Skip to main content
16. mars 2020

Tilkynning frá rektor 16. mars 2020

Tilkynning frá rektor 16. mars 2020 - á vefsíðu Háskóla Íslands

Jón Atli Benediktsson, rektor Háskóla Íslands, sendi meðfylgjandi tilkynningu á starfsfólk og stúdenta Háskólans mánudaginn 16. mars:

„Kæru nemendur og starfsfólk.

Neyðarstjórn Háskóla Íslands fundaði í morgun (16. mars 2020) til að fara yfir stöðu mála varðandi COVID-19. 

Neyðarstjórn vill færa nemendum og starfsfóki miklar þakkir fyrir að hafa brugðist af einurð og æðruleysi við þeim aðgerðum sem kynntar hafa verið af hennar hálfu. Ekkert okkar hefur staðið frammi fyrir slíkum aðstæðum áður og góð skipulagning, samvinna, sveigjanleiki og hjálpsemi skipta sköpum. Mjög mikilvægt er við þessar aðstæður að við virðum öll samkomubann stjórnvalda til að draga úr smithættu. 

Samkomubann

  • Samkomubannið sem hófst á miðnætti mun vara í 4 vikur og gildir um skipulagða viðburði þar sem fleiri en 100 manns koma saman. Við öll minni mannamót þarf að tryggja að nánd milli manna sé a.m.k. tveir metrar og að aðgengi að handþvotti og handspritti sé gott.
  • Samkomubannið hefur í för með sér töluverðar takmarkanir á skólahaldi og hefur Háskóla Íslands verið lokað. Í þessu felst að Háskólinn er lokaður fyrir nemendum en starfsfólk og doktorsnemar mega ganga til starfa sinna að teknu tilliti til reglna heilbrigðisráðherra um takmörkun á samkomum.

Nám, námsmat og próf

  • Háskóli Íslands leggur allt kapp á að nemendur geti lokið námi og prófum á yfirstandandi vormisseri og er unnið að því af miklum krafti að fjarkennsla taki nú við af staðnámi.
  • Nemendur eru hvattir til að fylgjast vel með tilkynningum frá kennurum.
  • Þessa viku verður lögð áhersla á að setja á netið fyrirlestra og námsefni sem ekki var aðgengilegt. Þetta er mikið átak sem Háskólinn er vel í stakk búinn að takast á við.
  • Stór hluti af kennslu skólans er nú þegar rafrænn, t.d. fyrirlestrar, samskipti nemenda og kennara, umræður, verkefnaskil, námsmat og fleira. Kennarar og starfsfólk skólans kappkosta að kynna ykkur þessi úrræði enn frekar á næstu dögum og vikum og auka við þau eftir þörfum, ekki síst hvað varðar námsmat og lokapróf ef á þarf að halda.
  • Engin verkleg kennsla mun fara fram í Háskóla Íslands óháð hópastærðum. Nemendur í verklegu námi eru hvattir til að afla sér nánari upplýsinga hjá fræðasviðum og kennurum sínum.

Fólk í sóttkví

  • Nemendur og starfsfólk sem er í sóttkví er góðfúslega beðið um að tilkynna það til næsta yfirmanns. Yfirmenn upplýsi jafnframt neyðarstjórn með því að senda tölvupóst á neydarstjorn@hi.is. Er þetta m.a. gert til að geta boðið viðkomandi aðstoð.

Andleg og líkamleg vellíðan

  • Mikilvægt er að gleyma ekki útivist og hreyfingu en hún gegnir lykilhlutverki í andlegri og líkamlegri vellíðan. Gætið hvert að öðru og haldið sambandi gegnum netið.

Rafræn þjónusta 

  • Nemendur eru hvattir til að nýta sér netspjall sem er virkt á heimasíðu skólans fyrir öll fræðasvið og flesta þjónustuþætti og er einnig hægt að senda skilaboð utan opnunartíma.
  • Notendaþjónusta upplýsingatæknisviðs er staðar en einungis í rafrænu formi og símleiðis. Netspjall upplýsingatæknisviðs er á heimasíðu Háskólans og símanúmer er 525-4222. Einnig er hægt að senda tölvupóst á help@hi.is

Ég hvet ykkur til að hlúa vel hvert að öðru við þessar óvenjulegu aðstæður. Full ástæða er til að ætla að þeir erfiðleikar sem við glímum nú við séu tímabundnir og viðráðanlegir.

Saman vinnum við sigra.  

Með góðri kveðju,
Jón Atli Benediktsson, rektor “

""