Skip to main content
3. apríl 2020

Þakkir

Jón Atli Benediktsson, rektor Háskóla Íslands, sendi meðfylgjandi tilkynningu til starfsfólks og nemenda í dag:

„Kæru nemendur og samstarfsfólk. 

Nú er enn einni vikunni að ljúka í heimsfaraldri sem hefur haft gríðarleg áhrif á allt okkar líf og starf. Það hefur reynt á sköpunarþrótt ykkar allra, á frumkvæði og seiglu við að mæta nýjum kröfum þar sem samskipti eru nær öll orðin stafræn. Öll söknum við þess sem við áttum, ekki síst nú þegar við finnum að þessi illvígi sjúkdómur er að herða tökin á okkar litla samfélagi. Nú finnum við hversu mikilvægt það er að standa saman, ekki bara sem þjóð heldur þarf mannkynið allt að þjappa sér saman til að vinna sigur á þessum vágesti. 

Þegar ég lít yfir liðna daga og vikur er ég fyrst og síðast stoltur yfir öllu því sem þið hafið áorkað. Námið hefur verið fært í nýjan búning á mettíma og sameinuð höfum við staðið vörð um gæði þess. Þakklæti til ykkar allra er mér efst í huga. 

Öll fylgjumst við með því gríðarlega átaki sem unnið er víða um samfélagið okkar og ekki síst í heilbrigðiskerfinu þar sem fólk leggur nú nótt við dag. Háskólinn leggur til krafta sína og þekkingu til stuðnings því ómetanlega starfi. Einna vænst þykir mér um þegar nemendur skólans standa í framlínunni við að létta undir með heilbrigðisstéttum og stjórnvöldum.  

Gildi þekkingar og vel menntaðs fólks hefur aldrei verið jafnljóst og nú. Samstaða og fórnfýsi ykkar fyllir mig bjartsýni um að Háskólinn standi af sér þessa miklu hríð. 

Þegar sólin skein í vikunni varð mér hugsað til vorsins sem er í vændum og línanna úr ljóði Halldórs Laxness: „Bráðum kemur betri tíð með blóm í haga, sæta lánga sumardaga.“ Þetta varð mér hvatning til að skilja að þessi barátta okkar er tímabundin en til að sigra þurfum við meiri samvinnu en nokkru sinni fyrr. 

Förum inn í helgina með það hugarfar að fylgja öllum reglum sem okkur hafa verið settar af sóttvarnarlækni og almannavörnum. Ég veit að það geta ekki allir slakað á þótt helgin sé í vændum því margir eiga erfið verkefni fyrir höndum. Gefum okkur samt andartak til að huga hvert að öðru og að öllu því sem gefur lífinu gildi. 

Gangi ykkur allt að óskum kæru nemendur og samstarfsfólk. 
Kær kveðja,

Jón Atli Benediktsson,
rektor Háskóla Íslands.“

 
 

á hálendinu