Skip to main content
2. apríl 2020

Umsóknarfrestir og helgarlokun bygginga

Jón Atli Benediktsson, rektor Háskóla Íslands, sendi meðfylgjandi tilkynningu til starfsfólks og nemenda í dag:

„Kæru nemendur og samstarfsfólk.

Umsóknarfrestur um framhaldsnám hefur verið framlengdur til 20. maí og um grunnnám til 15. júní. Þetta er gert í samráði við mennta- og menningarmálaráðuneytið og aðra háskóla á Íslandi. Markmiðið er að auka aðgengi að háskólum landsins í ljós vaxandi atvinnuleysis sem hlýst af COVID-19-faraldrinum. Háskóli Íslands hefur áður tekið á móti miklum fjölda nemenda þegar þjóðin hefur skyndilega staðið frammi fyrir þrengingum og miklu atvinnuleysi. Þannig hefur skólinn tekið þátt í að milda efnahagsþrengingar á Íslandi samhliða því að mennta fólk til nýrra áskorana. 

Til þess að styðja við val á framhaldsnámi ætla sérfræðingar námsleiða, deilda og fræðasviða skólans að halda fjarkynningar á framhaldsnámi fyrstu tvær vikurnar eftir páska.  Á vef um framhaldsnám er hægt að sjá gagnalegar upplýsingar um allt framhaldsnám í boði og ítarlega dagskrá fjarkynninganna þegar nær dregur. 
 
Ég vek athygli á netfangi kennslusviðs, kennslusvid@hi.is, fyrir spurningar og sjónarmið ykkar nemenda varðandi breytta framkvæmd prófa og námsmats. Farsælast er þó að snúa sér fyrst til viðkomandi kennara eða deildar vakni spurningar eða álitaefni um endurskoðað námsmat. 

Eins og vanalega verða sumar byggingar okkar lokaðar öllum núna um helgina, frá klukkan 12 á föstudegi til klukkan 12 á mánudegi. Þetta er gert til að unnt sé að þrífa vandlega í húsum okkar og draga úr hættu á smiti. Eftirarandi byggingar eru þó opnar starfsfólki og doktorsnemum yfir helgina: Árnagarður, Nýi Garður, Gimli, Lögberg, Oddi, Veröld, Askja, VR-III (VoN-ar hlutinn),VR-II, Dunhagi 3, Stakkahlíð, Skipholt, Eirberg, Hagi  og Stapi. Allar byggingar eru áfram með öllu lokaðar öðrum nemendum. 

Á COVID-19 síðu Háskólans er að finna frekari upplýsingar og svör við ýmsum spurningum sem snerta þær óvenjulegu aðstæður sem við búum nú við.

Munum öll að halda í heiðri tveggja metra regluna! Kynnum okkur líka vandlega allt sem stjórnvöld hafa sett fram varðandi COVID-19 faraldurinn. Fylgjum því sem sóttvarnalæknir og almannavarnir hafa sett um samgöngubann og hreinlæti. 

Saman náum við árangri. Gleymum því ekki að við erum öll almannavarnir. 

Gangi ykkur allt að óskum.

Með góðri kveðju,

Jón Atli Benediktsson rektor“

Frá háskólasvæðin