Skip to main content
25. september 2019

Tónlist sköpuð með handahreyfingum

wave-hringurinn

„Rafmagns- og tölvuverkfræði opnaði fyrir okkur heim sem við höfðum aldrei komist í tæri við og efldi til muna hæfileika okkar til að sækja og meta þá þekkingu sem er til. Það er ómetanleg og djúpstæð reynsla sem við höfum búið að í öllu þróunarferlinu,“ segir Ólafur Bjarki Bogason, forstjóri nýsköpunarfyrirtækisins Genki Instruments, sem sett hefur á markað stórmerkilegan hring sem gefur tónlistarfólki færi á að skapa tónlist með handahreyfingunni einni. Hugmyndin að hringnum, sem nú er notaður víða um heim, kviknaði í námi í Háskóla Íslands og unnið er að því að nýta tæknina á bak við hann innan fleiri geira samfélagsins. 

Hringurinn sem um ræðir nefnist Wave. „Hann gerir tónlistarfólki kleift að hafa áhrif á tónlistarsköpun og flutning í rauntíma. Wave nemur hreyfingar handarinnar, snúning og slátt og leyfir þannig tónlistarfólki að stjórna hljóði og effektum eða senda skipanir á náttúrulegan og einfaldan hátt. Með hugbúnaði sem fylgir Wave getur tónlistarfólk sérsniðið hringinn að sínum þörfum með því að para saman hreyfingar og þær breytingar sem þær hafa á tónlistina. Wave fær tölvur og tækni til að skilja litbrigði mannlegrar tjáningar og leyfir tónlistarfólki að tjá sig á náttúrulegan hátt,“ segir Ólafur þegar hann er beðinn um að skýra virkni hringsins. 

Hugmyndin kviknaði í tíma í HÍ

Hugmyndin að baki Wave kviknaði þegar Ólafur og skólabróðir hans, Daníel Grétarsson, unnu að lokaverkefni í áfanganum „Verkfræði ígreyptra kerfa“ í rafmagns- og töluvuverkfræði við Háskóla Íslands. Í verkefninu fengu þeir frjálsar hendur og ákváðu að blanda saman þeirra helsta áhugamáli, tónlist, við það námsefni sem áfanginn bauð upp á. „Úr varð stafrænn trommuheili sem notandi gat sett saman jafnharðan. Við gerð þessa trommuheila kviknaði hugmyndin að því að því að nýta hreyfingu við tónlistarsköpun, sem síðar varð Wave,“ segir Ólafur. 

Þeir Ólafur og Grétar stofnuðu svo fyrirtækið Genki Instruments í kringum hugmyndina sumarið 2015 þegar þeir og félagar þeirra tóku þátt í viðskiptahraðlinum Startup Reykjavík, en auk tvímenninganna standa vöruhönnuðurinn Jón Helgi Hólmgeirsson og hagfræðingurinn Haraldur Hugosson að fyrirtækinu auk Þorleifs Gunnars Gíslasonar sem annast grafíska hönnun fyrir félagið. „Þar að auki koma að fyrirtækinu öflugir alþjóðlegir fjárfestar,“ segir Ólafur en þess má geta að vefsíðan EU startups, sem fjallar um nýsköpun í Evrópu, tilgreindi Genki sem eitt af þeim sprotafyrirtækjum á Íslandi sem vert væri að fylgjast með á árinu 2019.

Félagarnir hófu að einbeita sér algjörlega að þróun hringsins og uppbyggingu fyrirtækisins fyrir um tveimur árum að sögn Ólafs hefur gengið vel að markaðssetjan hann. Sem stendur má kaupa hringinn vefsíðu Genki Instruments eða í sérhæfðum verslunum á meginlandi Evrópu og síðar á þessu ári Japan. „Dæmi um tónlistarfólk sem nýtir hringinn við tónlistarsköpun og -flutning eru meðal annars Bergur Þórisson (Hugar, Björk), Daði Freyr og Theremin-leikarinn Carolina Eyck,“ segir Ólafur enn fremur.

Að baki Genki Instruments og Wave-hringnum standa rafmagns- og tölvuverkfræðingarnir Ólafur Bjarki Bogason og Daníel Grétarsson, vöruhönnuðurinn Jón Helgi Hólmgeirsson og hagfræðingurinn Haraldur Hugosson að fyrirtækinu auk Þorleifs Gunnars Gíslasonar sem annast grafíska hönnun fyrir félagið. MYND/Genki Instuments

Tækni Wave nýtist í öðrum iðnaði

Samhliða þróun hringsins hafa forsprakkar Genki Instruments þróað sérsakan móttakara, Wavefront, sem ætlað er að auka útbreiðslu Wave innan tónlistar. „Wavefront breytir skilaboðum Wave yfir á form sem svokallaðir modular-hljóðgervlar geta skilið og gerir tölvu þar með óþarfa,“ útskýrir Ólafur. 

Hann bætir enn fremur við að í gegnum þróunarferli hringsins hafi kviknað fjölmargar hugmyndir um hvernig megi nýta sambærilega tækni og Wave í öðrum iðnaði en tónlist. „Nærtækasta dæmið þar er varan Tsugi sem frelsar hendur notenda á meðan glærukynningu stendur og eykur þannig möguleika á líkamstjáningu. Tsugi byggist á sama vélbúnaði og Wave og er á fyrstu stigum markaðssetningar. Á sama tíma eru farin af stað spennandi samstarfsverkefni við stærri, alþjóðleg hátæknifyrirtæki. Þau miða að því að nýta undirliggjandi nákvæmni og tækni Wave í aðstæðum þar sem stýra þarf tækni á fyrirhafnarlítinn máta,“ segir Ólafur enn fremur.

Það eru því spennandi tímar fram undan hjá fyrirtækinu. „Við viljum halda áfram að styðja við það magnaða listafólk sem notar Wave í tónlist, koma með nýjar hugbúnaðarlausnir fyrir það og koma alþjóðlegri dreifingu í fastar skorður. Samhliða þeirri vinnu viljum við stækka og efla fyrirtækið á öðrum sviðum. Í nútímasamfélagi er tæknin allt um lykjandi og sú þróun mun halda áfram. Þar sjáum við fjölmörg tækifæri þar sem sérþekking og einstök nálgun Genki Instruments nýtist við þróun nýrra vara,“ segir Ólafur að endingu.

Wave-hringurinn á hendi