Timothy Morton flytur fyrirlestur á Íslandi | Háskóli Íslands Skip to main content

Timothy Morton flytur fyrirlestur á Íslandi

30. janúar 2018

Timothy Morton, heimspekingur og prófessor við Rice University í Houston, kemur hingað til lands í boði Heimspekistofnunar Háskóla Íslands og myndlistardeildar Listaháskóla Íslands og flytur fyrirlestur á opnu málþingi í Safnahúsinu 2. febrúar.

Timothy er einn af þekktustu fræðimönnum samtímans á sviði hugvísinda og hefur getið sér gott orð fyrir skrif sín um náttúruna á tímum mannaldar og póst-húmanisma. Fjallað er um hugmyndir hans í nýlegri grein breska blaðsins Guardian og þar segir: „Hugtakaforði Mortons er smám saman að smita hugvísindin. ... Þótt margir fræðimenn hafi það orð á sér að skrifa bara fyrir félaga sína í faginu þá hefur hugtaktaforði Mortons - „myrk vistfræði“, „óþekkti ókunni maðurinn“, „möskvinn“ - verið tekinn upp af höfundum úr ýmsum áttum, frá bókmenntum og þekkingarfræði til lagakenninga og trúarbragða“.

Morton er einn af upphafsmönnum heimspekistefnunnar „Object Oriented Ontology“ og hefur gefið úr fjölmargar bækur um heimspeki, umhverfismál, listir, mat og fleira og hafa kenningar hans vakið mikla athygli þvert á fræðasvið. Þá hefur hann einnig getið sér gott orð fyrir samstarf við þekkta listamenn og þar á meðal þau Ólaf Elíasson og Björk Guðmundsdóttur.

Timothy Morton mun tala á opnu málþingi í Safnahúsinu föstudaginn 2. febrúar kl. 13:30. Að erindi hans loknu verða pallborðsumræður með Sigríði Þorgeirsdóttur og Birni Þorsteinssyni, prófessorum við Háskóla Íslands, Ole Sandberg, doktorsnema við Sagnfræði- og heimspekideild skólans, og Oddnýju Eir Ævarsdóttur rithöfundi. Sigrún Inga Hrólfsdóttir, prófessor við Listaháskólann, stýrir umræðum. Nánari upplýsingar um fyrirlesturinn er að finna á Facebook-viðburði málþingsins.

Upplýsingar um Timothy Morton á Wikipedia.

Timothy Morton

Netspjall