Skip to main content
1. febrúar 2021

Varði doktorsritgerð um skjalasöfn lénsmanna

Varði doktorsritgerð um skjalasöfn lénsmanna - á vefsíðu Háskóla Íslands

Kristjana Kristinsdóttir hefur varið doktorsritgerð í sagnfræði við Sagnfræði- og heimspekideild Háskóla Íslands. Ritgerðin nefnist Lénið Ísland 1541-1683. Valdsmenn á Bessastöðum og skjalasafn þeirra. Andmælendur við vörnina voru dr. Agnes Arnórsdóttir og dr. Árni Daníel Júlíusson. Steinunn J. Kristjánsdóttir, forseti Sagnfræði- og heimspekideildar, stjórnaði athöfninni sem fór fram í Hátíðasal í Aðalbyggingu Háskóla Íslands 29. janúar síðastliðinn. (Hér er hægt að skoða myndir frá vörninni).

Um rannsóknina

Í rannsókninni er leitast við að sýna fram á hver staða Íslands var innan danska ríkisins og hvernig þróun stjórnsýslunnar í Kaupmannahöfn birtist hér á landi. Jafnframt er varpað ljósi á þau skjöl sem til urðu vegna reksturs lénsins og með stjórnsýslu konungs. Hér er um að ræða fyrstu stóru skrefin í mótun ríkisvalds á Íslandi með styrkingu konungsvalds, þar sem einn lénsmaður fer með völdin á landinu fyrir hönd konungs. Þær rannsóknarspurningar sem leitað hefur verið svara við eru: Hverjir voru lénsmenn konungs á Íslandi? Hvað felst í heimildinni lénsreikningur? Hvernig mótast og þróast stjórnsýsla konungs? Hvaða skjöl urðu til á tímabilinu 1541–1683 við stjórn og rekstur lénsins Íslands? Frumheimildir um stjórnsýslu þessa tímabils hafa um margar aldir verið undraðar og ekki áður verið tekið á þeim út frá uppruna skjalanna og stjórnsýslulegu samhengi nema að litlu leyti. Frumheimildir hafa verið skoðaðar á söfnum bæði á Íslandi og í Danmörku. Einkum voru skoðuð skjöl í  danska Ríkisskjalasafninu, Den Arnamagnæanske samling i Kaupmannahöfn, Konunglega bókasafninu í Kaupmannahöfn, Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum á Íslandi, Þjóðskjalasafni Íslands og Landsbókasafni – Háskólabókasafni, handritasafni. Gefast með þessu ný tækifæri til að skoða innbyrðis tengsl stjórnsýslunnar og meta söguna frá nýjum sjónarhóli. Þessi saga hefur lítið verið rannsökuð og er óskandi að fyrirliggjandi rannsókn veki áhuga manna enn frekar á sögu 16. og 17. aldar.

Um doktorinn

Kristjana er með Cand mag próf í sagnfræði frá Háskóla Íslands árið 1984, nám í skjalfræði við Odense Universitet árið 1983 og framhaldsnám við Stockholms Universitet í skjalfræði árið 1986. Hún er skjalavörður á Þjóðskjalasafni frá 1988-, stundakennari í skjalfræði við HÍ frá 1985 og lektor í skjalfræði við HÍ frá 2005.

Kristjana Kristinsdóttir ver doktorsritgerð í Hátíðasal Háskóla Íslands.