Skip to main content
6. ágúst 2020

Starfsemi við Háskóla Íslands haustið 2020

""

Jón Atli Benediktsson, rektor Háskóla Íslands, sendi meðfylgjandi tilkynningu til starfsfólks og nemenda í dag (6. ágúst 2020):

„Kæru nemendur og samstarfsfólk.

Nú líður að því að kennsla hefjist að nýju eftir sumarleyfi sem ég vona innilega að öllum hafi reynst vel. Í ljósi alvarlegrar stöðu varðandi útbreiðslu COVID-19 setur Háskóli Íslands öryggi allra, innan sem utan veggja skólans, í algeran forgang. Fyrirkomulag kennslu á haustmisseri mun þannig miða að því að tryggja velferð stúdenta og starfsfólks:

  • Tilmælum sóttvarnarlæknis verður fylgt í hvívetna. 
  • Ákvörðun um skipulag kennslu á haustmisseri verður kynnt á næstu dögum, en miðað við núverandi aðstæður er útlit fyrir að styðjast verði við rafræna kennslu að verulegu leyti.
  • Kostað verður kapps um að taka vel á móti nýnemum. 
  • Byggingar Háskólans verða áfram opnar fyrir nemendur og starfsfólk með ákveðnum takmörkunum. 
  • Leitast verður við að nýta byggingar háskólans til staðnáms eftir því sem kostur er.

Núgildandi tilmæli sóttvarnarlæknis gilda til 13. ágúst nk. og hvet ég ykkur öll til að kynna ykkur þau rækilega og fylgja þeim í einu og öllu.

Þær hömlur gilda að ekki mega fleiri en 100 fullorðnir koma saman og þá þurfa að vera a.m.k. tveir metrar (2m) á milli einstaklinga. Bera þarf andlitsgrímu ef þess er ekki kostur.

Tilhlökkun margra er mikil við að hefja nýtt skólaár og við munum sannarlega gera allt sem í okkar valdi stendur til að allir upplifi þann einstaka anda sem fylgir námi og starfi í Háskóla Íslands.

Bestu kveðjur,
Jón Atli Benediktsson, rektor“
 

Nemendur við Háskólatorg