Skip to main content
3. mars 2024

Undirbúningstímar í leikskólum með hag barna að leiðarljósi

Undirbúningstímar í leikskólum með hag barna að leiðarljósi - á vefsíðu Háskóla Íslands

Það dylst engum að leikskólar eru mikilvæg grunnstoð í samfélagi okkar. Lögum samkvæmt á velferð og hagur barna að vera leiðarljós í öllu þeirra starfi. Starfshættirnir eiga að mótast af kærleika og umburðarlyndi, jafnrétti og lýðræðislegu samstarfi svo fátt eitt sé nefnt. 

Starfsaðstæður leikskólakennara hafa verið töluvert í umræðunni undanfarin misseri og vangaveltur verið upp um hvernig má bæta hag þeirra og leikskólabarnanna, hvort og þá hvaða aðgerða sé þörf. Í kjarasamningum Félags leikskólakennara frá 2020 var aukið verulega við þann tíma sem leikskólakennarar fá til þess að undirbúa starf sitt í leikskólum. Sara M. Ólafsdóttir, dósent í menntunarfræði ungra barna við Menntavísindasvið, fór fyrir nýlegri rannsókn á undirbúningstíma í leikskólum, við hittum hana að máli og spurðum út í helstu niðurstöður.

„Þegar gerðar eru breytingar sem snúa að hagsmunum barna er mikilvægt að fylgja þeim eftir með rannsóknum og skoða hvaða áhrif þær hafa. Áður hafði leikskólakennari í stöðu deildarstjóra í fullu starfi 5 tíma á viku en hefur núna 10 tíma. Það gefur auga leið að aukinn tími til undirbúnings leiðir til meiri fjarveru leikskólakennara af deildum og því mikilvægt að skoða hver áhrifin eru,” segir Sara. 

Tekin voru viðtöl við 24 starfsmenn í 8 leikskólum víðs vegar um landið; leikskólastjóra, deildarstjóra, leikskólakennara og starfsmenn með aðra háskólamenntun. Sara segir helstu niðurstöður rannsóknarinnar hafa leitt það í ljós að almenn ánægja var á meðal þátttakenda með aukinn undirbúningstíma. „Sá tími getur bæði nýst til að auka gæði leikskólastarfs og fagmennsku kennaranna,” segir Sara. 

Hún segir það gríðarlega mikilvægt að hagsmunir barnanna séu ávallt í fyrirrúmi þegar undirbúningstíminn er skipulagður. Sá heildartími sem hver leikskóli fær til undirbúnings fer eftir því hversu margir leikskólakennarar starfa á viðkomandi skóla. Sara segir að þess vegna hafi verið dregin sú ályktun að mismunur milli leikskóla á tíma til undirbúnings feli í sér ójöfnuð varðandi gæði starfs í leikskólum og nám barna. „Á hinn bóginn voru margir þátttakendur sem lýstu yfir áhyggjum af mikilli fjarveru fagfólks af deildum. Töluverð togstreita skapaðist um þann tíma sem leikskólakennarar nýttu til undirbúnings og þess tíma sem þeir voru með börnum inni á deild. Sumir þeirra töldu draga úr faglegu starfi þegar þeir voru ekki inni á deild,” segir Sara. Hún segir það mikilvægt fyrir hagsmuni barna að góð samvinna sé á milli leikskólakennara og annars starfsfólks svo halda megi uppi gæðaleikskólastarfi á meðan undirbúningur fer fram. 

„Þátttakendur litu á undirbúningstímann sem barnlausan tíma. Við ályktum hins vegar sem svo að viðhorfsbreytingu þurfi til þar sem nýta mætti hluta af undirbúningstíma með börnum á deild, t.d. með því að ræða við þau, skipuleggja og meta starfið með þeim og skapa þannig lærdómssamfélag þar sem börn og starfsfólk eru virkir þátttakendur. Þannig má jafnframt styðja börn til áhrifa í sínu nánasta umhverfi,” segir Sara. 

Rannsóknaráhugi Söru hefur lengi beinst að börnum og því að draga fram þeirra sjónarmið á eigið líf, leik og nám. Helstu viðfangsefnin sem hún hefur skoðað með börnum eru leikur, skil skólastiga, vellíðan og mikilvægi þess að tilheyra. „Hagsmunir barna og sjónarmið þeirra hafa verið mitt hjartans mál og koma til með að vera áfram,” segir hún.
  
Rannsóknarstofa í menntunarfræðum ungra barna (RannUng), sem starfrækt er við Menntavísindasvið Háskóla Íslands, vann verkið en Sara veitir þeirri stofu forstöðu. Auk hennar tóku þátt þær Kristín Karlsdóttir dósent, Anna Magnea Hreinsdóttir lektor og Margrét S. Björnsdóttir aðjúnkt og verkefnastjóri RannUng. Rannsóknin var styrkt af Samfélagssjóði þar sem áhersla er á stuðning fyrir samfélagsvirkni. Sá styrkur hefur gert rannsakendum kleift að koma niðurstöðum rannsóknarinnar á framfæri meðal annars á ráðstefnum og við birtingar á greinum.

Sara M. Ólafsdóttir