Skip to main content
16. febrúar 2018

Söngur styður vel við þroska ungra barna

""

„Söngtaka er ferlið sem börn fara í gegnum frá fæðingu þar til þau ná tökum á því að syngja söngva sem tilheyra þeirra menningu. Orðið er myndað líkt og orðið máltaka en rannsóknir á söngtöku snúast um söng og þar af leiðandi tónlistarþroska á meðan máltökurannsóknir snúast um tal og málþroska,“ segir Helga Rut Guðmundsdóttir, dósent í menntunarfræði tónlistar við Menntavísindasvið Háskóla Íslands. 

Undanfarin ár hefur Helga Rut m.a. unnið að umfangsmiklu alþjóðlegu rannsóknarverkefni á söngtöku barna en slíkar rannsóknir eru mun skemmra á veg komnar en máltökurannsóknir. „Eitt af því áhugaverða við rannsóknir á söngtöku er að skoða hvernig hún hefur áhrif á máltökuna og öfugt,“ segir Helga Rut en bætir við að nýjustu rannsóknir á söngtöku barna bendi til þess að stórir gallar hafi verið á þess háttar rannsóknum á seinni hluta 20. aldar. 

„Síðustu þrjú ár hafa rannsóknir sýnt fram á mun meiri færni barna í söng á unga aldri en áður var talið mögulegt og þá skiptir miklu máli hvaða mæliaðferðir eru notaðar. Það skiptir einnig máli hversu mikla tónlistarlega örvun börn fá fyrstu mánuðina og árin. Þessar nýju rannsóknir hafa verið gerðar á Íslandi í samstarfi við kanadíska sérfræðinga á sviði ungbarnarannsókna og eru birtar í handbókinni Oxford handbook of singing (2015) og í tímaritinu Psychology of Music (2017).“ 

Helga Rut Guðmundsdóttir 

Helga Rut Guðmundsdóttir er dósent við Menntavísindasvið Háskóla Íslands á sviði tónlistarmenntunar. Hún er tónmenntakennari að mennt með MA-gráðu og doktorspróf í tónlistarmenntunarfræðum frá McGill-háskóla. Rannsóknarsvið hennar varða tónlistarnám, tónlistarskynjun og tónlistarþroska barna. Hún hefur starfað við rannsóknarstofu í heilarannsóknum (International laboratory for Brain Music and Sound Research) í Montreal í Kanada og hlaut Fulbright-fræðimannastyrk til að vinna að söngrannsóknum í Bandaríkjunum. Helga Rut stendur einnig fyrir rannsóknagrunduðum tónlistarnámskeiðum fyrir ung börn og foreldra undir nafninu Tónagull. 

Stundum er talað um að tónlist og söngur sé gott skemmtiefni sem hefur ofan af fyrir börnum. En að hvaða leyti getur söngur stutt við uppeldi og þroska barna? „Söngur er samofinn þroska barna enda virðast öll börn leika sér með tóna og söngla með sjálfum sér á svipuðum tíma og þau eru að ná tökum á tungumáli. Söngur er því bæði aðferð til að ná tökum á tungumálinu en einnig miðill sem börn nota til að tjá sig og leika sér með. Markviss örvun í gegnum tónlist, þ.e. söngva, rímur og rytma hefur marktæk áhrif á framfarir barna á sviði söngvísi (færni í að syngja), málfærni og málhljóðagreiningu.“ 

Að sögn Helgu Rutar er afar mikilvægt að efla rannsóknir á þessu sviði enda sé til mikils að vinna fyrir allt samfélagið. „Rannsóknir undirstrika sífellt betur að tónlist veitir ekki bara gleði heldur gegnir mikilvægu hlutverki í þroskaferli barna. Einnig skiptir miklu máli að foreldrar, kennarar og umönnunaraðilar ungra barna séu meðvitaðir um virkni tónlistar í þroska barna og kunni að nýta þá þekkingu til góðs fyrir komandi kynslóðir.“ 

Framsækin menntun fyrir farsælt samfélag 

Fréttin er liður í myndbandsröð um rannsakendur á Menntavísindasviði sem ber yfirskriftina Framsækin menntun fyrir farsælt samfélag. 

Myndböndin eru aðgengileg á YouTube-rás Menntavísindasviðs. 

„Söngtaka er ferlið sem börn fara í gegnum frá fæðingu þar til þau ná tökum á því að syngja söngva sem tilheyra þeirra menningu. Orðið er myndað líkt og orðið máltaka en rannsóknir á söngtöku snúast um söng og þar af leiðandi tónlistarþroska á meðan máltökurannsóknir snúast um tal og málþroska,“ segir Helga Rut Guðmundsdóttir, dósent í menntunarfræði tónlistar við Menntavísindasvið Háskóla Íslands.