Uppskrift að starfsframanum á Atvinnudögum í Háskóla Íslands | Háskóli Íslands Skip to main content
10. janúar 2020

Uppskrift að starfsframanum á Atvinnudögum í Háskóla Íslands

""

Hagnýtar vinnustofur og fyrirlestrar um leiðina út á vinnumarkaðinn og heimsóknir í Landsbankann og verðandi höfuðstöðvar CCP í Vatnsmýri er meðal þess sem boðið verður upp á á Atvinnudögum í Háskóla Íslands dagana 13.-17. janúar.

Náms- og starfsráðgjöf Háskóla Íslands (NSHÍ) og Fjármála- og atvinnulífsnefnd Stúdentaráðs Háskóla Íslands standa að dagskránni sem ætluð er stúdentum Háskólans en þetta er í annað sinn sem Atvinnudagar eru haldnir.

„Hver er uppskriftin að starfsframa?” spyrja stúdentar sérstaklega þegar kemur að því að undirbúa framtíðarstarfsferil. Á Atvinnudögum verður leitað svara við þessari spurningu með spennandi fyrirlestrum og fræðslu frá sérfræðingum úr atvinnulífinu ásamt heimsóknum til valinna fyrirtækja og stofnana.

Dagskráin hefst mánudaginn 13. janúar með fyrirlestrinum: „Sjálfstætt starfandi – Að koma sér á framfæri” þar sem hinn þekkti og vinsæli fyrirlesari Pálmar Ragnarsson fjallar um leið sína beint úr námi í Háskóla Íslands yfir í fyrirlesarabransann. Erindi Pálmars hefst kl. 13:30 á Litla torgi Háskólatorgs.

Í kjölfarið rekur hver viðburðurinn annan þar sem farið verður ofan í saumana á því hvernig hægt er að koma sér á framfæri á atvinnumarkaði með ferilskrá og LinkedIn-aðgangi. Náms- og starfsráðgjafar Háskóla Íslands (NSHÍ) aðstoða svo bæði íslenska og erlenda stúdenta við að glæða ferilskrár þeirra lífi með CV klíník. Þá verður boðið upp á heimsóknir í höfuðstöðvar Landsbankans í Austurstræti 11 og hugmyndahúsið Grósku sem er hluti af Vísindagörðum Háskóla Íslands, en þangað mun CCP flytja höfuðstöðvar sínar á næstu mánuðum. Skráning er nauðsynleg á ákveðna viðburði Atvinnudaga.

Atvinnudögum lýkur föstudaginn 17. janúar með glænýju eins dags námskeiði fyrir nemendur á þriðja ári í grunnnámi í Háskóla Íslands sem nefnist Kveikja. Þar munu þátttakendur öðlast aukinn skilning á áskorunum samtímans og vinna að sameiginlegum lausnum þvert á námsleiðir og í samstarfi við öfluga leiðbeinendur úr háskólanum og atvinnulífi. Nánari upplýsingar um námskeiðið er á vef þess

Hér er á ferðinni kjörið tækifæri fyrir stúdenta Háskólans til að komast tengjast íslensku atvinnulífi og byrja að brúa bilið frá námi til vinnumarkaðar.

Dagskrá Atvinnudaga í heild sinni má nálgast á Facebook

Pálmar Ragnarsson