Skip to main content
29. janúar 2020

Var leifturstríð Hitlers kveikjan að sköpun The Mighty Thor?

""

Þegar horft er til norrænu guðanna í Valhöll er þrumuguðinn Þór fremstur meðal jafningja. Þór á hamarinn Mjölni en með honum ræður hann niðurlögum hrímþursa og jötna og ver Ásgarð fyrir yfirvofandi innrás þeirra. Samkvæmt eddukvæðum og Snorra-Eddu er Þór í raun dæmigerð ofurhetja og því er ekki að undra að bandaríski teiknimynda- og kvikmyndaiðnaðurinn skuli hafa tekið hann upp á arma sína og komið honum á framfæri við heimsbyggðina. 

En hvenær og með hvaða hætti hófst þessi þróun? Það fer vel á því að leita svara við þessu nú þegar Þór, eða The Mighty Thor, er orðinn ein vinsælasta ofurhetja samtímans í meðförum kvikmyndagerðarmanna Marvel-fyrirtækisins í Banadaríkjunum. Jón Karl Helgason, prófessor við íslensku- og menningardeild Háskóla Íslands, hefur á seinni árum tekið þátt í rannsóknarverkefni þar sem þessar spurningar koma við sögu. 

Skýr tengsl goðsagna og myndasagna

„Ég hef alllengi verið áhugasamur um með hvaða hætti norrænar goðsögur urðu hluti af alþjóðlegri dægurmenningu, hvort sem er í Bandaríkjunum, Evrópu og í Asíu,“ segir Jón Karl, þegar hann er spurður út í þessar rannsóknir. Árið 2017 sendi hann frá sér bókina Echoes of Valhalla sem fjallar um framhaldslíf íslenskra fornbókmenna í kvikmyndum, tónlist, leiklist, ferðabókum og myndasögum. Beinir hann meðal annars athygli að dönsku Valhalla-myndasögunum, sem kenndar eru við teiknarann Peter Madsen, og bandarísku myndasögunum um The Mighty Thor sem Marvel-fyrirtækið hóf að gefa út 1962. Aðalhöfundar þessara elstu sagna voru þeir Stan Lee, Jack Kirby og Larry Liber.

„Ég rek í bókinni með hvaða hætti fyrstu myndasögurnar um The Mighty Thor voru ekki aðeins innblásnar af norrænum goðsögum heldur einnig hálfri tylft myndasagna um Þór sem út komu í Bandaríkjunum á árunum 1940 til 1959. Athyglisvert er að Jack Kirby kom að sköpun þeirra flestra,“ segir Jón Karl. „Ég áttaði mig jafnframt á að þeir myndahöfundar sem skiptu mestu í þessu ferli voru flestir hálfgerðir stráklingar á stríðsárunum þegar þessi þróun hófst og að upphaflegur áhugi þeirra á Þór tengdist líklega þungum áhyggjum af uppgangi nasista í Þýskalandi og jafnvel ótta við mögulega innrás Hitlers í Bandaríkin.“

Með Vínland á heilunum

Eftir útgáfu Echoes of Valhalla hefur Jón Karl meðal annars skipulagt ráðstefnu hér á landi um áhrif íslenskra miðalda á japanska myndasagnahöfunda og tekið þátt í fjölþjóðlegu rannsóknarverkefni stórs hóps fræðimanna þar sem markmiðið var að kanna viðtökur íslenskra fornbókmennta í Norður-Ameríku. Höfuðskipuleggjandi síðarnefnda verkefnsins, sem bar upphaflega titilinn Vinland on the Brain, er Tim Machan, prófessor við enskudeild Nortre Dame háskólans í South Bend í Bandaríkjunum. Hann hefur einnig sinnt margháttuðum rannsóknum á framhaldslíf íslenskra fornbókmennta í Evrópu og er að leggja lokahönd á bók um það efni sem ber heitið Northern memories and the English Middle Ages.

