Skip to main content
3. september 2021

Upphaf nýs skólaárs

Upphaf nýs skólaárs - á vefsíðu Háskóla Íslands

Jón Atli Benediktsson, rektor Háskóla Íslands, sendi meðfylgjandi tilkynningu á starfsfólk og stúdenta í dag (3. september):

„Kæru nemendur og samstarfsfólk.

Í vikunni fögnuðum við upphafi nýs skólaárs á ýmsa vegu og var langþráð líf í öllum byggingum á háskólasvæðinu. Mannlífið var líka úti á lóðinni en við státum af einstöku umhverfi hér í nánum tengslum við Vatnsmýrina og Tjörnina.

Í nýrri stefnu skólans er áhersla á heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna þar sem loftslags- og umhverfismál eru í mjög skýrum fókus. Nú þegar við getum loksins aukið staðnám að nýju fjölgar fólki á háskólasvæðinu og því vil ég hvetja ykkur öll til að nýta vistvæna samgöngukosti. Stærsti parturinn af þeirri losun sem tengist starfi skólans er vegna samgangna. Með því að velja vistvænan ferðamáta er hægt að stíga mikilvægt skref í átt að umhverfisvænni Háskóla.

Partur af afar ánægjulegri móttöku nýnema núna í vikunni fólst í afhendingu hartnær 40 styrkja úr afreks- og hvatningasjóði Háskóla Íslands. Styrkþegarnir komu úr 15 framhaldsskólum víða um land og innritast í hátt í 30 mismunandi námsleiðir við skólann.

Samstarf háskóla og atvinnulífs ræður miklu um samkeppnisfærni þjóða. Háskóli Íslands á í mjög frjóu samstarfi við íslenskt atvinnulíf með það að markmiði að örva sköpunarþrótt og hagnýtingu hugmynda sem nýtast svo í uppbyggingu á öllum sviðum samfélagins.

Í næstu viku hafa líftæknifyrirtækið Alvotech og Háskóli Íslands boðað til málþings um mikilvægi þess að atvinnulíf og akademía vinni saman í þágu nýsköpunar. Á málþinginu, sem er í samstarfi við Vísindagarða og Sænsk/íslenska viðskiptaráðið, verður framtíð og nýsköpun á sviði lyfjaþróunar með líftækni skipað í öndvegi.

Alvotech er eitt þeirra framsæknu fyrirtækja sem hafa fest ræturnar á Vísindagörðum en samstarf Háskólans við Alvotech hefur tekið á sig ýmsar myndir á síðustu misserum. HÍ býður t.d. upp á iðnaðarlíftækni sem nýja námsleið í meistaranámi í nánu samstarfi við fyrirtækið. Námsleiðin skapar ótal möguleika fyrir nemendur til þátttöku í nýsköpun á sviði líftækni. Til viðbótar þessu setti Alvotech nýlega á laggirnar starfsþjálfunarverkefni fyrir nýútskrifaða nemendur úr HÍ í greinum eins og líffræði, efnafræði, lífefnafræði, lífeindafræði, líftækni og lyfjafræði.

Þegar starf okkar tekur smám saman á sig eðlilega mynd, eykst samkomuhald í skólanum. Það er gleðiefni en ég hvet ykkur öll til að fylgja sóttvarnareglum í hvívetna. Öryggisnefnd skólans fundaði í vikunni og ræddi m.a. framboð veitinga í HÍ. Öryggisnefndin er með eftirfarandi leiðbeiningar varðandi veitingar innan skólans:

  • Veitingar ætti aðeins að bjóða ef hægt er að rjúfa snertingu við sameiginlega snertifleti, t.d. með því að skenkja í glös og skammta veitingar á diska.
  • Mælst er til að áfengir drykkir séu ekki í boði, með þeirri undantekningu þó að leyfilegt sé að skála fyrir tímamótum, t.d. eftir doktorsvörn eða innsetningarathöfn.
  • Eftir breytingar á framhaldsskólanámi eru flestir nýnemar og stór hluti háskólanema í grunnnámi undir tuttugu ára aldri. Veiting áfengis til fólks sem ekki hefur náð tuttugu ára aldri er ólögleg.

Kæru nemendur og samstarfsfólk. Hvernig okkur tekst að vernda staðnám og eðlilegt starf skólans á þessu misseri helgast að miklu leyti af seiglu ykkar allra og af einstaklingsbundnum sóttvörnum. Ég vil því ítreka þær meginreglur sem gilda um sóttvarnir í skólanum því þær skipa okkur svo miklu máli.

  • Nándarmörk eru 1 metri.
  • Grímuskylda er þar sem ekki er unnt að hafa 1 metra milli einstaklinga.
  • Til að minnka smithættu er eindregið mælst til þess að fólk beri grímur á göngum skólans, en gangar eru hluti af ferðarými.
  • Um leið og sest er inn í kennslustofu má taka niður grímuna þótt nánd sé minni en 1 metri.
  • 200 manns mega að hámarki vera í sama rými.
  • Munum handþvott og að spritta hendur.

Notum helgina til að njóta þeirrar auðlindar sem blasir við okkur öllum, náttúrunnar. Haustið, hvílíkur léttir, segir skáldið Bragi Ólafsson og minnist skólatöskunnar sem ilmar af bókum. Nú er gróðurinn byrjaður að bregða lit og fátt er fegurra en haustið í allri sinni dýrð.

Góða helgi.

Jón Atli Benediktsson, rektor."

Nemendur við Háskóaltorg