Skip to main content
25. mars 2020

Stöndum saman og leitum lausna

""

Rektor Háskóla Íslands sendi eftirfarandi tilkynningu til stúdenta og starfsfólks 26. mars:

„Kæru nemendur og starfsfólk.

Síðustu daga hef ég fundað ásamt samstarfsfólki með stjórnum allra fræðasviða Háskólans um þær leiðir sem best henta til að ljúka þessu misseri við þær erfiðu aðstæður sem nú eru uppi. Unnið er hörðum höndum að þessu og hafa kennarar og deildir verið að kynna nemendum nýja framkvæmd námsmats og munu gera það áfram á allra næstu dögum. Einnig höfum við ofarlega í huga þá nemendur sem finna hvað mest fyrir álagi vegna aðstæðna í samfélaginu. 

Þegar tekist er á við stór verkefni, eins og við stöndum nú frammi fyrir, skiptir máli að fá sjónarmið sem flestra fram. Þess vegna hefur verið mikilvægt að ræða við deildarforseta, kennara og nemendur undanfarna daga. Það hjálpar okkur að fá eins skýra mynd af stöðunni og kostur er.

Forseti Stúdentaráðs, Jóna Þórey Pétursdóttir, sat fund neyðarstjórnar í morgun og kynnti sjónarmið nemenda. Mun hún sitja áfram á fundum neyðarstjórnar enda leggjum við áherslu á að hafa velferð stúdenta í fyrirrúmi.

Þá kom Magnús Gottfreðsson, prófessor í læknisfræði og sérfræðingur í smitsjúkdómum, á fund neyðarstjórnar í gærmorgun og fór yfir stöðu mála og horfur varðandi faraldurinn. Magnús situr í neyðarstjórn Landspítalans og býr yfir afar dýrmætri þekkingu og reynslu sem hann deilir með okkur og mun nýtast Háskólanum.

Þetta eru umbrotatímar en við vitum að þetta er tímabundið ástand. Við þurfum að standa saman og leita lausna, huga að velferð allra og ekki gleyma okkur sjálfum.

Með góðri kveðju,

Jón Atli Benediktsson, rektor"

""