Þriðjungur kvenna orðið fyrir kynferðislegri áreitni eða ofbeldi á vinnustað
Þriðjungur kvenna hefur orðið fyrir kynferðislegri áreitni eða ofbeldi á vinnustað einhvern tímann á lífsleiðinni samkvæmt niðurstöðum rannsóknar á vegum vísindamanna Háskóla Íslands. Sagt er frá þeim í nýjasta hefti hins virta vísindatímarits The Lancet Public Health. Rannsóknin sýnir enn fremur að konur á opinberum vettvangi og í ferðaþjónustu séu í mestri hættu á kynferðislegri áreitni og ofbeldi á núverandi vinnustað sínum.
Gögnin í rannsókninni eru fengin úr hinu viðamikla rannsóknarverkefni Áfallasaga kvenna sem vísindamenn við Miðstöð í lýðheilsuvísindum við Háskóla Íslands standa að. Um er að ræða eina stærstu rannsókn sinnar tegundar í heiminum þar sem markmiðið er að varpa ljósi á heilsufar kvenna í kjölfar áfalla. Rannsóknin sem sagt er frá í The Lancet Public Health byggist á svörum 15.799 kvenna á vinnufærum aldri sem svöruðu ítarlegum spurningalista, meðal annars um kynferðislega áreitni og ofbeldi í vinnuumhverfi þeirra og í ólíkum geirum atvinnulífsins.
Niðurstöður rannsóknarinnar sýna sem fyrr segir að þriðja hver kona hefur orðið fyrir kynferðislegri áreitni eða ofbeldi á vinnustað á lífsleiðinni. Átta prósent höfðu orðið fyrir slíku á þeim vinnustað sem þær störfuðu á þegar þær tóku þátt í rannsókninni. Þá eru konur á opinberum vettvangi (t.d. sviðslistum, tónlist, blaðamennsku og stjórnmálum) og þær sem starfa í ferðaþjónustu, innan réttarvörslukerfisins, í öryggisgeiranum og framleiðslu- og viðhaldsgeirum mest útsettar fyrir kynferðislegri áreitni eða ofbeldi á núverandi vinnustað. Kynferðisleg áreitni og ofbeldi gagnvart konum reyndist jafnframt algengara á vinnustöðum með vaktafyrirkomulagi og óreglulegum og löngum vinnutíma en annars staðar. „Konur sem vinna á slíkum stöðum eru líkegri til þess að vera einar að störfum með mögulegum gerendum og því engin vitni að áreitninni eða ofbeldinu. Að þessu þarf að huga þegar öryggi á vinnustöðum er til skoðunar,“ bendir Edda Björk Þórðardóttir á, en hún er lektor við Háskóla Íslands og ábyrgðarhöfundur rannsóknarinnar.
Rannsóknin leiðir jafnframt þá athyglisverðu niðurstöðu í ljós að þrátt fyrir að hafa verið skemur á vinnumarkaði voru yngri konur í rannsókninni líklegri til þess að greina frá því að hafa orðið fyrir kynferðislegri áreitni á lífsleiðinni en þær sem eldri eru. Þá sýna niðurstöður að hinsegin konur eru líklegri til þess að verða fyrir áreitni á vinnustað á lífsleiðinni en gagnkynhneigðar konur.
Niðurstöður rannsóknarinnar í The Lancet Public Health eru ekki síst athyglisverðar þegar horft er til þess að Ísland hefur um langt árabil verið í efsta sæti á lista Alþjóðaefnahagsráðsins yfir þau lönd þar sem kynjajafnrétti er mest. Aðstandendur rannsóknarinnar benda á að niðurstöðurnar sýni að þörf sé á frekari stefnumótun í samfélaginu sem miðar að því að auka öryggi kvenna á vinnustað.
Rannsóknina í The Lancet Public Health má nálgast á vef tímaritsins og þá er einnig rædd við Eddu í hlaðvarpi tímaritsins.