Skip to main content
2. október 2020

Tíminn er eins og vatnið – Helgarkveðja 

""

Jón Atli Benediktsson, rektor Háskóla Íslands, sendi meðfylgjandi orðsendingu til stúdenta og starfsfólks í dag (2. október):

„Kæru nemendur og samstarfsfólk.

Nú er nýr mánuður hafinn á haustmisseri og vika að baki þar sem við höfum átt í höggi við erfiðan andstæðing. Mér er aftur efst í huga þakklæti til ykkar allra fyrir aðdáunarverða seiglu. Það er líka þakkarvert hvernig þið standið vörð um starf okkar og gæði þess þrátt fyrir ótrúlegar áskoranir. 

Við vitum nú að veiran er alls ekki að hverfa og hún sækir að okkur af alvöruþunga. Það verður því seint nægjanlega brýnt fyrir okkur öllum að viðhalda einstaklingsbundnum sóttvörnum og fjarlægðarmörkum og að nota hlífðargrímu þegar það á við. Ég vil hrósa ykkur sérstaklega fyrir hversu dugleg þið hafði verið að nota hlífðargrímurnar. 
 
Þótt veiran hafi verið í vexti undanfarnar vikur vitum við öll að ástandið er tímabundið. Við munum komast yfir þennan hjalla með sameiginlegu átaki. Okkur hættir reyndar til að vilja allar lausnir strax og sjaldan hefur það verið jafnmikilvægt og nú að vísindin laði fram lausnir gegn þessari óværu. 

Tíminn er einsog vatnið, dropinn sem holar steininn, segir skáldið Einar Már Guðmundsson. Þannig vinna vísindamenn heimsins saman að því að hola steininn í þágu okkar allra. Þolgæði er eitt af þeim vopnum sem við höfum nýtt okkur í baráttu undanfarinnar mánaða og ég hvet ykkur til að virkja áfram þann mikilvæga eiginleika. 

Helgin er framundan og við skulum nota hana til safna kröftum fyrir komandi verkefni. Hugum að því sem mestu skiptir og hugsum jákvætt. 

Góða helgi kæru nemendur og samstarfsfólk. 

Jón Atli Benediktsson, rektor Háskóla Íslands“
 

háskólasvæðið