Skip to main content
3. júní 2021

Verðlaunuð á 20. líf- og heilbrigðisvísindaráðstefnunni

Verðlaunuð á 20. líf- og heilbrigðisvísindaráðstefnunni - á vefsíðu Háskóla Íslands

Fjórir efnilegir vísindamenn hlutu verðlaun fyrir rannsóknarverkefni sín á 20. líf- og heilbrigðisvísindaráðstefnu Háskóla Íslands. Verðlaunin voru afhent við slit ráðstefnunnar á Hilton Nordica Hóteli þann 3. júní að viðstöddum Jóni Atla Benediktssyni, rektor Háskóla Íslands, Ástu Valdimarsdóttur, ráðuneytisstjóra í Heilbrigðisráðuneyti, Ingu Þórsdóttur, forseta Heilbrigðisvísindasviðs og öðrum ráðstefnugestum. Helga Jónsdóttir, formaður undirbúningsnefndar ráðstefnunnar og prófessor í hjúkrunarfræði, stjórnaði athöfninni.

Berglind Soffía Blöndal, doktorsnemi í næringarfræði við Matvæla- og næringarfræðideild, hlaut verðlaun heilbrigðisráðuneytisins til efnilegs vísindamanns fyrir verkefni á sviði forvarna eða heilsueflingar fyrir verkefnið „A Randomized Controlled Trial: Nutrition Therapy and Support After Hospital Discharge in Older Adult“. Ásta Valdimarsdóttir, ráðuneytisstjóri í heilbrigðisráðuneyti, afhenti verðlaunin.

Guðjón Reykdal Óskarsson, doktorsnemi í líf- og læknavísindum við Læknadeild, hlaut verðlaun mennta- og menningarmálaráðuneytisins til efnilegs vísindamanns fyrir verkefnið „GWAS on band neutrophil fraction and identification of a Pelger-Huët family“. Sigríður Klara Böðvarsdóttir, forstöðumaður Lífvísindaseturs, afhenti verðlaunin fyrir hönd mennta- og menningarmálaráðuneytisins.

Salvör Rafnsdóttir, doktorsnemi í læknavísindum við Læknadeild, hlaut hvatningarverðlaun Jóhanns Axelssonar sem Félag íslenskra lífeðlisfræðinga veitir efnilegum vísindamanni fyrir verkefni á sviði lífeðlisfræði eða skyldra greina. Salvör hlaut verðlaunin fyrir verkefnin „Many genes contribute to temperature regulation in mammals“. Yrsa Sverrisdóttir, formaður félagsins, afhenti verðlaunin.

Kristján Godsk Rögnvaldsson, doktorsnemi í læknavísindum við Læknadeild, hlaut verðlaun úr Þorkelssjóði til efnilegs námsmanns fyrir verkefni á sviði lyfja- og eiturefnafræði, en það ber heitið „Acetýlsalicýlsýra lækkar dánartíðni sjúklinga með lungnabólgu af völdum Streptococcus pneumoniae“. Kristín Ólafsdóttir, formaður valnefndar og dósent í lyfja- og eiturefnafræði við Læknadeild, afhenti verðlaunin.

Háskóli Íslands óskar verðlaunahöfunum og öðrum efnilegum vísindamönnum sem kynntu verkefni sín á ráðstefnunni hjartanlega til hamingju með árangurinn. 

Fjórir efnilegir vísindamenn, sem eru öll doktorsnemar við Háskóla Íslands, þau Berglind Soffía Blöndal, Guðjón Reykdal Óskarsson, Salvör Rafnsdóttir og Kristján Godsk Rögnvaldsson, hlutu verðlaun fyrir rannsóknarverkefni sín á 20. líf- og heilbrigðisvísindaráðstefnu Háskóla Íslands sem lauk í gær.