands, Þránn Eggertsson, prófessor emeritus við Hagfræðideild Háskóla Íslands, auk Sigrúnar Ásu Sturludóttur sem er stjórnarformaður.

Vilmundur Guðnason, forstöðulæknir Hjartaverndar og prófessor við Læknadeild Háskóla Íslands, ásamt þeim Guðna Th. Jóhannessyni, forseta Íslands, og Jóni Atla Benediktssyni, rektor Háskóla Íslands.
Vilmundur ásamt samstarfskonum sínum við Læknadeild, þeim Helgu Ögmundsdóttur og Jórunni Eyfjörð.