Skip to main content
20. ágúst 2021

Upphaf skólastarfs

Upphaf skólastarfs - á vefsíðu Háskóla Íslands

Jón Atli Benediktsson, rektor Háskóla Íslands, sendi meðfylgjandi tilkynningu á starfsfólk og stúdenta í dag (20. ágúst):

„Kæru nemendur og samstarfsfólk.

Það er sannarlega enn sumar í kortum þótt haustið sé vissulega fram undan. Eitt skýrasta dæmið um komu haustsins er upphaf skólastarfs í landinu. Í næstu viku hefst kennsla í Háskóla Íslands í fjölda námsleiða og ég býð ykkur öll hjartanlega velkomin, ekki síst þau ykkar sem eru að hefja hér nám í fyrsta sinn. 

Upphaf háskólanáms markar sannarlega tímamót hjá ykkur og ótal spurningar vakna, ekki síst eins og nú háttar. Við höfum nú tekið saman allt það helsta sem nýtist ykkur nýnemum á vefvæði skólans. Ekki hika við að leita til þjónustueininganna okkar, bæði hér í skólanum eða í netspjallinu á vefsíðunni okkar. Við erum líka öll boðin og búin að aðstoða eftir fremsta megni og við hlökkum mikið til að  taka á móti ykkur.

Núverandi takmarkanir heilbrigðisyfirvalda eru töluvert rúmar og því er mögulegt að skólastarf verði sem mest í hefðbundnum farvegi, þ.e. í formi staðnáms. Háskóli Íslands er stórt og öflugt samfélag þar sem samskipti eru ráðandi hluti af upplifun og þroska allra sem eru hér í námi. Þess vegna er staðnámið svo mikilvægur hluti af starfinu. Við munum því gera allt sem í okkar valdi stendur til að skapa hér þann eina sanna HÍ-anda sem einkennir venjulega allt mannlíf hér, þrátt fyrir núverandi nándarmörk. Ég hvet ykkur til að fylgjast vel með skilaboðum frá deildum og kennurum ykkar kæru nemendur um nánara fyrirkomlag kennslunnar.

Við Háskóla Íslands er höfuðáhersla lögð á öryggi allra og á einstaklingsbundnar sóttvarnir. Þar sem ekki er unnt að virða 1 metra nándarmörk er nauðsynlegt að nota grímu en hana má taka niður þegar sest er niður í skólastofum. Mælst er til þess að þið notið einnig grímur, kæru nemendur og samstarfsfólk, þegar ferðast er um sameiginleg rými skólans. 

Ég hvet ykkur öll sem ekki eru bólusett eða fullbólusett til að fá bólusetningu eins fljótt og nokkur er kostur. Rannsóknir sýna að bólusetning dregur úr líkum á smiti og að veikindi verða ekki eins alvarleg. Þá hvet ég öll sem ekki hafa nú þegar hlaðið niður rakningarappi Landlæknis til að gera það nú þegar en það virkar á öllum helstu gerðum snjallsíma. Mikilvægt er jafnframt að uppfæra appið reglulega. Notkun rakningarappsins hjálpar við smitrakningu og styður okkur við halda starfi skólans í sem eðlilegustum farvegi komi upp smit innan hans. Ef þið finnið fyrir einkennum sem tengd eru COVID-19 skuluð þið alls ekki mæta í skólann heldur fara strax í einkennasýnatöku. 

Kæru nemendur og samstarfsfólk. Staðan núna er talsvert önnur en við vonuðumst til og mörg eru kvíðin og langþreytt. Þrátt fyrir mótbyr þá vitum við að þetta ástand mun taka enda. Við verðum því að brýna hvert annað og sýna áfram þá seiglu sem hefur einkennt okkur síðustu misserin. Þannig höfum við ekki bara náð að hafa starf okkar eðlilegt á löngum köflum, þannig vinnum við líka endanlegan sigur í þessari langvinnu baráttu. 

Eins og ég sagði í upphafi er sumarið ekki að baki og því er frábært að njóta þeirra góðu daga sem eru í vændum. Það sama á við þegar haustið setur liti sína á laufið.  

Hugum að okkur sjálfum og að þeim sem standa okkur næst. Góða helgi. 

Jón Atli Benediktsson, rektor“ 

Nýnemar fyrir framan Aðalbyggingu