Skip to main content
2. nóvember 2016

Tuttugasta bókin í ritröð Sýnisbókar íslenskrar alþýðu

""

Á hverju liggja ekki vorar göfugu kellíngar er nafn á nýrri bók Guðrúnar Ingólfsdóttur bókmenntafræðings sem fjallar um sambúð íslenskra kvenna og bóka frá miðöldum fram á 18. öld. Þetta er 20. bókin í ritröðinni Sýnisbók íslenskrar alþýðumenningar sem Háskólaútgáfan gefur út. Fyrsta bókin, Bræður af Ströndum: Dagbækur, ástarbréf, almenn bréf, sjálfsævisaga, minnisbækur og samtíningur frá 19. öld, kom út í samantekt Sigurðar Gylfa Magnússonar árið 1997.

Af þessu tilefni verður sýning á bókakápum ritraðarinnar opnuð á Torginu í Þjóðminjasafni Íslands 3. nóvember í samvinnu safnsins og ritstjóra Sýnisbókanna. Bókakápurnar eru allar hannaðar af Öldu Lóu Leifsdóttur bókahönnuði.

Sú rannsókn sem gerð er á bókmenningu kvenna í bókinni Á hverju liggja ekki vorar göfugu kellíngar á sér ekki hliðstæðu hérlendis. Íslenskar konur áttu ekki kost á skólagöngu fyrr en seint á 19. öld en lærðu þrátt fyrir það margar að lesa og skrifa. Þær áttu líka fjölbreytt úrval bóka sem þjónuðu ólíku hlutverki og voru sumar færar um að skrifa handrit. Besta leiðin til að öðlast innsýn í hugarheim og sjálfsmynd kvenna á fyrri tíð er að skoða bækurnar sem þær áttu. Sumar bókanna voru menntandi, aðrar til skemmtunar, sumar jafnvel svolítið klúrar. Ákveðnar bækur voru notaðar við lestrarkennslu en í þær sóttu konur einnig fyrirmyndir og hjálparmeðul í ótryggum heimi. Þær konur fyrri alda sem heimildir herma að hafi umgengist bækur og handrit tilheyrðu flestar mennta- og/eða valdafólki. Það er ekki fyrr en á 17. öld að alþýðukonur birtast með bók í hönd.

Til að fá innsýn í bókmenningu og veröld alþýðukvenna er í fyrsta kafla bókarinnar kafað ofan í bók úr eigu alþýðukonu á 18. öld. Bókin hennar geymir fjölþætt efni sem studdi hana við húsmóðurskyldurnar. Heimilið var á þessum tíma ekki einasta griðastaður, það var stærsti vinnustaður landsins og um leið helsti skemmtistaðurinn. Læknishjálp og lyf voru af skornum skammti, engir öryggishnappar við höndina, aðeins Guð, lukkan og sjálfsbjargarviðleitni. Hér er reynt að sýna hvernig alþýðukona lifði af í viðsjálum heimi.

Guðrún Ingólfsdóttir og kápa bókarinnar Á hverju liggja ekki vorar göfugu kellíngar