Tölvunafræðinemar íslenska forritunarumhverfi fyrir grunnskólanema | Háskóli Íslands Skip to main content

Tölvunafræðinemar íslenska forritunarumhverfi fyrir grunnskólanema

2. maí 2018

Hópur nemenda í tölvunarfræði við Verkfræði- og náttúruvísindasvið Háskóla Íslands hefur lokið við að þýða forritunarritil fyrir micro:bit tölvur yfir á íslensku með það að markmiði að efla forritunarkunnáttu barna á Íslandi.

Þýðing ritilsins er afrakstur samstarfs Háskóla Íslands og Kóðans 1.0 en frá áramótum hafa nemendurnir staðið í ströngu við þýðingar á hinum ýmsu forritunarhugtökum auk annarra verkefna.

Kóðinn 1.0 er samstarfsverkefni KrakkaRÚV, Samtaka iðnaðarins, Mennta- og menningarmálaráðuneytisins og Menntamálastofnunar. Verkefnið felst í dreifingu á micro:bit smátölvunni en hana geta allir krakkar í 6. bekk fengið gefins og tekist á við hinar ýmsu forritunaráskoranir sem finna má á vefsíðu Kóðans. Markmið Kóðans 1.0 er að efla forritunarkunnáttu íslenskra barna og auka vitund þeirra um mikilvægi forritunar í daglegum störfum, efla rökhugsun og stuðla að auknum áhuga á tækni og iðngreinum í samræmi við áherslur í aðalnámskrá grunnskóla.

Kóðinn 1.0 og Háskóli Íslands hafa verið í samstarfi sem byggist á því að forritun er kynnt fyrir grunnskólanemendum sem sækja fræðslu í Vísindasmiðju Háskóla Íslands og Háskólalest skólans sem ferðast um landið á vorin. Auk þess var komið á laggirnar nýju sameiginlegu námskeiði við Iðnaðarverkfræði-, vélaverkfræði- og tölvunarfræðideild Háskólans sem ber heitið Verkefnahópur Kóðans en það var innan þess sem þýðing ritilsins fór fram.

Snæbjörn Valur Lilliendahl, verkefnastjóri Kóðans, segir að verkefnið sé gríðarlega áhugavert og viðamikið en auk hópsins sem sá um þýðinguna á ritlinum eru fimm aðrir hópar innan námskeiðsins sem sinna fjölbreyttum verkefnum fyrir Kóðann 1.0. Þar má nefna vinnusmiðjur sem haldnar hafa verið á Borgarbókasafni Reykjavíkurborgar, heimsóknir í grunnskóla þar sem fram fara kynningar og forritun með nemendum, hönnun og útgáfa á leiðbeiningum fyrir  nemendur og kennara og innleiðing á verkefnum tengt micro:bit tölvum í námskeiðið Upplýsingatækni í námi og kennslu á Menntavísindasviði Háskóla Íslands.

Páll Melsted, prófessor í tölvunarfræði við Háskóla Íslands, segir að það sé mikilvægt að nemendur í grunnskóla hafi aðgang að kennsluefni í forritun á íslensku og að viðmótið sem þau noti til að forrita sé íslenskt. Með Kóðanum hafa nemendur og kennarar aðgang að stóru safni verkefna sem hafa verið þýdd á íslensku og kynna undirstöðuatriði forritunar.

Skoða má forritunarumhverfið á íslensku á vefsíðu Kóðans www.kodinn.is undir "Búa til kóða". Íslenska viðmótið er svo valið með því að smella á tannhjólið og opna tungumálastillingarnar.

Sérstakar þakkir fá Bjarki Freyr Rúnarsson, Sindri Pétur Ingimundarson og Stella Rut Guðmundsdóttir sem stóðu að þýðingunni.

Nánar um verkefnið

Forsagan verkefnisins er sú að Breska ríkisútvarpið, BBC, og 29 samstarfsaðilar luku árið 2016 við að hanna gífurlega flotta og ódýra smátölvu sem auðvelt er að forrita. Á tölvunni eru tveir forritanlegir takkar, 5x5 LED skjár, bluetooth, hraðamælir, loftnet og áttaviti. Tölvuna er hægt að forrita með ýmsum forritunarmálum en í tveimur opinberum ritlum er boðið upp á blokkaforritun þar sem skipanir eru kubbaðar saman, JavaScript og Python.

Á sama tíma og verkefnið fór af stað í Bretlandi hófust Íslendingar handa og var tölvunum dreift til nánast allra nemenda í 6. og 7. bekk í grunnskólum hér á landi. Vefsíða Kóðans var sett í loftið en á henni eru 20 örþættir um tölvunarfræðitengt efni ásamt kennslumyndböndum, verkefnum og áskorunum fyrir micro:bit tölvuna. Þar er því allt sem þarf til þess að stíga fyrstu skrefin í forritun.

Grunnskólanemar forrita smátölvu
Snæbjörn Lilliendahl aðstoðar nemenda við forritun
Starfsmaður Kóðans aðstoðar nemenda við forritun

Netspjall