Skip to main content
17. mars 2020

Tilkynning frá rektor 17. mars 2020

Jón Atli Benediktsson, rektor Háskóla Íslands, sendi meðfylgjandi tilkynningu á stúdenta og starfsfólk í dag:

„Kæru nemendur og starfsfólk. 

Neyðarstjórn Háskóla Íslands fundaði í morgun (17. mars 2020) til að fara yfir stöðu mála varðandi COVID-19. 

Neyðarstjórn ítrekar þakkir sínar til allra fyrir að hafa brugðist ótrúlega vel við gerbreyttum aðstæðum. Það er afar mikilvægt að starfsfólk fylgi þeim fyrirmælum að hleypa ekki nemendum eða gestum inn í skólabyggingar. Tilmæli stjórnvalda eru til þess gerð að tryggja velferð okkar allra og minnka líkur á smiti.
 
Þetta er fyrsta vikan þar sem samkomubann gildir og við erum öll að laga okkur að nýjum aðstæðum og að læra á nýjan veruleika. Kennarar vinna hörðum höndum að því að koma kennslunni á rafrænt form og hefur það gengið vonum framar. Það er þakkarvert hvað kennarar og annað starfsfólk hefur lagt sig fram við þetta stóra verkefni. Við hvetjum nemendur til að sýna áfram sveigjanleika og þolinmæði.
 
Við núverandi aðstæður er ekki óeðlilegt að finna til kvíða og annarra tilfinninga sem erfitt er að kljást við. Hér má finna hollráð til nemenda frá sálfræðingum náms- og starfsráðgjafar. Einnig minnum við nemendur á að nýta sér netspjallið. 
 
Háskóli Íslands leggur áfram allt kapp á að nemendur geti lokið námi og prófum á yfirstandandi vormisseri, eins og fram kemur í ávarpi rektors. Nú stendur yfir endurskipulagning kennslu á fræðasviðum og deildum og verða nemendum sendar nánari upplýsingar um leið og þær liggja fyrir.
 
Almennar upplýsingar er að finna á COVID-19 síðu Háskóla Íslands sem er uppfærð reglulega. 
 
Verum í sambandi hvert við annað og veitum þann stuðning sem við getum. 

Saman vinnum við sigra. 
  
Með góðri kveðju,
Jón Atli Benediktsson, rektor“

""