Skip to main content
24. janúar 2019

Skoðaði tengsl hreyfingar og námsárangurs

Elvar Smári Sævarsson hefur varið doktorsritgerð sína í menntavísindum við Deild heilsueflingar, íþrótta og tómstunda. Ritgerðin nefnist Líkamlegt atgervi og námsárangur. Þverskurðar- og langtímasniðsrannsókn á íslenskum börnum og unglingum.

Andmælendur voru Geir Kåre Resaland, prófessor við Western Norway University of Applied Sciences, og Sigrún Ólafsdóttir, prófessor við Félagsvísindasvið Háskóla Íslands.

Leiðbeinandi var Erlingur S. Jóhannsson, prófessor við Menntavísindasvið, og meðleiðbeinandi Þórarinn Sveinsson, prófessor við Heilbrigðisvísindasvið. Auk þeirra sátu í doktorsnefnd Sigurgrímur Skúlason og Erla Svansdóttir.

Anna Sigríður Ólafsdóttir, prófessor og forseti Deild heilsueflingar, íþrótta og tómstunda stjórnaði athöfninni sem fram fór 14. janúar síðastliðinn í Hátíðasal Háskóla Íslands.

Um doktorsverkefnið

Sýnt hefur verið fram á að regluleg hreyfing, og í framhaldi þrek, hefur góð áhrif á heilsufar ungs fólks. Tengsl milli hreyfingar og námsgetu hafa verið rannsökuð en niðurstaðan er óljós. Það sama gildir um tengsl milli líkamsfitu og námsárangurs.

Markmið verkefnisins var að skoða tengsl hreyfingar, þreks og líkamsfitu við námsárangur hjá íslenskum börnum og unglingum. Stuðst var við gagnasöfn frá þremur íslenskum rannsóknum gerðum á lífsstíl og heilsufari barna og unglinga. Þverskurðartengsl sem og langtímatengsl voru skoðuð. Hreyfing var mæld með hreyfimælum en einnig svöruðu þátttakendur spurningu um hversu of þeir stunduðu skipulagt íþróttastarf utan skóla. Þrek var mælt með stigvaxandi hámarksprófi á þrekhjóli og líkamsfita var metin með líkamsþyngdarstuðli (BMI) og sem hlutfall líkamsfitu af heildar líkamsþyngd (DXA mæling). Niðurstöður úr samræmdum prófum voru notaðar til að meta námsárangur.

Niðurstöður verkefnisins leiddu í ljós að þátttaka í skipulögðu íþróttastarfi fjórum sinnum í viku eða oftar hafði tengsl við betri árangur í stærðfræði. Hreyfing mæld með hreyfimælum hafði engin tengsl við námsárangur. Aukning á líkamsfitu umfram meðaltal milli 9 og 15 ára aldurs hafði tengsl við versnandi árangur í stærðfræði. Engin tengsl fundust milli þreks og námsárangurs.

Aukning á líkamsfitu getur verið áhættuþáttur gagnvart versnandi námsgetu barna og unglinga. Erfitt er að segja til um orsakasamhengi en frekari rannsókna er þörf á þáttum sem geta tengst báðum þáttum. Þátttaka í íþróttastarfi virðist hafa jákvæð áhrif á námsárangur iðkenda jafnvel þótt miklum tíma sé eitt í iðkunina. Frekari rannsókna er þörf á því hvers vegna íþróttaiðkun hefur tengsl við bættan námsárangur en hreyfing mæld með hreyfimælum hefur engin tengsl.

Um doktorsefnið

Elvar Smári er fæddur á Akureyri 11. október 1974. Foreldrar hans eru Sævar Jónatansson (f. 1946) og Þórunn Þorgilsdóttir (f. 1946).  Börn Elvars eru Örvar Ernir (f. 2002) og Selma Hrönn (f. 2004). Hann lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum á Akureyri 1994 og íþróttakennaraprófi 1999 frá Íþróttakennaraskóla Íslands á Laugarvatni. Hann stundaði sjúkranuddnám við Canadian College of Massage and Hydrotherapy í Kanada 2001, lauk bakkalárgráðu í íþrótta- og heilsufræði frá Kennaraháskóla Íslands og meistaragráðu í íþrótta- og heilsufræði frá Háskóla Íslands 2014. Elvar hefur verið íþróttakennari við grunn- og framhaldsskóla á Akureyri frá 2001 og sjálfstætt starfandi sjúkranuddari frá 2001. Hann starfaði einnig sem þjálfari á heilsuræktarstöðvum frá 1996 til 2018 með hléum.

Elvar Smári Sævarsson ásamt andmælendum sínum við doktorsvörnina sem fram fór þann 14. janúar síðastliðinn. Með þeim á myndinni er Anna Sigríður Ólafsdóttir, forseti Deildar heilsueflingar, íþrótta og tómstunda sem stjórnaði athöfninni.
Elvar Smári Sævarsson við doktorsvörnina.