Skip to main content
20. maí 2020

Sumarnám – eitthvað fyrir alla

""

Jón Atli Benediktsson, rektor Háskóla Íslands, sendi meðfylgjandi tilkynningu til starfsfólks og nemenda í dag:

„Kæru nemendur og samstarfsfólk. 

Mig langar að vekja sérstaka athygli ykkar á sumarnámi sem verður í boði við Háskóla Íslands á tímabilinu 2. júní til 15. ágúst, en mennta- og menningarmálaráðuneytið veitti skólanum 250 m.kr. styrk til að skipuleggja slíkt nám. 

Í boði verða hartnær eitthundrað námskeið þar sem fjölbreytnin ræður svo sannarlega ríkjum. Þarna verður eitthvað fyrir alla þar sem hluti námskeiðanna er opinn almenningi. Við skipulag sumarnámsins er megináherslan þó lögð á að mæta þörfum núverandi háskólanema, nýnema, þeirra sem vilja efla undirbúning sinn fyrir háskólanám og nema sem hafa íslensku sem annað mál. Námskeiðin sem í boði verða eru þannig bæði til eininga og almenn námskeið án eininga. Þá verður einnig boðið upp á netnámskeið í samvinnu við erlenda samstarfsháskóla.

Átak í kynningu á sumarnáminu hefst í dag og verður þá opnuð sérstök vefsíða helguð verkefninu. Þar verða mjög ítarlegar upplýsingar um tilhögun námsins, hægt verður að skoða allt námsframboðið og skrá sig. Á síðunni kemur m.a. fram að boðið verður upp á ýmis undirbúningsnámskeið og aðfaranámskeið, m.a. í raungreinum og íslensku, námskeið í akademískum vinnubrögðum, námskeið í íslensku sem öðru máli, valnámskeið á háskólastigi á öllum fræðasviðum, námskeið um nýsköpun og samfélagsþátttöku, námskeið í tæknifræði o.fl. o.fl. Ég hvet ykkur öll til að kynna ykkur námsframboðið. 

Þið, kæru nemendur, sem skráðir eru til náms háskólaárið 2019-2020 getið tekið sumarnámið án þess að greiða sérstakt skrásetningargjald enda tilheyrir sumarmisserið kennsluárinu 2019-2020. 

Nú þegar lífið nálgast æ meir þann brag sem við áttum að venjast fyrir innreið veirufaraldursins er rétt að hafa áfram í huga varnaðarreglur stjórnvalda. Við megum ekki gleyma okkur. Munum að við erum öll almannavarnir og berum mikla ábyrgð hvert og eitt. Höldum áfram á réttri braut og hugum hvert að öðru. Njótum sumarsins framundan og nýtum það jafnvel líka til að styrkja okkur í námi.

Það er einlæg von mín að sem flest ykkar getið nýtt ykkur sumarnámið til gagns og ánægju. 

Gangi ykkur vel kæru nemendur og samstarsfólk. 

Jón Atli Benediktsson, rektor“
 

frá háskólasvæðinu