Skip to main content
26. mars 2020

Við erum öll almannavarnir

Rektor Háskóla Íslands sendi eftirfarandi tilkynningu til stúdenta og starfsfólks 26. mars:

„Kæru nemendur og starfsfólk.
 
Við leggjum mjög mikla áherslu á að miðla mikilvægum upplýsingum til ykkar og að hafa þær aðgengilegar fyrir alla. Þess vegna höfum við endurbætt COVID-19 síðu skólans og þar eru á einum stað allar upplýsingar sem snerta viðbrögð Háskóla Íslands við faraldrinum. Þar verður líka að finna fjölbreytt fræðsluefni sem nýtist vonandi sem flestum. 
 
Við höfum lagt mikla vinnu í að ljúka skilgreiningu á breyttu námsmati og þar verður m.a. horft til þeirra nemenda skólans sem finna mest fyrir álagi vegna aðstæðna heima fyrir og í samfélaginu. 
 
Ég vil hvetja ykkur öll til að taka mjög alvarlega skilaboð sóttvarnalæknis og almannavarna. Við erum í aðstæðum sem eiga sér enga hliðstæðu og þurfum að fylgja í einu og öllu ráðleggingum vísindamanna og sérfræðinga. 
 
Loks er minnt á að eftir hádegi á morgun, föstudag, og fram að hádegi á mánudag verða allar byggingar Háskóla Íslands þrifnar rækilega til þess að draga úr smithættu. Því er starfsfólk sem er á staðnum vinsamlega beðið um yfirgefa byggingar Háskólans eigi síðar en kl. 12.00 á morgun föstudag og þeir sem mæta í byggingar skólans á mánudag komi eftir kl. 12.00.
 
Samvinnan tryggir árangur í þeirri baráttu sem heyjum nú – munum að hún er tímabundin. 
 
Við erum öll almannavarnir. 
 
Með góðri kveðju,
Jón Atli Benediktsson, rektor“

frá háskólasvæðinu