Skip to main content
13. mars 2020

Tilkynningar frá rektor vegna samkomubanns

Jón Atli Benediktsson, rektor Háskóla Íslands, sendi meðfylgjandi tilkynningar á starfsfólk og stúdenta í kjölfar samkomubanns stjórnvalda.

Til stúdenta

„Kæru nemendur.

Svandís Svavarsdóttir, heilbrigðisráðherra lýsti í dag yfir að samkomubann tæki gildi þann 16. mars nk. og muni vara í fjórar vikur. Þetta er gert samkvæmt tillögu sóttvarnalæknis til að hefta útbreiðslu kórónaveiru (COVID-19). Nánari upplýsingar um áhrif samkomubannsins eru á vef Almannavarna og eru nemendur hvattir til að kynna sér þau vandlega.

Þetta hefur eftirfarandi í för með sér fyrir Háskóla Íslands:

 • Öll kennsla í húsakynnum Háskóla Íslands leggst af á meðan samkomubannið varir.
 • Í þeim námskeiðum þar sem kennsla hefur fyrst og fremst verið í staðnámi hafa kennarar og annað starfsfólk undirbúið af kappi að flytja námið yfir á rafrænt form. Þetta er mikið átak sem Háskólinn er vel í stakk búinn að takast á við.
 • Fyrstu dagana verður lögð áhersla á að setja á netið fyrirlestra og námsefni sem ekki var aðgengilegt og verður það núna meginviðfangsefnið.
 • Stór hluti af kennslu skólans er nú þegar rafrænn, t.d. fyrirlestrar, samskipti ykkar við kennara, umræður, verkefnaskil, námsmat og fleira. Kennarar og starfsfólk skólans kappkosta að kynna ykkur þessi úrræði enn frekar á næstu dögum og vikum og auka við þau eftir þörfum, ekki síst hvað varðar námsmat og lokapróf ef á þarf að halda. Nemendur eru hvattir til að fylgjast vel með tilkynningum frá kennurum.
 • Netspjall er virkt á heimasíðu skólans og hægt er að senda skilaboð utan opnunartíma.
 • Notendaþjónusta upplýsingatæknisviðs verður til staðar en einungis í rafrænu formi og símleiðis. Netspjall upplýsingatæknisviðs er á heimasíðu skólans og símanúmer er 525-4222. Einnig er hægt að senda tölvupóst á help@hi.is
 • Háskólinn leggur allt kapp á að fjarkennsla taki nú við af staðnámi til þess að þið getið haldið áfram námi og lokið yfirstandandi vormisseri.
 • Að jafnaði fellur verkleg kennsla niður en ákvarðanir um fyrirkomulag hennar og starfsnáms verða teknar á hverju fræðasviði fyrir sig. Nánari upplýsingar verða sendar síðar.
 • Allar byggingar verða lokaðar. Nemendur munu því ekki hafa aðgang að byggingum.
 • Doktorsnemar hafa sama aðgang að byggingum og starfsfólk.
 • Mikilvægt er að virða samkomubann til að draga úr smithættu.
 • Nemendur eru hvattir til að sækja eigur sínar í byggingar Háskóla Íslands ef þeir óska, fram að því að byggingum verði lokað frá og með miðnætti aðfaranótt 16. mars. Aðgangskort nemenda að byggingum verður virkt fram að þessum tíma. Vaktsími umsjónarmanna er 8346512. 

Þetta er fordæmalaus staða. Við biðjum ykkur, kæru nemendur, að vinna með okkur í því stóra og mikilvæga verkefni að tryggja að nám við skólann raskist sem minnst.

Ég hvet ykkur til fylgjast vel með stöðu mála á sérstöku COVID-19 svæði á hi.is og leita upplýsinga ef þörf krefur í netspjalli á heimasíðu Háskólans. Neyðarstjórn skólans fundar nú daglega og má hafa samband við hana í gegnum neydarstjorn@hi.is.