„Haustið 2018 hittist hópurinn okkar á lærdómsríkum vinnufundi í South Bend og á síðasta ári höfum við Tim með aðstoð doktorsnema míns,  Zachary Melton, verið að ganga frá greinasafni um þetta efni. Það mun koma út hjá The University of Manchester Press nú í aprílmánuði og hefur fengið titilinn From Iceland to the Americas. Vinland and historical imagination. Meðal margra áhugaverðra greina í bókinni má nefna yfirlit Emily Lethbridge um skrif bandarískra ferðabókahöfunda um Ísland á 19. öld, greiningu Heather O'Donoghue á túlkun Neil Gaimans á norrænni goðafræði í skáldsögunni American Gods og grein Verenu Höfig um Vínland og rasíska öfgahópa í Bandaríkjunum. Tim skrifar sjálfur veigamikinn inngangskafla þar sem hann fjallar sögulega um fornnorrænt menningarminni í Norður- og Suður-Ameríku en aðrir höfundar eru, auk mín, þau Bergur Þorgeirsson, Kevin J. Harty, Amy C. Mulligan, Simon Halink, Angela Sorby, Seth Lerer, Matthew Scribner og Dustin Gerhard.“

„Mér sýnist að þeir Joe Simon og Jack Kirby hafi leikið stór hlutverk í þessari þróun, en einnig einn eða fleiri höfundar sem notuðust við listamannsnafnið Wright Lincoln. Árið 1940 komu út á vegum útgáfufyrirtækisins Fox Comics fimm sögur undir hans nafni þar sem Thor, God of Thunder er í aðalhlutverki. Hann berst meðal annars við útsendara og hersveitir óvinaríkisins Gratníu sem gerir í einni sögunni loftárasir á París og í annarri á Houston og Chicago. Það fer ekki milli mála að hér er verið að sneiða að stríðsbrölti Adolfs Hitlers og benda á þá hættu sem Bandaríkjmönnum stafar af nasismanum í Þýskalandi.“

Gyðingar og norræn goðafræði

Jón Karl segir að þegar þeir Tim hófu undirbúning verkefnisins hafi verið ljóst að höfuðathyglin myndi beinast að hinum svonefndu Vínlands sögum, þ.e. Eiríks sögu rauða og Grænlendinga sögu, sem lýsa könnunarferðum norrænna manna með fram austurströnd Norður-Ameríku í kringum árið 1000. Það hafi svo komið á daginn að viðtökusaga fornbókmenntanna vestahafs hafi verið mörkuð af misgöfugum og -gáfulegum hugmyndum Bandaríkjamanna af engisaxneskum og germönskum ættum um eigið ágæti. 

„Þessar hugmyndir hafa því miður notið vaxandi útbreiðslu á síðustu árum og áratugum. Má í því sambandi benda á hinn svonefnda Vínlandsfána sem orðinn er tákn manna sem telja hvíta kynstofninn öðrum æðri. Mér þótti af þessum ástæðum vert að skoða betur hvenær og hvers vegna myndasagnahöfundar og -útgefendur frá New York, sem eru undantekningalítið af gyðingaættum, fá áhuga á norræna þrumuguðnum Þór og hefjast handa við að þróa hann sem bandaríska ofurhetju.“

Loftárásir Gratníu á Chicago

„Mér sýnist að þeir Joe Simon og Jack Kirby hafi leikið stór hlutverk í þessari þróun, en einnig einn eða fleiri höfundar sem notuðust við listamannsnafnið Wright Lincoln. Árið 1940 komu út á vegum útgáfufyrirtækisins Fox Comics fimm sögur undir hans nafni þar sem Thor, God of Thunder er í aðalhlutverki. Hann berst meðal annars við útsendara og hersveitir óvinaríkisins Gratníu sem gerir í einni sögunni loftárasir á París og í annarri á Houston og Chicago. Það fer ekki milli mála að hér er verið að sneiða að stríðsbrölti Adolfs Hitlers og benda á þá hættu sem Bandaríkjmönnum stafar af nasismanum í Þýskalandi.“

Aðspurður segist Jón Karl ekki hafa komist til botns í því hver eða hverjir hafi staðið bakvið listamannsnafn Lincolns. Hins vegar hafi komið í ljós að þegar þessar elstu myndasögur um bandarísku ofturhetjuna Thor birtust hafi þeir Simon og Kirby báðir verið launaðir starfsmenn hjá Fox Comics. 

„Ég tel ólíklegt að þeir félagar hafi komið beint að sköpun þessara elstu sagna. Hins vegar eru allar líkur á því að þeir hafi þekkt til þeirra og þess vegna ákveðið að vinna áfram með Thor í fleiri myndasögum. Það má í þessu sambandi segja að mjór sé mikils vísir. Nú er svo komið að the Mighty Thor, í túlkun ástralska leikarans Chris Hemsworth, er orðin ein allra vinsælasta ofurhetja Marvel-fyrirtækisins.“