Skip to main content
11. september 2020

Þakkir fyrir þrautseigju og að fylgja reglum

Jón Atli Benediktsson, rektor Háskóla Íslands, sendi meðfylgjandi orðsendingu til stúdenta og starfsfólks í dag (11. september):

„Kæru nemendur og samstarfsfólk. 

Nú í vikulokin vil ég þakka ykkur öllum sérstaklega fyrir þrautseigju og fylgni ykkar við þær reglur sem við höfum sett í samræmi við tilmæli stjórnvalda til að draga úr hættu á smiti. Til allrar hamingju hafa engin smit komið upp hér í Háskóla Íslands og ber það ekki síst að þakka hvernig við höfum öll brugðist við.  

Þótt samkomureglur hafi verið rýmkaðar þá er sá tími ekki kominn að við getum boðið gestum og gangandi á viðburði í skólanum. Verið er að útbúa verklagsreglur um rafrænar doktorsvarnir og hvatt er til þess að stærri viðburðir verði rafrænir. 

Reglan um 1 metra á milli einstaklinga er í gildi innan skólans og í samfélaginu og mikilvægt að hafa það í heiðri við samkomuhald nemenda utan skólans sem er þó vissulega á þeirra ábyrgð. Ákveðnum byggingum er enn skipt upp í hólf og hefur tekist vel að fylgja reglum um aðgengi að þeim. 

Það er afar eðlilegt að margir nemendur séu hikandi við að koma í skólann í þessum flóknu aðstæðum en ég vil leggja áherslu á nemendur eru velkomnir og við tökum ykkur öllum fagnandi. Það er ekki einfalt að stunda nám og vinnu við núverandi aðstæður en aðlögun að breyttum heimildum hefur tekist vonum framar sem er ekki sjálfgefið.  

Leiðbeiningar um fyrirkomulag prófa og námsmat eru í undirbúningi en stefnt er að því að hafa sem flest próf í stofum hér á háskólasvæðinu. 

Ég minni á COVID-19 síðu-skólans þar sem hægt er að kynna sér flest það er víkur að starfi Háskólans við núverandi aðstæður. Munum að þessar aðstæður eru sem betur fer einungis tímabundnar. 

Njótum öll helgarinnar sem best við megum og gleymum ekki að leiða hugann að því jákvæða í tilverunni. 

Jón Atli Benediktsson, rektor“