Verðlaunaðir fyrir rannsóknir í lífvísindum  | Háskóli Íslands Skip to main content

Verðlaunaðir fyrir rannsóknir í lífvísindum 

30. október 2017
""

Arnþór Garðarson, prófessor emeritus við Líf- og umhverfisvísindadeild, og Óttar Rolfsson, lektor við Læknadeild, hlutu viðurkenningar fyrir störf sín á Líffræðiráðstefnunni 2017 sem fram fór í húsakynnum Háskóla Íslands og Íslenskrar erfðagreiningar dagana 26.-28. október. Arnþór fékk verðlaun fyrir farsælan feril og Óttar fyrir framúrskarandi árangur ungs vísindamanns.

Líffræðiráðstefnan er haldin annað hvert ár og er stærsta ráðstefna sinnar tegundar hér á landi. Að henni stendur Líffræðifélag Íslands í samstarfi við fjölmarga aðila, þar á meðal Verkfræði- og náttúruvísindasvið Háskóla Íslands. Hefð er fyrir því að veita verðlaun fyrir góð störf vísindamanna á ráðstefnunni og var engin undantekning gerð á því nú.

Arnþór Garðarsson, dýrafræðingur og prófessor emeritus í dýrafræði við Líf- og umhverfisvísindadeild HÍ,  hlaut verðlaun fyrir farsælan feril og ómetanlegt framlag til rannsókna og vöktunar á náttúru Íslands og frumkvöðlastarf í verndun íslensks votlendis. Arnþór hóf sinn vísindaferil  snemma en hann birti sína fyrstu grein um fugla í Náttúrufræðingnum árið 1955, þá 17 ára gamall.

Hann lauk BS-prófi í dýrafræði frá Háskólanum í Bristol á Englandi og doktorsgráðu frá Háskólanum í Berkeley í Kaliforníu 1971.  Arnþór hóf kennslu við gömlu líffræðiskor Háskóla Íslands 1969, ári eftir að byrjað var að bjóða upp á námið, og varð prófessor árið 1974. Kennslugreinar hans voru dýrafræði hryggdýra og hryggleysingja og svo sérsvið hans, fuglafræði. Meðal afreka Arnþórs á vísindasviðinu eru rannsóknir á vistfræði Þjórsárvera sem hófust fyrir nærri 50 árum. Þetta voru fyrstu umhverfisrannsóknir sem unnar voru vegna hugsanlegra stórframkvæmda hér á landi. Friðlýsing Þjórsárvera og skráning þeirra á Ramsar-sáttmálann um verndun votlendis með alþjóðlegt mikilvægi er fyrst og fremst Arnþóri að þakka. 

Arnþór byggði einnig upp og stjórnaði fjölþættum rannsóknum á lífríki Mývatns, lengst af með Gísla Má Gíslasyni og Árna Einarssyni. Hann var í forystu um uppbyggingu rannsóknastöðvarinnar við Mývatn og átti stærstan þátt náttúrufræðinga í því að Mývatn og Laxá voru friðlýst samkvæmt sérstökum lögum árið 1974. Á áttunda áratug síðustu aldar hóf Arnþór enn fremur rannsóknir á íslenskum sjófuglastofnum og þær urðu síðan aðalviðfangsefni hans og eru enn. Vegna vinnu hans og samstarfsfélaga liggja nú fyrir einstök langtímagögn sem spanna áratugi og eru ómetanleg til að meta þær stóru breytingar sem eru að verða á sumum þessara stofna. 

Arnþór gegndi enn fremur ýmsum trúnaðarstörfum innan Háskólans og utan hans og var m.a. gerður að heiðursfélaga Hins íslenska náttúrufræðifélags 1988 og hlaut heiðursviðurkenningu Náttúrufræðistofnunar Íslands í fyrsta skipti sem hún var veitt 2007. 

Óttar Rolfsson, lektor í lífefnafræði og kerfislíffræði við Læknadeild og hópstjóri á Lífvísindasetri Háskóla Íslands, lauk BS-prófi í lífefnafræði frá Háskóla Íslands árið 2001 og meistaragráðu í lífrænni efnafræði 2005 frá sama skóla. Óttar lauk svo doktorsnámi frá Háskólanum í Leeds árið 2009 og fjallaði verkefni hans um sameindalíffræði veiruhjúps RNA-veira með áherslu á samskipti RNA og próteina.

Að loknu doktorsnámi tók Óttar við stöðu nýdoktors á Rannsóknastofu í kerfislíffræði sem hafði þá nýtekið til starfa við Háskóla Íslands undir stjórn Bernhards Pálssonar. Óttar varð lektor í lífefnafræði við Læknadeild árið 2012 og hefur síðan þá gegnt lykilhlutverki innan Kerfislíffræðiseturs Háskóla Íslands, bæði sem vísindamaður og stjórnandi. Rannsóknir hans nú snúa að því að kortleggja efnaskipti í frumum líkamans og skilgreina þær breytingar sem eiga sér stað við sjúkdómsmyndun.

Fram kemur á heimasíðu Lífvísindaseturs að Óttar sé öflugur vísindamaður sem hafi þrátt fyrir ungan aldur byggt upp stóran rannsóknahóp í kerfislíffræði innan Háskóla Íslands. „Óttar er lífefnafræðingur að mennt og hefur sem slíkur alla tíð haft mikinn áhuga á efnaskiptum í frumum og vefjum. Í því sambandi hefur hann unnið að því að kortleggja flókið net efnaskipta með samspili efnagreininga og tölvunarfræði. Efnaskipti skipta gríðarlegu máli í viðhaldi vefja og í ljós hefur komið að margir sjúkdómar orsakast af eða leiða til afbrigðilegra efnaskipta.“ 

Óttar hefur á síðustu fimm árum leiðbeint sex nýdoktorum, þremur doktorsnemum og þremur meistaranemum auk fjölda BS- og Erasmus-nema. Þá hefur hann birt fjölda vísindagreina og hefur tilvitnunum í rannsóknir hans fjölgað mikið á síðustu árum. 

Háskóli Íslands óskar þeim Arnþóri og Óttari innilega til hamingju með viðurkenningarnar.

Arnþór Garðarson og Óttar Rolfsson

Netspjall