Þrjú hundruð ræða stjórnaskrárbreytingar og framtíð lýðræðis | Háskóli Íslands Skip to main content
7. nóvember 2019

Þrjú hundruð ræða stjórnaskrárbreytingar og framtíð lýðræðis

""

Von er á þrjú hundruð manns af öllu landinu í Laugardalshöll núna um helgina til þess að taka þátt í umræðufundi um breytingar á stjórnarskrá Íslands. Að fundinum stendur forsætisráðuneytið í samvinnu við Háskóla Íslands og Stanford-háskóla. 

Endurskoðun stjórnarskrár Íslands á að fara fram á þessu kjörtímabili í víðtæku samráði við almenning. Öndvegisrannsóknarverkefnið Lýðræðisleg stjórnarskrárgerð, sem lýtur forystu Jóns Ólafssonar, prófessors við Háskóla Íslands, og Félagsvísindastofnun Háskóla Íslands koma að því samráði.

Að sögn Guðbjargar Andreu Jónsdóttur, forstöðumanns Félagsvísindastofnunar Háskóla Íslands, sem kemur að skipulagi umræðufundarins, fylgir hann aðferðafræði sem James Fishkin, prófessor við Stanford-háskóla, hefur þróað og kallast „Deliberative poll“  eða rökræðukönnun. Aðferðinni hefur verið beitt víða um heim á undanförnum tveimur áratugum. „Fishkin er væntanlegur hingað til lands og mun taka þátt í fundinum með okkur og það mikill fengur í honum,“ segir Guðbjörg Andrea.

Rökræðukönnun snýst um að skoða með dýpri hætti en hægt er í venjulegum skoðanakönnunum viðhorf almennings til ýmissa þátta og hvernig umræður móta viðhorf. Í tilviki endurskoðunar stjórnarskrárinnar er ferlið þannig að fyrst var gerð almenn  skoðanakönnun um viðhorf til breytinga á stjórnarskrá, sem Félagsvísindastofnun gerði meðal almennings í sumar. Um 300 manns, sem svöruðu skoðanakönnuninni, var boðið að taka þátt í umræðufundinum sem fram fer í Laugardalshöll nú um helgina.

Í upphafi fundar verður spurningalisti lagður fyrir þátttakendur með ýmsum tillögum um þau sex viðfangsefni sem fjallað verður um á fundinum. Forsætisráðherra setur umræðufundinn á laugardagsmorgun og í framhaldinu munu þátttakendur í 10 manna hópum undir stjórn umræðustjóra ræða um:
•    Embætti forseta Íslands
•    Landsdóm og ákæruvald Alþingis
•    Ákvæði um breytingar á stjórnarskrá
•    Þjóðaratkvæðagreiðslur og þjóðarfrumkvæði
•    Kjördæmaskipan, atkvæðavægi og persónukjör
•    Alþjóðlegt samstarf og framsal valdaheimilda

Að umræðufundi loknum er spurningalistinn aftur lagður fyrir og má þannig greina hvort breytingar hafa orðið á viðhorfum þátttakenda til tillagnanna við það að ræða kosti þeirra og galla.

„Þáttakendur hafa þegar fengið send gögn þar sem fjallað er stuttlega um bakgrunn hvers viðfangefnis, þar á meðal röksemdir með og á móti þeim tillögum sem fólk mun taka afstöðu til í spurningakönnuninni um helgina. Við vonumst til þess að þessar upplýsingar verði gagnlegar þegar umræður hefjast um einstök viðfangsefni í Laugardalshöll,“ segir Guðbjörg Andrea.

Hún bendir jafnframt á að tilgangurinn með fundinum sé ekki að komast að sameiginlegri niðurstöðu og fundurinn muni ekki senda frá sér neinar ályktanir. „Tilgangurinn er að öðlast betri mynd af viðhorfum almennings með því að skoða, með stuttri könnun í upphafi og lok fundarins, hvort og hvernig viðhorf þátttakenda breytast við þátttöku í umræðum af þessu tagi,“ segir Guðbjörg Andrea enn fremur. 

Hins vegar munu stjórnvöld fá skýrslu og greinargerð um niðurstöður fundarins sem þau geta nýtt við vinnu að frumvörpum um breytingar á stjórnarskránni, en það hefur komið skýrt fram að viðhorf almennings leiki mikilvægt hlutverk í þeirri vinnu.

Við þetta má bæta að Öndvegisverkefnið Lýðræðisleg stjórnarskrárgerð stendur líka fyrir opnu samráði um breytingar á stjórnarskránni í samstarfi við Íbúa – Samráðslýðræði ses. á vefnum Betra Ísland. Hver sem er getur tekið þátt í umræðum á þeim vettvangi.

Guðbjörg Andrea Jónsdóttir og Jón Ólafsson