Skip to main content
29. mars 2021

Skapa fleiri tækifæri til starfsþjálfunar fyrir nemendur

Skapa fleiri tækifæri til starfsþjálfunar fyrir nemendur - á vefsíðu Háskóla Íslands

Fulltrúar Háskóla Íslands, atvinnulífs og hins opinbera hafa samið um að efla sitt samstarf og auka möguleika háskólanema á starfsþjálfun og verkefnavinnu fyrir þessa aðila en slíkt gagnast í senn háskólanemum, atvinnulífi og samfélaginu öllu. Þau Lilja Alfreðsdóttir mennta- og menningarmálaráðherra, Eyjólfur Árni Rafnsson, formaður Samtaka atvinnulífsins, og Jón Atli Benediktsson, rektor Háskóla Íslands, settust niður á dögunum af þessu tilefni og ræddu mikilvægi öflugrar starfsþjálfunar í nútíð og framtíð.

Upptaka af spjallinu

Með samstarfinu er verið formgera enn betur viljayfirlýsingu sem aðilarnir gerðu fyrir nokkrum misserum og snýst í senn um að mæta þörfum nemenda en ekki síður atvinnulífs og samfélags. Til þess að tryggja velsæld og áframhaldandi samkeppnishæfni Íslands á alþjóðavísu er þörf á nánu samstarfi menntakerfis og atvinnulífs en með því má jafnframt tryggja áframhaldandi framþróun íslensks samfélags.

Í spjalli sínu komu þau Eyjólfur, Lilja og Jón Atli inn á fjölmarga kosti samstarfs um starfsþjálfun. „Ég þekki það í gegnum mín fyrri störf hversu mikilvægt það er að halda á einmitt þessum þætti, bæði í menntakerfinu og atvinnulífinu og það skilar okkur í senn betri starfskröftum og betur menntuðu fólki, betri einstaklingum, út í atvinnulífið en að sama skapi þroskar það áfram atvinnulífið sjálft og háskólanámið,“ benti Eyjólfur á.

Lilja Alfreðsdóttir mennta- og menningarmálaráðherra benti á að ótvíræður ávinningur væri af greiðum aðgangi nemenda að fyrirtækjum og það væri stór þáttur í nýrri menntastefnu sé að efla samstarf atvinnulífs og háskóla. Í samstarfinu fælist mikill hvati fyrir nemendur. „Að þú getir komist í starfsþjálfun hjá þínu draumafyrirtæki og þú ert kannski búin/n að hugsa um þetta í mjög langan tíma,“ sagði Lilja og vísaði m.a. í eigin reynslu úr námi í Bandaríkjunum þar sem nemendur þurftu að ljúka tiltekinni starfsþjálfun hjá fyirtæki eða stofnun í því fagi sem þeir menntuðu sig í.

Jón Atli Benediktsson, rektor Háskóla Íslands, benti á að samstarf Háskólans og atvinnulífs hefði verið töluvert í gegnum tíðina og að Háskólinn legði mikla áherslu á að þjóna bæði samfélagi og atvinnulífi. „Með því að efla þetta samstarf erum við að bjóða nemendum tækifæri, sem mér finnst vera aðalatriðið vegna þess að nemendur eru framtíðin. Það hjálpar okkur og atvinnulífinu og samfélaginu að auka tækifæri þeirra,“ sagði Jón Atli og bætti við að honum fyndist skilyrðislaust að stefna ætti að því að efla samstarfið enn frekar.

Nemendur bera nýja strauma inn í fyrirtæki

Bent var á að með starfsþjálfun nemenda kæmu nýir straumar inn í fyrirtæki. Eyjólfur lýsti eigin reynslu af starfsþjálfun í bæði verk- og háskólanámi og sagði ómetanlegt að koma inn í fyrirtæki þar sem vilji væri fyrir að leiðbeina starfsnemum. „Sem stjórnandi í fyrirtæki upplifði maður það oft að það komu nýir straumar, hugmyndir og þekking inn í fyrirtækið með viðkomandi einstakling. Það eru verðmæti sem ég held að séu oft vanmetin,“ sagði Eyjólfur.

Lilja sagðist einnig hafa lagt á það áherslu í mennta-og menningarmálaráðuneytinu að fá inn nemendur sem sumarstarfsfólk með framtíðina í huga. „Það er svo mikill ávinningur í því fyrir nemendur, sérstaklega að vera á nokkrum stöðum,“ bætti Lilja við.

Jón Atli benti á hversu mikil reynsla fælist í starfsþjálfun fyrir nemendur og það mætti ekki vanmeta. Með því að formgera samstarf og skapa ramma um það væri líka stutt við fyrirtæki til að taka við nemendum. „Við vitum að það er skuldbinding fyrir fyrirtæki að taka á móti nemendum vegna þess að það er starfsfólk sem þarf að fylgjast með og ef vel gengur er þetta gríðarlega sterkt tækifæri fyrir nemendur. Þeir geta mögulega fengið starf í framhaldinu eða í það minnsta á ferilskrána sína.“

Jón Atli sagði unnið að samstarfsverkefninu um starfsþjálfun innan einstakra deilda skólans og í gegnum vefinn tengslatorg.hi.is, sem Háskólinn rekur, gæfist atvinnulífinu tækifæri til að auglýsa eftir starfskröftum, hvort sem er í starfsþjálfun, sumarstörf eða framtíðarstörf.

Jón Atli Benediktsson, Eyjólfur Árni Rafnsson og Lilja Alfreðsdóttir