Ég vil hvetja ykkur til að hlúa vel hvert að öðru, halda góðu sambandi við samnemendur ykkar og sýna hvert öðru stuðning við þessar óvenjulegu aðstæður. Við höfum fulla ástæðu til að ætla að þeir erfiðleikar sem við glímum nú við sem samfélag séu einungis tímabundnir og viðráðanlegir.

Með kærri kveðju,
Jón Atli Benediktsson, rektor Háskóla Íslands. “
 

Til starfsfólks

„Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra lýsti í dag yfir að samkomubann tæki gildi frá og með miðnætti aðfaranótt 16. mars og muni vara í fjórar vikur. Þetta er gert samkvæmt tillögu sóttvarnalæknis til að hefta útbreiðslu kórónaveiru (COVID-19). Nánari upplýsingar um almenn áhrif samkomubannsins eru á vef Almannavarna og er starfsfólk hvatt til að kynna sér þau vandlega.

Fyrir Háskóla Íslands hefur samkomubann m.a. eftirfarandi í för með sér:

 • Öll kennsla leggst af tímabundið í húsakynnum Háskóla Íslands.
 • Starfsemi skólans verður takmörkuð og einungis starfsfólk hefur aðgang að byggingum. Starfsfólk sem hefur ekki aðgangskort eða lykla getur haft samband við vaktsíma umsjónarmanna sem er 8346512.
 • Kaffistofur Félagsstofnunar stúdenta verða lokaðar og sömuleiðis allir veitingastaðir.
 • Gríðarlega mikilvægt er að virða samkomubann til að draga úr smithættu. Þetta felur m.a. í sér að hópast ekki saman t.d. á kaffistofum, í opnum rýmum eða í fundarherbergjum.
 • Tilhögun starfs, hvort það verði unnið heima eða í húsakynnum háskólans, verði eftir samkomulagi við yfirmann.
 • Þeir sem vinna heima geta tekið með sér skjái, dokkur og lyklaborð sem fylgja eigin vinnustöð.
 • Stjórnendur munu gera ráðstafanir um fyrirkomulag sem minnkar samneyti þar sem starfsmenn deila skrifstofum eða vinna í opnum rýmum. Sendar verða nánari upplýsingar um þetta til stjórnenda í dag sem skipuleggja svo starf sinna eininga í samræmi við það sem þar er skilgreint.
 • Notendaþjónusta upplýsingatæknisviðs verður til staðar en einungis í rafrænu formi og símleiðis. Hnappur fyrir netspjall er á heimasíðu skólans og símanúmer er 525-5550.
 • Allir fundir verði með fjarfundabúnaði t.d. gegnum Zoom eða Teams eins og kostur er.
 • Enn er margt óljóst og ekki svör við öllu og við treystum því á dómgreind starfsfólks og stjórnenda til að greiða úr málum eftir þörfum og í anda þess sem hér kemur fram.

Þetta er fordæmalaus staða en ég veit að við munum leggjast á eitt við að mæta þessari stóru áskorun og tryggja að starfsemi skólans skerðist sem minnst. Háskólinn mun t.d. leggja allt kapp á að fjarkennsla taki nú við af staðnámi til að nemendur geti haldið áfram námi sínu og lokið yfirstandandi misseri. (Sjá leiðbeiningar um fjarnám á Uglu). Ég hef þegar sent þeim tölvupóst þar að lútandi.

Ég hvet ykkur til að fylgjast vel með stöðu mála á sérstöku COVID-19 svæði á hi.is og leita upplýsinga ef þörf krefur í netspjalli á heimasíðu Háskólans. Neyðarstjórn skólans fundar nú daglega og má hafa samband við hana í gegnum neydarstjorn@hi.is.

Ég vil hvetja ykkur til að hlúa vel hvert að öðru, halda góðu sambandi við samstarfsfólk ykkar og sýna hvert öðru stuðning við þessar óvenjulegu aðstæður. Við höfum fulla ástæðu til að ætla að þeir erfiðleikar sem við glímum nú við sem samfélag séu einungis tímabundnir og viðráðanlegir.

Með kærri kveðju,
Jón Atli Benediktsson, rektor Háskóla Íslands.“

Háskólatorg