Skip to main content
27. mars 2020

Stöndum saman – vinnum sigur 

""

Rektor Háskóla Íslands sendi eftirfarandi tilkynningu til stúdenta og starfsfólks 27. mars:

„Kæru nemendur og starfsfólk.

Í vikulokin er mér efst í huga gríðarlegt þakklæti til ykkar allra. Þið hafið sýnt ótrúlega seiglu og skilning til viðbótar því að lyfta grettistaki í að koma starfi skólans áfram á tímum sem eiga sér enga hliðstæðu. 

Í miðjum storminum sjáum við nemendur og starfsfólk leggja sitt af mörkum í baráttunni við þann illvíga sjúkdóm sem nú herjar á mannkynið allt. Vísindamenn okkar vinna náið með Landspítalanum og yfirvöldum að ýmsum verkefnum sem tengjast faraldrinum. Þeir hafa t.d. þróað spálíkan með öðrum um þróun COVID-19 hér á landi. Nemendur Háskólans taka þátt í störfum smitrakningateymis Almannavarna. Vísindavefurinn hefur tekið saman allt tiltækt efni um veirur. Doktorsnemi í sálfræði hefur þýtt og aðlagað fræðsluefni um sjúkdóminn fyrir börn. Starfsfólk okkar stendur fyrir netmenntabúðum og opnar síðu með stuðningsefni fyrir foreldra og skóla- og frístundafólk. Hér er fátt eitt talið. Þekkingin og samvinnan mun færa okkur sigur á þessum sjúkdómi og stöðva útbreiðsluna. 

Núna förum við inn í helgina og mörg okkar geta slakað á með ástvinum. Margir eru engu að síður hlaðnir verkefnum og sumir eru kvíðnir. Það er mikilvægt að leita eftir stuðningi og styðja um leið aðra sem eru manni næstir. Hugum hvert að öðru og gleymum ekki að andleg líðan er undirstaða þess að við komumst áfram í gegnum þennan brimskafl. Gleymum líka ekki að þetta er tímabundið ástand.

Stöndum saman og vinnum sigur. 

Með kærri kveðju,

Jón Atli Benediktsson,
Rektor Háskóla Íslands.“

""