Úr verkfræðinámi í wasabiframleiðslu | Háskóli Íslands Skip to main content

Úr verkfræðinámi í wasabiframleiðslu

20. nóvember 2018
gróðurhús með wasabi-plötuna

Vorið 2015 sátu verkfræðinemarnir Ragnar Atli Tómasson og Johan Sindri Hansen í námskeiðinu Nýsköpun og gerð viðskiptaáætlana á síðasta misseri sínu í Háskóla Íslands og veltu fyrir sér vænlegum nýsköpunarhugmyndum. Athygli þeirra beindist fljótt að tækifærum í að nýta orkuauðlindir landsins til þess að rækta jurtir til útflutnings. Nú, rúmum þremur árum seinna, selja þeir alvöru wasabi undir merkinu Nordic Wasabi til fyrsta flokks veitingahúsa víða um heim og hyggja á útflutning á fleiri jurtum í framtíðinni. 

„Ástæða þess að okkur datt í hug að skoða wasabi-plöntuna til að byrja með var sú að við höfðum þá nýlega komist að því að meira en 95% af öllu wasabi sem borið er fram með sushi inniheldur í raun ekkert wasabi heldur piparrót, sinnep og grænan matarlit,“ segir Ragnar.

„Þegar við ákváðum að skoða möguleika í útflutningi á ræktunarafurðum greindum við fýsileika mismunandi ræktunarafurða. Eftir mikla skoðun á ótrúlegustu plöntum kom í ljós að wasabiplantan hefur marga eiginleika sem falla vel að hugmyndum um ræktun á Íslandi og útflutning. Plantan þrífst ágætlega í íslensku loftslagi og hefur hátt kílóverð,“ bætir Sindri við.

Wasabi nýtt í ís og bjór
Ragnar og Sindri brautskráðust báðir frá Háskóla Íslands vorið 2015, Ragnar í iðnaðarverkfræði og Sindri í vélaverkfræði, og strax að lokinni útskrift tóku þeir þátt í viðskiptahraðlinum Startup Reykjavík með verkefnið þar sem það hélt áfram að vaxa og dafna. Þeir félagar stofnuðu fyrirtæki í kringum hugmyndina, Jurt Hydroponics, og fengu til liðs við sig fjárfesta snemma á árinu 2016 til þess að fara í fulla framleiðslu á jurtinni. Ræktunin hófst svo sumarið 2016 í hátæknigróðurhúsum skammt frá Egilsstöðum og fyrsta uppskeran leit dagsins ljós í september 2017. „Ferlið er langt þar sem plantan er yfir ár í ræktun. Það er mun lengri tími en tíðkast almennt í ylrækt. Með svo langt ræktunarferli þarf að sjálfsögðu að vanda vel til verka til að tryggja framleiðsluna,“ útskýrir Sindri.

Flestir tengja wasabi við japanska réttinn sushi. Ragnar og Sindri benda hins vegar á að wasabi sé nýtt og spennandi hráefni inn í norræna eldhúsið sem nýst geti á ýmsan hátt. „Það er t.d. vinsælt í all skyns kokteila, með kjöti og jafnvel í ís og í bjórbruggun,“ segir Sindri. 

Fyrsta uppskeran var seld til íslenskra veitingastaða en þeir félagar hafa nú fært út kvíarnar og selja vöruna eftirsóttu til útlanda. „Helstu viðskiptavinir okkar eru hágæðaveitingahús og birgjar sem sérhæfa sig í hráefni af miklum gæðum,“ segir Ragnar.

Flestir tengja wasabi við japanska réttinn sushi. Ragnar og Sindri benda hins vegar á að wasabi sé nýtt og spennandi hráefni inn í norræna eldhúsið sem nýst geti á ýmsan hátt. „Það er t.d. vinsælt í all skyns kokteila, með kjöti og jafnvel í ís og í bjórbruggun,“ segir Sindri. 

En skyldi þetta vera harður samkeppnisbransi? „Wasabi-ræktun er flókin og tekur langan tíma. Það er mest er ræktað í Japan, þaðan sem plantan er upprunnin, en ræktendur er líka að finna á Vesturlöndum samhliða auknum vinsældum sushi,“ segir Ragnar um keppninautana. 

Verkfræðinámið hefur nýst vel

Aðspurðir segja þeir námið í verkfræðinni hafa nýst vel í verkefninu. „Í náminu öðluðumst við reynslu í að takast á við og leysa margs konar verkefni og hefur sú þjálfun og skipulag nýst okkur vel við úrlausn fjölmargra og ólíkra vandamála,“ segir Sindri.

Aðspurðir um framtíðaráform fyrirtækisins segjast þeir Ragnar og Sindri hyggja á ræktun annarra plantna. „Fyrirtækið er stofnað með það markmið að rækta hágæðaafurðir til útflutnings og nýta þannig auðlindir Íslands í hreinni orku og tæru vatni til að skapa vörunni sérstöðu. Wasabi er fyrsta vara félagsins en við stefnum að því að fjölga vörum með auknum umsvifum fyrirtækisins,“ segir Sindri að endingu.

Hægt er að kynna sér fyrirtækið og wasabi-framleiðsluna á heimasíðu þess.

Ragnar Atli Tómasson og Johan Sindri Hansen