Skip to main content
3. janúar 2022

Þrír prófessorar sæmdir fálkaorðunni á nýársdag

Þrír prófessorar sæmdir fálkaorðunni á nýársdag - á vefsíðu Háskóla Íslands

Þrír prófessorar við Háskóla Íslands, þau Áslaug Geirsdóttir, Sigurjón Arason og Trausti Valsson, voru sæmd heiðursmerki hinnar íslensku fálkaorðu á Bessastöðum á nýársdag. Viðurkenninguna hljóta þau fyrir fræðastörf sín og framlag til samfélagsins. 

Áslaug Geirsdóttir, prófessor við Jarðvísindadeild, hlýtur viðurkenninguna fyrir störf á sviði jarðvísinda og loftslagsrannsókna.

áslaug og guðni

Áslaug Geirsdóttir ásamt Guðna Th. Jóhannessyni, forseta Íslands, við afhendingu heiðursmerkis hinnar íslensku fálkaorðu á Bessastöðum. MYND/Gunnar Vigfússon

Áslaug útskrifaðist sem jarðfræðingur frá Háskóla Íslands í júní 1979, lauk MS-prófi frá Christian-Albrechts Universitat í Kiel í Þýskalandi árið 1982 og doktorsprófi frá University of Colorado, Boulder í Bandaríkjunum árið 1988. Hún hefur starfað við Háskóla Íslands frá árinu 1989, fyrst sem stundakennari og rannsóknasérfræðingur en síðar sem lektor (1991), dósent (1994) og prófessor (2000). Áslaug var prófessor við Háskólann í Bergen 2014-2017 og hefur verið með gestastöðu við Institute of Arctic and Alpine Research, University of Colorado og Graduate school of University of Colorado Boulder.

Rannsóknir Áslaugar hafa verið á sviði jöklajarðfræði og fornloftslagsfræða og hafa rannsóknir á seti í stöðuvötnum verið í brennidepli hjá henni undanfarna tvo áratugi. Með þeim má varpa ljósi á hvernig loftslag, umhverfi og vistkerfi á Íslandi hafa breyst síðustu 12 þúsund ár eða frá því að ísaldarjökullinn hörfaði. Áslaug hefur jafnframt stýrt stórum alþjóðlegum rannsóknaverkefnum og tekið þátt í alþjóðlegum samstarfsnetum. Þá er hún höfundur á annað hundrað fræðigreina.

Nánar um rannsóknir Áslaugar á Vísindavefnum

Sigurjón Arason, prófessor emeritus við Matvæla- og næringarfræðideild og yfirverkfræðingur hjá Matís, hlýtur fálkaorðuna fyrir rannsóknir og þróun á vinnslu sjávarafurða.

Sigurjón og Guðni

Sigurjón Arason ásamt Guðna Th. Jóhannessyni, forseta Íslands, við afhendingu heiðursmerkis hinnar íslensku fálkaorðu á Bessastöðum. MYND/Gunnar Vigfússon

Sigurjón lauk BS-prófi í efnafræði frá Háskóla Íslands árið 1974 og MS-prófi í í efna- og ferlaverkfræði frá Tækniháskólanum í Kaupmannahöfn þremur árum síðar. Hann starfaði um árabil hjá Rannsóknastofnun fiskiðnaðarins sem síðar sameinaðist fleiri rannsóknastofnunum í Matís þar sem Sigurjón gegnir enn starfi yfirverkfræðings. Hann hefur jafnframt um árabil gegnt prófessorsstöðu í matvælaverkfræði við Háskóla Íslands og leiðbeint miklum fjölda doktorsnema.

Sigurjón hefur komið að ótrúlegum fjölda verkefna sem hafa skilað sér í hreinum tekjum fyrir íslensk fyrirtæki og þjóðarbú. Hann hefur ásamt fjölmörgum samstarfsaðilum úr atvinnulífinu og þekkingarsamfélaginu, komið að því að þróa byltingarkenndar aðferðir til kælingar á fiski, m.a. á makríl sem hefur stóraukið útflutningsverðmæti afurðanna, stuðlað að vinnslu og þurrkun á vannýttu aukahráefni og fisktegundum, endurhannað umbúðir og fiskkassa til að tryggja betur gæði hráefnis og afurða, þróað frystingu fisks og vinnslu saltfisks til að auka verðmæti og unnið að bættri meðhöndlun og geymsluþoli fiskafla, svo fátt eitt sé nefnt. Fyrir þessi störf hefur Sigurjón hlotið ýmsar viðurkenningar.

Viðtal við Sigurjón um störf hans og rannsóknir á vef HÍ

Trausti Valsson, prófessor emeritus við Umhverfis- og byggingarverkfræðideild, hlýtur heiðursmerki hinnar íslensku fálkaorðu fyrir framlag til skipulagsfræða og samfélagsumræðu.

Trausti og Guðni

Trausti Valsson ásamt Guðna Th. Jóhannessyni, forseta Íslands, við afhendingu heiðursmerkis hinnar íslensku fálkaorðu á Bessastöðum. MYND/Gunnar Vigfússon

Trausti státar bæði af prófi í arkitektúr frá Tækniháskólanum í Berlín og doktorsprófi í umhverfisskipulagsfræði frá University of California, Berkeley í Bandaríkjunum. Hann hefur sinnt kennslu og rannsóknum á sviði skipulagsfræði í Háskóla Íslands í yfir þrjá áratugi en meðal rannsóknasviða eru skipulagssaga og samspil skipulagsfræði, umhverfisfræði og hnattrænnar hlýnunar. 

Alls hefur Trausti gefið út 14 bækur um hönnun og skipulag, þar af eru fjórar á ensku. Fyrsta bókin, Reykjavík – Vaxtarbroddur: Þróun höfuðborgar, kom út árið 1986 og sú nýjasta árið 2016. Þær spanna afar fjölbreytt viðfangsefni en þar eru þó skipulag byggðar á Íslandi og framtíðar- og umhverfismál rauður þráður. Allar eru bækurnar aðgengilegar á vef Trausta. Þá liggja eftir Trausta á annað hundrað greinar um sömu viðfangsefni auk þess sem hann hefur sinnt ýmiss konar ráðgjafarstörfum á sínu sérsviði. 

Háskóli Íslands óskar þeim Áslaugu, Sigurjóni og Trausta innilega til hamingju með fálkaorðuna.

Áslaug Geirsdóttir, Sigurjón Arason og Trausti Valsson